Gamla ljósmyndin: Háloftafugl

Ólafur Ólafsson.
Ólafur Ólafsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Þrátt fyrir náttúruhamfarir og rýmingu bæjarins hefur Grindvíkingum tekist að komast í úrslit Íslandsmóts karla í körfuknattleik. Úrslitin eru í fullum gangi eins og íþróttaunnendur þekkja og þar er staðan 2:1 fyrir Val. Liðin mætast í fjórða sinn í Smáranum í Kópavogi annað kvöld en þar leikur Grindavík heimaleiki sína eins og sakir standa. 

Til að geta unnið síðustu tvo leikina og þar með Íslandsmótið þurfa Grindvíkingar á góðu framlagi að halda frá sínum reyndasta manni Ólafi Ólafssyni.

Þegar Ólafur vakti fyrst athygli sem ungur leikmaður í meistaraflokki var það ekki síst fyrir mikinn stökkkraft og kraftmiklar troðslur. Sigraði hann til að mynda í troðslukeppni KKÍ með miklum tilþrifum. 

Á meðfylgjandi mynd er Ólafur að tryggja sér sigur í troðslukeppninni í Seljaskólanum í Breiðholti í desember árið 2010 eða fyrir tæpum fjórtán árum. Myndina tók Eggert Jóhannesson sem enn myndar fyrir mbl.is og Morgunblaðið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert