Var bannað að spila með uppbrettar ermar

Hayley Raso með boltann í leiknum í dag eftir að …
Hayley Raso með boltann í leiknum í dag eftir að hún var búin að setja ermarnar niður. AFP

Hayley Raso, vængmaður ástralska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, lék hluta af fyrri hálfleik liðsins í undanúrslitum Ólympíuleikanna í Tókýó gegn Svíþjóð með uppbrettar ermar.

Útlit var fyrir að Raso væri hreinlega í hlýrabol í steikjandi hitanum í Tókýó í dag og vakti það athygli tökumanna leiksins sem mynduðu hana ítrekað, því knattspyrnufólk leikur jafnan í stutterma eða langerma treyjum.

Hún hafði þó aðeins brett ermarnar alveg upp yfir axlir. Þegar dómari leiksins, Melissa Borjas frá Hondúras, tók eftir því skipaði hún Raso, sem leikur með Everton á Englandi, að setja ermarnar niður aftur, sem hún og gerði.

Samkvæmt reglum Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, má nefnilega ekki spila í ermalausum treyjum.

Staðan í leik Svíþjóðar og Ástralíu er 1:0, Svíum í vil, þegar síðari hálfleikur er nýhafinn.

Kamerúnska karlalandsliðið vann Afríkukeppnina árið 2002 og lék þá í ermalausum treyjum frá Puma. FIFA bannaði hins vegar slíkar treyjur að mótinu loknu.

Kamerún kom sér aftur í sviðsljósið þegar karlaliðið keppti í samfestingi, einnig frá Puma, árið 2004. Samkvæmt reglum FIFA má ekki heldur keppa í samfestingum.

mbl.is