Við þurfum að gera miklu betur

Sverrir ræðir við sitt lið í dag.
Sverrir ræðir við sitt lið í dag. mbl.is/Eyþór

„Það vantaði upp á vörnina og fráköst hjá okkur,“ sagði Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari kvennaliðs Keflavíkur í körfubolta, í samtali við mbl.is í dag.

Keflavík tapaði fyrir Stjörnunni, 86:79, í fjórða leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmótsins í dag. Ráðast úrslitin því í oddaleik í Keflavík á mánudag.

„Þetta var kaflaskipt, eins og hefur verið í þessum leikjum hjá okkur. Við þurfum að gera betur, mæta af meiri krafti og framkvæma hlutina með ákefð. Við þurfum að gera miklu betur,“ sagði hann.

„Þær eru hrikalega sterkar á heimavelli og eru erfitt lið. Við vorum samt í hörkuleik hérna, en fjórði leikhlutinn okkar var ekki nógu góður. Við eigum einn séns til að komast í lokaúrslit.

„Við erum á lífi í þessu og nú er þetta einn leikur sem sker úr hvort lið fer áfram og við verðum að nýta það,“ bætti Sverrir við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert