Helgi og Gunnhildur sigurvegarar í Enduro á RIG

Frá Endurokeppni Reykjavíkurleikanna 2023
Frá Endurokeppni Reykjavíkurleikanna 2023 Ljósmynd/Ari Brekkan

Enduro-hjólreiðakeppni Reykjavíkurleikanna var haldin í Öskjuhlíð eins og verið hefur undanfarin ár en með nýjum leiðum.

Öskjuhlíð er vinsæl hjá hjólreiðafólki þar sem hún býður upp á aðstæður til fjallahjólreiða allan ársins hring, þó aðstæður í keppninni hafi verið með þeim erfiðari sem keppendur hafa lent í. Mikill snjór og klaki á jörðu með úrhellisrigningu í ofanálag.

Enduro er vinsælt keppnisfyrirkomulag í fjallahjólreiðum sem snýst um að keppa á svokölluðum sérleiðum, sem eru að mestu leyti niður í móti, þar sem úrslit ráðast af samanlögðum tíma í öllum sérleiðum. Í þetta sinn voru hjólaðar þrjár sérleiðir, þar sem tvær af þeim voru hjólaðar tvisvar sinnum, samanlagt fimm ferðir. 

Helgi Berg Friðþjófsson úr BFH sigraði í karlaflokki og fylgdi þar með eftir sigri í sama móti í fyrra. Helgi er einnig ríkjandi Íslandsmeistari í Enduro. Annar varð Bjarki Bjarnason úr HFR og Börkur Smári Kristinsson úr Tindi varð þriðji.

Gunnhildur Ingibjörg Georgsdóttir úr BFH vann kvennaflokkinn, en hún er einn reynslumesti keppandi í Enduro og Downhill í kvennaflokki og hefur verið ötul í að byggja upp unglingastarf í fjallahjólreiðum.

Í unglingaflokkum sigruðu Hilmar Páll Andrason úr BFH í junior flokki karla, Anton Sigurðarson úr BFH í U17 flokki og Sól Snorradóttir úr HFR í junior flokki kvenna, en þau eru gífurlega efnilegir fjallahjólarar sem munu láta að sér kveða hérlendis og erlendis á næstu árum.

mbl.is