Kristófer er besti varnarmaður deildarinnar

Kristinn Pálsson, til hægri, í leiknum í kvöld.
Kristinn Pálsson, til hægri, í leiknum í kvöld. mbl.is/Eyþór Árnason

Valsmenn eru einum sigri frá því að tryggja sér Íslandsmeistaratitil karla í körfubolta eftir 18 stiga sigur á Grindavík á Hlíðarenda í kvöld.

Kristinn Pálsson leikmaður Vals átti frábæran leik í kvöld, skoraði 11 stig, var með 5 fráköst og gaf 3 stoðsendingar. Hann hafði þetta að segja spurður út í sigurinn í kvöld:

„Mér fannst ákefðin og orkan í okkur mjög góð allan leikinn. Það gefur okkur mjög mikið þegar leikmaður eins og Frank Booker setur 20 stig á töfluna.

Það losar um alla hina leikmennina og svo var varnarleikurinn mjög sterkur og þetta er gott veganesti í næsta leik.“

Það koma tvær tæknivillur í röð í þriðja leikhluta sem gefur Valsmönnum 8 stig á töfluna. Var þetta vendipunktur í leiknum sem skilur liðin að?

„Já, eða þú veist. Það hefur verið orðrómur um það að Gríndvíkingar séu fljótir að missa hausinn og allt það. Við þurfum að ýta þeim út í þá vitleysu til að það gerist.

Þegar þeir fara þangað þá þurfum við að vera duglegir að notfæra okkur það og okkur tókst það í kvöld,“ útskýrði Kristinn.

Fannst þér Grindavík missa hausinn í dag?

„Já, ég veit það náttúrlega ekkert en manni fannst það. Mér fannst þeir missa hausinn smá og verða fljótt pirraðir, sérstaklega í síðari hálfleik og það gaf okkur færi á að gera enn betur í leiknum,“ sagði hann.

DeAndre Kane hefur verið lykilmaður í liði Grindavíkur og hefur oft haldið leik þeirra uppi. Ykkur tókst algjörlega að halda honum niðri í kvöld. Hver er lykillinn að því?

„Já, [Kristófer] Acox er besti varnarmaður deildarinnar og hann var að dekka Kane allan leikinn. Hann gerði það bara ofboðslega vel.

Við þurftum að hjálpa minna og þá opnaðist minna. Þá þurftu þeir að fara að skjóta yfir okkur og boltinn bara stoppaði hjá þeim,“ sagði Kristinn.

Grindvíkingar eru ansi sterkir í Smáranum en þið ætlið ykkur að lyfta Íslandsmeistarabikarnum þar á sunnudag?

„Það er stefnan. Við stefnum að því,“ sagði hann.

Hvað þarf til þess að það takist?

„Bara svipað og í dag. Ákefð, mikla orku og vera óhræddir við að spila okkar leik eins og við gerðum í kvöld,“ sagði Kristinn að lokum í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert