Bankarán bíta á bitcoin

Mark Karpeles, annar frá hægri, forseti Mt.Gox kauphallarinnar á fréttamannafundi ...
Mark Karpeles, annar frá hægri, forseti Mt.Gox kauphallarinnar á fréttamannafundi um gjaldþrot kauphallarinnar. JIJI PRESS

Rafgjaldmiðillinn bitcoin óx gríðarlega í vinsældum á seinni hluta síðasta árs. Í upphafi ársins 2013 var gengi bitcoin 13 dollarar, og fáir sýndu myntinni áhuga aðrir en áhugamenn um tölvur og frjálshyggju. Um sumarið hófst síðan stór sveifla upp á við og náði gengi bitcoins hæst upp í 1.200 Bandaríkjadali. Síðan þá hefur gengið fallið á ný og stendur nú í um 650 dollurum á hvert eitt bitcoin.

Munurinn á bitcoin og fyrri tilraunum til þess að halda úti rafrænni mynt er einkum sá að magni gjaldmiðilsins í umferð er stjórnað, notendur miðilsins þurfa að stunda „námugröft“ vilji þeir auka magnið í umferð, en rúmlega 11 milljón bitmyntir eru nú í umferð. Þá er einnig nýlunda að hver einustu viðskipti með myntina eru rekjanleg, þó ekki til einstaklinga. Þannig eiga notendur að geta verið öruggir um að ekki sé verið að svindla á þeim með fölsuðum eintökum.

62 milljarðar horfnir

Engin takmörk virtust vera á velgengni bitcoin, og sífellt fleiri fóru að nýta sér miðilinn til viðskipta. Til dæmis um það má nefna að seint á síðasta ári var opnaður fyrsti hraðbankinn sem verslaði með bitcoin í Vancouver í Kanada. Á föstudaginn í síðustu viku féll hins vegar nokkuð á raf-silfrið, þegar Mt.Gox, þriðja stærsta kauphöllin þar sem hægt var að skipta dollurum yfir í bitcoin, sótti um gjaldþrotaskipti. Kom þá í ljós að 850.000 bitmyntir höfðu horfið og leikur grunur á að hakkarar hafi stolið þeim. Er verðmæti þeirra samtals tæplega 550 milljónir Bandaríkjadala eða sem nemur um 62 milljörðum íslenskra króna.

Gjaldþrotið átti sér nokkurn aðdraganda. Mt.Gox átti upphaf sitt sem vettvangur fyrir aðdáendur borðspilsins Magic: The Gathering, þar sem þeir gætu skipst á þeim spilum sem notuð eru í leiknum. Árið 2011 breytti stofnandi síðunnar Mt.Gox í nokkurs konar kauphöll þar sem hægt væri að skipta dollurum yfir í bitcoin, og seldi hana síðan Mark Karpeles, helsta forritara síðunnar.

Innanbúðarmenn í fyrirtækinu hafa í kjölfar gjaldþrotsins komið fram og sagt að allt þar innandyra hefði snúist um persónu Karpeles, sem hefði forritað megnið af síðunni sjálfur. Kóðinn á bak við síðuna hafði að mestu leyti ekki verið öryggisprófaður og sá eini sem gat tekið endanlegar ákvarðanir um breytingu á honum var Karpeles sjálfur. Hakkarar reyndu nokkrum sinnum að brjótast inn á síðuna á síðasta ári, en án árangurs. Tilraunirnar ollu þó nokkrum stöðvunum með viðskipti, en Karpeles mun ekki hafa haft þungar áhyggjur af þessum árásum.

Viðvörunarbjöllurnar höfðu því hringt nokkrum sinnum áður en öll viðskipti um Mt.Gox stöðvuðust án útskýringar í byrjun febrúar. Skýringin fékkst svo þegar Karpeles sótti um gjaldþrotaskipti í síðustu viku.

Fall Mt.Gox hafði neikvæð áhrif á gengi bitcoin, en þau voru að mestu gengin til baka þegar tilkynnt var að annað bitcoin-fyrirtæki, Flexcoin í Kanada, sem kallaði sig fyrsta Bitcoin-bankann, þyrfti að leggja upp laupana, vegna þess að 896 bitmyntum hefði verið stolið, eða andvirði um 65 milljónum króna. Vakti fréttin athygli vegna þess hversu skammt var liðið frá gjaldþroti Mt.Gox.

Verða einhverjar afleiðingar?

Ólíklegt er að fall Mt.Gox og Flexcoin muni hafa langvarandi áhrif á gengi bitcoin, en traust fólks á myntinni hefur hugsanlega rýrnað eitthvað. Einn samkeppnisaðili Mt.Gox hefur þegar sagt að bitcoin-samfélagið sé sterkara án síðunnar, í ljósi þeirra öryggisvandamála sem sífellt plöguðu síðuna. Þetta sé í raun eðlileg þróun á frjálsum markaði að þeir sem ekki geti heltist úr lestinni. Á hinn bóginn hafa fleiri komið fram sem vilja að ríkisvaldið komi böndum á hinn nýja gjaldmiðil. Einn þeirra er Benjamin Lawsky, forstöðumaður fjármálaeftirlits New York-ríkis. Lawsky er jákvæður gagnvart hinum nýja gjaldmiðli og vill laða til New York fleiri fjármálafyrirtæki sem meðhöndla bitcoin. Lawsky hefur því lagt til að komið verði á fót sérstakt „Bit-leyfi“, einskonar vottun á þau fyrirtæki og kauphallir sem vilja stunda viðskipti með bitcoin, og sem myndi tryggja að nýjar reglur um gjaldmiðilinn stæðust núgildandi lög. Slíkt leyfi er þó líklega eitur í beinum margra sem hafa stutt við gjaldmiðilinn.

Stans í tollinum með „bitcoin“

Bitcoin-notandinn David Barker var á leiðinni í flug þegar öryggisverðir TSA stöðvuðu hann í vopnaleitinni. Samkvæmt Forbes-tímaritinu spurði Barker út í ástæður þess að leita þyrfti í töskunni hans og sagði öryggisvörðurinn að það liti út fyrir að hann væri með of mikið af bitcoin í töskunni sinni. Barker hváði, enda er bitcoin rafrænn gjaldmiðill og ætti því ekki að sjást í röntgen-myndum. Kom í ljós að Barker var með fulla tösku af barmmerkjum sem hann hafði látið útbúa í auglýsingaskyni. Öryggisverðinum var þó nokkur vorkunn, enda fylgja mörgum fréttum af bitcoin ljósmyndir af stórum gullhúðuðum skífum, sem á stendur skýrum stöfum „Bitcoin“. Þessar skífur voru gerðar í auglýsingaskyni fyrir myntina og hafa ekkert verðgildi utan tilfinningagildi.

GEORGE FREY
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir