Engar reglur um fjölda tilboðssæta

mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Þegar flugfélög á Íslandi auglýsa flugsæti á tilboðsverði gilda engar reglur eða viðmiðanir um hversu mörg sæti þurfi að vera í boði á tilgreindu verði. Formaður Neytendasamtakanna segir það vera á ábyrgð neytenda að vera vakandi.

Í svari við fyrirspurn mbl um lágmarksfjölda sæta í boði á auglýstu verði segir Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW: „Þetta er svo síbreytilegt eftir áfangastöðum, árstíma, framboði og eftirspurn að ekki er hægt að skipta þessu í einhverja ákveðna prósentu.“

Sama segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair. „Það eru engar sérstakar reglur í gangi hvað þetta varðar,“ segir hann og bætir við að fjöldinn velti fyrst og fremst á eftirspurn. „Þumalputtareglan er auðvitað sú að ef þú ætlar að setja fjármuni í kynningarstarf ættu að vera sæti á bak við það,“ segir hann og bætir við að einu markaðirnir sem eru með reglur um framsetningu í auglýsingum séu Bandaríkin og Kanada.

Þar þarf að gefa upp heildarverð flugmiða í auglýsingu, með sköttum og bókunargjaldi, auk þess að taka fram töskugjald, ef það á við.

Þá þarf einnig að gefa upp heildarfjölda sæta á tilteknu verði. Í reglum flugmálastofnunar segir að taka þurfi fram sætafjölda í boði ef hann er takmarkaður á einhvern hátt.

Verð hækkar fljótlega eftir tilboð

Fleiri flugfélög eru sífellt að bætast í hóp þeirra er fljúga til og frá Keflavíkurflugvelli. Á dögunum mátti t.d. sjá votta fyrir verðstríð á flug­miðum til London þegar litið var til viðbragða WOW og Icelanda­ir við til­boði Brit­ish Airways. 

Á laug­ar­dag var greint frá því að Brit­ish Airways væri að bjóða farmiða til London á 5.055 krón­ur í vet­ur. Í kjöl­farið sendi WOW air út net­klúbbstil­boð þar sem flug­miðar til London voru seld­ir á 5.999 krón­ur. Icelanda­ir lækkaði þá einnig verðið og fóru ódýr­ustu farmiðarn­ir úr 17.455 krón­um niður í 16.205 krón­ur. 

Stuttu síðar var hins vegar lítið eftir af ódýrustu fargjöldunum hjá fyrrnefndum félögum.

Erfitt að setja reglur

Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, telur að erfitt gæti verið að setja reglur um efnið þar sem erfitt væri að fylgjast með eftirfylgni þeirra. Hann bendir á leitarvélar á netinu og segir að neytendur ættu að nýta sér þær. „Það er eiginlega bara hægt að hvetja neytendur til þess að skoða sig um og þá sérstaklega ef þeir eru með sveigjanleika í dagsetningum.“

„Árvekni neytenda skiptir hér mestu máli,“ segir Jóhannes. „Þetta er ekki lengur eins og áður fyrr þar sem flugfélögin eru orðin mörg og þeim fjölgar sífellt.“

Engar reglur eru um lágmarksfjölda auglýstra tilboðssæta.
Engar reglur eru um lágmarksfjölda auglýstra tilboðssæta. Ljósmynd/Sigurgeir Sigurðsson
Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna.
Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna. Þorkell Þorkelsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK