Síðasti möguleiki minn á titli

Jorge Masvidal.
Jorge Masvidal. AFP

MMA-bardagakappinn Jorge Masvidal segir að ferill hans í blönduðum bardagalistum geti ekki talist fullkominn fyrr en hann vinnur meistaratitilinn í veltivigt í UFC.

Í nótt mætir hann Kamaru Usman öðru sinni í bardaga um veltivigtarbeltið í UFC. Í fyrri bardaga þeirra, sem var einnig titilbardagi, vann Usman.

„Að vinna þetta belti er einn af mörgum hlutum á lista mínum yfir markmið áður en ég loka þessum kafla. Ég lít á hvern einasta bardaga sem minn síðasta möguleika þannig að ég verð að gefa allt sem ég á, ég verð að fara á eftir því sem ég vil áorka,“ sagði Masvidal á blaðamannafundi í gær.

Hann er orðinn 36 ára gamall og telur því að möguleikunum á að vinna belti fari fækkandi. „Ef ég vil verða heimsmeistari þá er þetta síðasti séns, ég verð að kýla á þetta,“ bætti Masvidal við.

mbl.is