Mætti sameina eftirlitsstofnanir

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group.
Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group. mbl.is/Ómar Óskarsson

Rétt er að endurskoða allt eftirlitskerfið hér á landi og jafnvel að sameina stofnanir til að ná meiri skilvirkni í kerfið. Þetta segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair group og formaður Samtaka atvinnulífsins. Hann segir sumar stofnanir farnar að lifa sjálfstæðu lífi þar sem þær vinni ekki með í því að styrkja atvinnuumhverfið, heldur dragi úr krafti fyrirtækja. Björgólfur sagði einnig nauðsynlegt að stjórnendur þurfi að fylgja sömu reglum og aðrir þegar komi að launahækkunum og að aðeins sé farið í hækkanir ef innistæða sé fyrir þeim.

Reglufargan gerir félögum erfitt fyrir

Björgólfi var tíðrætt um rekstrarumhverfi fyrirtækja á ársfundi Samtaka atvinnulífsins í gær, en hann sagði að auðvelda þyrfti stofnun og rekstur fyrirtækja. Þá benti hann á að oft væri reglufarganið erfitt fyrir félög og nefndi sérstaklega þá vinnu sem kaffihús þurfi að fara í gegnum til að endurnýja rekstrarleyfi sitt. Björgólfur benti á að kostnaður við helstu eftirlitsstofnanir landsins hefði aukist um rúmlega 30% frá árinu 2009, en þar inni væru ekki einu sinni inni eftirlitsstofnanir Seðlabankans.

Gagnrýnir Samkeppniseftirlitið

Þá vandaði hann stofnunum ekki orðið og sagði að framganga margra þeirra upp á síðkastið bæri þeim ekki fagurt vitni. Gagnrýndi hann sérstaklega Samkeppniseftirlitið og þá heimild sem stofnunin hefur til að áfrýja málum til dómstóla sem áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur fellt úrskurð í. Nýlega kom slíkt mál upp þegar Samkeppniseftirlitið hafði ákvarðað í máli WOW air gegn Isavia og Icelandair um afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli.

Í samtali við mbl.is sagði Björgólfur að nauðsynlegt væri að gera kerfið skilvirkara. „Við erum fámenn þjóð en náum að gera múra sem draga úr krafti einstaklinga og fyrirtækja til að ná betri árangri,“ sagði hann og bætti við að aðlaga þurfi regluverkið að markaðinum.

Mætti sameina stofnanir

Aðspurður um hvort það þurfi að draga úr eftirlitsiðnaði sagði Björgólfur ljóst að það sé verið að ofgera eftirlit á ýmsum sviðum. „Það eru settar stofnanir á stofnanir ofan. Mér finnst þetta ekki skilvirkt kerfi og það er komið á það stig að sumar stofnanir eru komnar með sjálfstætt líf og vinna ekki í þá átt sem þær eiga að gera til að styrkja umhverfið, heldur eru þær farnar meira í ákveðna þætti sem draga úr krafti fyrirtækjanna,“ sagði Björgólfur.

Hann tekur þó fram að Samkeppniseftirlitið sé mikilvægt, en það þurfi að stilla eftirlitinu rétt upp. Segir hann að það þurfi að virka sem eftirlitsaðili og gefa ráðleggingar. „Við megum ekki stilla þessu upp, hvort sem það er Samkeppniseftirlitið eða önnur stofnun, þannig að hún sé ægivald yfir atvinnulífinu, heldur að þetta sé stuðningur við atvinnulífið,“ segir hann. Þá segir hann mikilvægt að stofnanir sem krossast vinni betur saman. „Það er þörf á að endurskoða kerfið í heild, endurmeta og jafnvel sameina stofnanir til að ná meiri skilvirkni í kerfinu,“ segir Björgólfur.

Stjórnendur þurfa einnig að fylgja reglunum

Á fundinum var rætt um reynslu Svía af launahækkunum og kaupmáttaraukningu í samanburði við Ísland. Ljóst er að laun hafa hækkað mun meira hér á landi, en það hefur svo ýtt undir verðbólgu sem skilar sér í því að kaupmáttaraukningin hefur verið mun meiri í Svíþjóð. Björgólfur segir mikilvægt að halda sig innan ramma peningastefnunnar og markmiða Seðlabankans og því þurfi allir aðilar vinnumarkaðarins að taka höndum saman og vinna frekar að kaupmáttaraukningu en launahækkun í núverandi samningalotu.

Samkvæmt könnun sem PWC birti nýlega hafa stjórnendur leitt launahækkun síðasta árs. Aðspurður um hvort þeir þurfi ekki að sýna gott fordæmi og ganga fyrir með að draga úr eigin launahækkunum segir Björgólfur að ekki sé hægt að horfa til eins árs, því ef horft sé aftur til 2006 hafi laun stjórnenda hækkað meira en annarra á vinnumarkaði. Hann tekur þó fram að stjórnendur verði að hlúta sömu reglum og aðrir. „Stjórnendur verða að sjálfsögðu að fylgja sömu reglum og þeir geta ekki verið eyland frekar en nokkur annar hópur. Þeir þurfa að fylgja því sem almennt gerist.“

Treystir ríkisstjórninni til að sýna aga

Björgólfur segir að þessari hugsun á vinnumarkaði þurfi einnig að fylgja agi stjórnvalda og að þau þurfi að passa upp á að auka ekki útgjöld. Í ræðu sinni á þinginu sagði hann að venjan hefði verið sú að ekki væri hægt að treysta á að ríkið sýndi aga í fjármálum, en aðspurður út í núverandi stjórn sagði Björgólfur að hann hefði trú á aðhaldi. „Núna er svo gríðarlega mikilvægt að hið opinbera haldi sig innan þess að eyða ekki umfram tekjur,“ segir Björgólfur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK