Um hundrað bandarískir mæta óbólusettir til leiks

Karlalandslið Bandaríkjanna í körfuknattleik er mætt til leiks á ÓL …
Karlalandslið Bandaríkjanna í körfuknattleik er mætt til leiks á ÓL í Tókýó. AFP

Um það bil eitt hundrað bandarískir keppendur á Ólympíuleikunum í Tókýó hafa ekki verið bólusettir við kórónuveirunni, samkvæmt upplýsingum frá yfirmanni læknateymis bandaríska ólympíuliðsins sem er mætt eða á leiðinni til Japan.

Jonathan Finnoff skýrði frá því að 567 af 613 bandarískum keppendum hefðu skilað af sér skýrslum varðandi heilsufar og um það bil 83 prósent þeirra hefðu svarað því til að þeir hefðu verið bólusettir. Það þýðir að um eitt hundrað af hópnum í heild mæta óbólusettir til leiks.

„Áttatíu og þrjú prósent er mjög há tala og við erum mjög ánægð með það," sagði Finnoff við fréttastofuna AP. Í Bandaríkjunum hafa 56,3 prósent landsmanna fengið að minnsta kosti fyrri sprautuna af bóluefni við kórónuveirunni.

Alþjóða ólympíunefndin, IOC, hefur áætlað að um 85 prósent þess íþróttafólks sem mun dvelja í ólympíuþorpinu á meðan leikarnir standa yfir sé bólusett fyrir veirunni. Þær tölur séu byggðar á skýrslum ólympíunefnda þjóðanna og því ekki staðfestar opinberlega.

Ólympíuleikarnir verða formlega settir í dag en setningarathöfnin hefst klukkan 11 að íslenskum tíma, en þá er klukkan orðin 20 að kvöldi í Japan.

mbl.is