Fyrsti sigurinn á stórmóti kom á Ólympíuleikunum

Xander Schauffele bítur í ólympíugullið í nótt.
Xander Schauffele bítur í ólympíugullið í nótt. AFP

Bandaríkjamaðurinn Xander Schauffele tryggði sér í nótt ólympíugull í golfi karla á Ólympíuleikunum í Tókýó. Um er að ræða hans fyrsta sigur á stórmóti á ferlinum.

Austurríkismaðurinn Sepp Straka leiddi eftir fyrsta hring en Schauffele var hins vegar með forystuna að loknum öðrum hring og tókst að halda henni allt til enda.

Schauffele, sem er 27 ára gamall, lék á alls 266 höggum, á 18 undir pari, á fjórum hringjum og vann Slóvakann Rory Sabbatini, sem lék á 17 höggum undir pari, með einu höggi.

Sabbatini átti hring ævi sinnar og setti ólympíumet fyrir einn hring þegar hann lék lokahringinn á aðeins 61 höggi, samanborið við 72 högg Schauffele.

Það reyndist ekki nóg til að vinna en Sabbatini tryggði sér silfrið með þessari mögnuðu spilamennsku.

C.T. Pan frá Taívan tryggði sér svo bronsið eftir hörkubaráttu við Rory McIlroy, Collin Morikawa, Hideki Matsuyama, Sebastian Munoz og Paul Casey.

mbl.is