Biles keppir ekki í gólfæfingum – ákveður síðar með jafnvægisslá

Simone Biles.
Simone Biles. AFP

Bandaríska fimleikastjarnan Simone Biles hefur dregið sig úr einstaklingskeppninni í úrslitum gólfæfinga á Ólympíuleikunum í Tókýó. Síðar í vikunni tekur hún ákvörðun um hvort hún tekur þátt í úrslitunum á jafnvægisslá.

Hún var þegar búin að draga sig úr liðakeppninni á leikunum sem og einstaklingskeppni í fjölþraut.

„Simone hefur dregið sig úr keppni í úrslitum gólfæfinga og mun taka ákvörðun um jafnvægisslána síðar í vikunni. Hvernig sem þetta fer stöndum við öll við bakið á þér, Simone,“ sagði í stuttri yfirlýsingu frá fimleikasambandi Bandaríkjanna.

Ástæðan fyrir því að Biles keppir ekki er vegna þess að hún glímir við andleg veikindi og treystir sér einfaldlega ekki.

Einstaklingskeppnin á jafnvægisslá er síðasta greinin sem Biles gæti mögulega keppt í.

mbl.is