Sjö greinar á dagskrá Reykjavíkurleikanna í dag

Rafíþróttir voru í fyrsta sinn keppnisgrein á Reykjavíkurleikunum 2019. Í …
Rafíþróttir voru í fyrsta sinn keppnisgrein á Reykjavíkurleikunum 2019. Í ár fer keppnin fram í Háskólabíó. ÍBR/Kjartan Einarsson

Seinni keppnishelgi 13. Reykjavíkurleikanna stendur nú sem hæst og eru sjö greinar á dagskrá leikanna í dag. Keppni hefst í badminton unglinga, rafíþróttum og skotfimi. Þá munu úrslit ráðast í crossfit, hermiakstri og skvassi auk þess sem það skýrist hverjir komast áfram í úrslitakeppnina í keilu.

Fun Park Reykjavíkurleikanna í anddyri Laugardalshallar verður opið í dag frá 11:30-15:00. Þar er frítt inn og geta gestir og gangandi fengið að prófa ýmsar íþróttagreinar t.d. borðtennis, lyftingar, dans, parkour o.fl. Einnig verður hægt að prófa sýndarveruleika (VR) og taka myndir á skemmtilegum myndabás. Tilvalið fyrir foreldra að kíkja þarna við með börn sín og kynna þeim fjölbreytileika íþrótta.

Helstu upplýsingar um keppnisgreinar dagsins á Reykjavíkurleikunum:

Badminton unglinga

Keppni í badminton unglinga hófst klukkan 9:00 í TBR húsinu í morgun. Um 160 keppendur taka þátt í mótinu, þar af um 50 frá Færeyjum. Hér á tournamentsoftware.com er hægt að fylgjast með framgangi mótsins.

Crossfit

Keppni í CrossFit hefst klukkan 11 í dag í Laugardalshöll og stendur til klukkan 18. Að loknum þremur æfingum (WOD) af átta eru Ingimar Jónsson og Sandra Hrönn Árnadóttir efst í opna flokknum en einnig er keppt í fjölmörgum aldursflokkum. Í dag eru fimm æfingar á dagskrá og munu úrslit ráðast í öllum flokkum. Hægt er að fylgjast með gangi mála hér: http://rig2020.wodcast.com

Hermiakstur 

Keppni í hermiakstri fer fram í kvöld og er um er að ræða landsleik milli Íslands og Danmerkur. Keppnin fer fram á netinu en íslenska liðið verður staðsett í GT Akademíunni og Danirnir í Danmörku. Sýnt verður frá keppninni á stórum skjá í sal 1 í Laugardalshöll og eru áhugasamir hvattir til að fjölmenna þangað. Upphitun hefst klukkan 19, tímataka klukkan 20 og svo keppnin sjálf klukkan 20:20. Þetta er í fyrsta sinn sem hermiakstur er hluti af Reykjavíkurleikunum.

Keila

Síðasti undanriðillinn í keilu hófst klukkan 9:00 í Egilshöll í morgun og stendur keppni yfir til klukkan 12. Þá kemur í ljós hvaða 24 bestu úr undankeppninni komast í úrslitin á morgun sunnudag. Maria Rodriguez frá Kólumbíu var efst fyrir daginn í dag. Sjá stöðuna í keppninni hér á rigbowling.is.

Rafíþróttir

Keppni í rafíþróttum á Reykjavíkurleikunum fer fram í Háskólabíó í dag og á morgun. Í dag verður keppt í FIFA og League of Legends. Dagskrá og nánari upplýsingar má finna á hér á Facebook viðburði mótsins.

Skotfimi

Keppni í skotfimi fer fram í Laugardalshöll í dag og á morgun. Keppni í loftskammbyssu hófst klukkan 9 og stendur til 14 en á morgun er loftriffilkeppni á dagskrá. Keppendalista og nánari upplýsingar má finna hér á Facebook viðburði mótsins.

Skvass

Skvasskeppnin fer fram í húsnæði Skvassfélags Reykjavíkur á Stórhöfða 17. Keppni hefst klukkan 13 og er áætlað að hún standi yfir til klukkan 16. Í undanúrslitum spila Róbert Fannar Halldórsson og Magnús Helgason annars vegar og Hörður Már Gylfason og Erling Adolf Ágústsson hinsvegar en einnig er spilað um önnur sæti. Hægt er að fylgjast með framgöngu mótsins hér: http://bit.ly/rig2020tre

Dagskrá Reykjavíkurleikanna í heild má finna á rig.is.

mbl.is