United Silicon gjaldþrota

Heimild United Silicon til greiðslustöðvunar er fallin niður og mun stjórn félagsins skila inn gjaldþrotabeiðni fyrir kl. 16 í dag. Málið átti að vera tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjaness kl. 14 í dag en ekkert varð úr þinghaldi. 

Í úrskurði Umhverfisstofnunar sem tilkynnt var um í gær kom fram að United Silicon fengi ekki heim­ild til að hefja fram­leiðslu á ný fyrr en lokið væri við nær all­ar þær úr­bæt­ur sem til­tekn­ar eru í mati norska ráðgjafa­fyr­ir­tæk­is­ins Multiconsult sem rann­sakað hef­ur tækja­búnað fyr­ir­tæk­is­ins. 

United Silicon fékk í lok ág­úst heim­ild til greiðslu­stöðvun­ar til 4. des­em­ber svo að unnt væri að rétta rekst­ur­inn af. Var heim­ild­in síðan fram­lengd til 22. janú­ar. Sam­kvæmt norsk­um sér­fræðing­um sem unnu út­tekt á verk­smiðju United Silicon í Helgu­vík kost­ar 25 millj­ón­ir evra, 3,1 millj­arð ís­lenskra króna, að klára verk­smiðjuna og koma meng­un­ar­vörn­um í lag.

Greint var frá því í lok nóvember að alþjóðleg­ir aðilar í kís­iliðnaði hefðu sett sig í sam­band við Ari­on banka, stærsta hlut­hafa United Silicon, og lýst yfir áhuga aðkomu að starf­semi verk­smiðjunn­ar. Stuttur áður hafði verið greint frá því að kostnaður bankans vegna United Silicon hefði numið 600 milljónum króna frá því að félagið fékk heimild til greiðslustöðvunar.

Uppfært:

United Silicon hefur sent frá sér tilkynningu vegna gjaldþrotabeiðnarinnar. 

Stjórn United Silicon hf. hefur farið fram á gjaldþrotaskipti félagsins og beiðni hefur verið send til Héraðsdóms Reykjaness. Útséð þykir að nauðasamningar náist og því ekki forsendur fyrir beiðni um frekari framlengingu á greiðslustöðvun. Ákvörðunin var tekin eftir að ljóst varð að Umhverfisstofnun gerði kröfu um rekstur hæfist ekki á ný í verksmiðjunni fyrr en eftir viðamiklar framkvæmdir sem gætu tekið vel á annað ár.

Um skeið hefur verið ljóst að staða félagsins er þröng og afar erfið. Félagið fékk fyrst heimild til greiðslustöðvunar í ágúst 2017. Rekstur verksmiðju félagsins var skömmu síðar, eða þann 1. september,  stöðvaður af Um­hverf­is­stofn­un. Heimild félagsins til greiðslu­stöðvun­ar var þann 4. september framlengd til 4. des­em­ber og þann dag til dagsins í dag.

Arion banki hefur lagt félaginu til fjármagn á greiðslustöðvunartímabilinu og kostað rannsóknir og greiningar á stöðunni. Verkefni stjórnar á greiðslustöðvunartímabilinu var að reyna að ná nauðasamningum og fá nýja fjárfesta að félaginu. Forsenda þess var að fá betri upplýsingar um stöðu félagsins. Þær úttektir sem unnar voru leiddu meðal annars í ljós mikla óreiðu og upp kom rökstuddur grunur um fjárdrátt stofnanda félagsins. Hann hefur verið kærður til embættis héraðssaksóknara. Einnig voru framkvæmdar ítarlega úttektir á búnaði verksmiðjunnar.

Í skýrslu út­tekt­araðila kom fram að grunn­hönn­un ofns­ins sjálfs væri góð en aug­ljóst sé að ódýr og óvandaður jaðarbúnaður hafi orsakað tíðar bilanir og skapað erfiðleika við fram­leiðsluna. Mat sér­fræðing­anna sýn­di að um 25 millj­ón­ir evra þyrfti til að verk­smiðjan teldist full­kláruð. 

Þegar félög fara í gjaldþrot þá tekur við ferli sem er í höndum skiptastjóra sem skipaður er af héraðsdómara.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK