Flytur inn fyrsta bitcoin-hraðbankann

Klaus Ortlieb, hóteleigandi
Klaus Ortlieb, hóteleigandi mbl.is/Árni Sæberg

Fyrsti bitcoin-hraðbankinn á Íslandi verður kynntur til sögunnar á morgun á hótelinu Hlemmur Square sem stendur við hlið Hlemms. 

„Mér fannst þetta áhugaverð hugmynd vegna þess að það getur verið erfitt að skipta krónunni í annan gjaldmiðil erlendis og í stað þess að fara í bankann geta hótelgestirnir skipt krónum í bitcoin áður en þeir fara úr landi,“ segir Klaus Ortlieb, einn eigenda Hlemmur Square, en hann tekur fram að hver sem er geti notað hraðbankann. 

Klaus Ortlieb hef­ur unnið í hót­el­brans­an­um í meira en þrjá­tíu ár. Meðal þeirra hót­ela sem hann hef­ur sett á fót og rekið eru meðal ann­ars hin víðfrægu Cl­aridge's í London, Cooper Square, The Mercer, Got­ham hotels og fleiri í New York og Hotel Modern í New Or­le­ans. 

Að sögn Klaus virkar hraðbankinn þannig að með því að setja reiðufé í hraðbankann er hægt að kaupa bitcoin sem er síðan fært inn á bitcoin-reikning viðkomandi. Það þarf sem sagt að eiga sérstakan bitcoin-reikning, eða bitcoin-veski eins og það er oft nefnt, áður en hægt er að nota hraðbankann. 

Hraðbankinn er tengdur markaðssvæði fyrir bitcoin og tekur fyrirtækið sem sér um hann þóknun á bilinu 3-5%. Auk bitcoin er hægt að kaupa Zcash, Ethereum, Litecoin and Bitcoin Cash. „Við erum með tæknivædda gesti á Hlemmur Square sem munu hafa mikinn áhuga á þessu og auk þess er vaxandi áhugi á bitcoin.“

Starfsmennirnir prófuðu hraðbankann

Spurður hvort að hraðbankaþjónusta sem þessi sé traustverðug segir Klaus að starfsmenn hann hafi þegar prófað tæknina. „Þeir settu inn reiðufé og sáu eftir örskamma stund að það var búið að færa bitcoin inn á reikninginn þeirra.“

Klaus var einnig spurður hvert viðskiptalíkanið í kringum hraðbankann væri og sagðist hann sjálfur ekki græða á honum. „Ég fæ ekki neinar þóknanir vegna þess að ég er að gera þetta til þess að gefa eitthvað til baka til samfélagsins.“

Hlemmur Square stendur fyrir sérstökum kynningarviðburði á morgun milli kl 19-21 þar sem hraðbankinn verður kynntur gestum hótelsins og öllum áhugasömum. 

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK