Fyrsti íslenski sigurinn í Tókýó

Kari Brattset Dale skorar eitt af 11 mörkum sínum fyrir …
Kari Brattset Dale skorar eitt af 11 mörkum sínum fyrir norska liðið í dag. AFP

Þórir Hergeirsson varð fyrstur íslensku handknattleiksþjálfaranna á Ólympíuleikunum í Tókýó til að fagna sigri en norska kvennalandsliðið undir hans stjórn vann öruggan sigur á Suður-Kóreu í sínum fyrsta leik á mótinu sem var að ljúka, 39:27.

Norska liðið var með leikinn í hendi sér allan tímann en staðan var 18:10 í hálfleik. Kari Brattset Dale skoraði 11 mörk fyrir Noreg og Veronica Kristiansen 7 og Silje Solberg var með 43 prósent markvörslu, 18 skot varin. Haein Sim var atkvæðamest hjá Suður-Kóreu með fimm mörk.

Noregur leikur næst við Angóla á þriðjudaginn.

Þórir Hergeirsson kallar á sína leikmenn í leiknum gegn Suður-Kóreu …
Þórir Hergeirsson kallar á sína leikmenn í leiknum gegn Suður-Kóreu í dag. AFP

Holland vann Japan örugglega í fyrsta leiknum í morgun, 32:21. Lois Abbingh var atkvæðamest í liði Hollendinga með 7 mörk en Shio Fujii skoraði fimm mörk fyrir japanska liðið.

Rússland og Brasilía skildu jöfn í hörkuleik, 24:24, þar sem ekkert mark var skorað síðustu þrjár mínútur leiksins. Ekaterina Ilina skoraði sex mörk fyrir Rússa og Bruna de Paula skoraði sjö mörk fyrir Brasilíu.

Svartfjallaland vann Angóla 33:22 eftir jafnan fyrri hálfleik þar sem þær svartfellsku voru með nauma forystu 13:12. Jovanka Radicevic átti frábæran leik og skoraði 12 mörk úr jafnmörgum skotum fyrir Svartfjallaland en Natalia Fonseca skoraði sex mörk fyrir Angóla.

mbl.is