Boston í kjörstöðu gegn Indiana

Jayson Tatum átti stórleik í nótt
Jayson Tatum átti stórleik í nótt AFP/STACY REVERE

Boston Celtics sigruðu Indiana Pacers 114:111 í Indianapolis í nótt og eru nú einum leik frá lokaúrslitum NBA deildarinnar í körfubolta. Boston vann upp átján stiga forskot Indiana í seinni hálfleik. Liðin mætast aftur á mánudagskvöld.

Þó staðan sé 3:0 í einvíginu hafa leikir liðanna verið æsispennandi. Indiana var átta stigum yfir þegar þrjár mínútur voru til leiksloka en slakar ákvarðanir í sóknarleiknum kostuðu heimamenn á lokasprettinum. Fjarvera Tyrese Haliburton, leikstjórnanda Pacers, hafði töluverð áhrif í lok leiks en hann meiddist á læri í leik tvö.

Jrue Holiday kom Boston yfir með vítaskoti í þriggja stiga sókn, hann stal því næst boltanum af Andrew Nembhard þegar tæpar fjórar sekúndur voru eftir af leiknum og innsiglaði þriggja stiga sigur Boston af vítalínunni.

Jayson Tatum var atkvæðamestur í liði Celtics með tvöfalda tvennu, 36 stig og tíu fráköst. Jaylen Brown skoraði 24 stig og Al Horford 23. Holiday skoraði fjórtán stig, tók níu fráköst og stal þremur boltum en hann var að glíma við flensu í aðdraganda leiksins.

Andrew Nembhard var stigahæstur hjá Pacers með 32 stig og níu stoðsendingar í fjarveru Haliburton. TJ McConnel skoraði 23 stig og Pascal Siakam og Myles Turner voru með 22 stig hvor.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert