Noti ekki verðlaunapalla til pólitískra yfirlýsinga

Thomas Bach, forseti Alþjóðaólympíunefndarinnar.
Thomas Bach, forseti Alþjóðaólympíunefndarinnar. AFP

Thomas Bach, forseti alþjóðaólympíunefndarinnar, segir að íþróttafólk sem tekur þátt í Ólympíuleikunum í Tókýó ætti ekki að nota verðlaunapalla til þess að koma pólitískum skoðunum sínum á framfæri.

„Verðlaunapallar og verðlaunaafhendingar eru ekki fyrir pólitískar yfirlýsingar eða yfirlýsingar af öðru tagi,“ sagði Bach í samtali við Financial Times í vikunni.

Í mánuðinum var slakað á reglu númer 50, sem bannaði alfarið mótmæli íþróttafólks á leikunum, en nú má það notast við látbragð á keppnisvöllum í mótmælaskyni, svo fremi sem það truflar ekki annað íþróttafólk og sýnir því virðingu.

Komi til einhverra mótmæla á verðlaunapöllum hins vegar mega keppendur og/eða íþróttasambönd þjóða þeirra eiga von á refsingu frá nefndinni.

Á þetta til dæmis við um að krjúpa á kné til þess að mótmæla kynþáttamismunun.

„Verðlaunafhendingar eru hugsaðar til þess að heiðra íþróttafólkið og verðlaunahafana fyrir íþróttaafrek sín en ekki fyrir persónulegar skoðanir þeirra.

Markmiðið er að sameina allan heiminn á einum stað og keppa friðsamlega hvert við annað. Það væri aldrei hægt ef leikarnir yrðu sundrandi á einhvern hátt,“ bætti Bach við.

mbl.is