Segja Seðlabankann saddan

Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands mbl.is/Ómar

Seðlabankinn hélt í dag óbreyttum vöxtum eins og flestir greiningaraðilar höfðu spáð fyrir um. Greiningardeild Arion banka segir í markaðspunktum í dag að ef verðbólgu- og gengisspá bankans gangi eftir muni aðhald peningastefnunnar aukast skarpt á næstu fjórðungunum, en hún gerir aftur á móti ráð fyrir vaxtahækkun á komandi vetri. „Verðbólguspá Seðlabankans byggist á þeirri forsendu að krónan haldist jafn sterk og hún er nú. Við teljum það ósennilegt nema með tilstuðlan Seðlabankans sjálfs. Við reiknum með að krónan veikist í vetur, líkt og hún hefur gert undanfarin tvö ár með samsvarandi verðbólguáhrifum. Byggt á þeirri skoðun okkar teljum við líklegt að Seðlabankinn grípi aftur til hækkunar stýrivaxta fyrir lok árs.

Segir greiningardeildin að það valdi nokkrum áhyggjum að Seðlabankinn sjái krónuna jafn sterka og raun ber vitni næstu misseri og ár þar sem núverandi gengi muni „draga verulega úr viðskiptaafgangi og þar með getu hagkerfisins til að standa undir framtíðargreiðslum af erlendum skuldum og vaxtagreiðslum.

Í ágústmánuði spáir Arion banki því að verðbólgan muni aukast og fara upp um 0,5%. „Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan hækka eilítið og verða 4,8% í ágúst, samanborið við 4,6% í júlí“. Þrátt fyrir hækkun er greiningardeildin bjartsýn á framhaldið en skýtur föstum skotum að Seðlabankanum vegna gengis krónunnar. „Til skamms tíma hefur ástandið vissulega batnað en á hinn bóginn gæti veturinn reynst þyngri í skauti þar sem núverandi gengi krónunnar fær ekki staðist, nema e.t.v. að Seðlabankanum og stjórnvöldum takist með klókindum (og jafnvel klækjabrögðum) að afstýra veikingu krónunnar.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK