Apple sigraði Samsung

Samsung hefur verið gert að greiða Apple 539 milljónir bandaríkjadala ...
Samsung hefur verið gert að greiða Apple 539 milljónir bandaríkjadala fyrir að nýta tækni og hönnun iPhone sem varin er með einkaleyfi. AFP

Dómstóll í Bandaríkjunum hefur dæmt Samsung til þess að greiða Apple 539 milljónir Bandaríkjadala, eða sem jafngildir 57 milljörðum íslenskra króna, vegna brots á höfundarrétti. Þetta kemur fram í umfjöllun BBC um málið. Samkvæmt dómi er Samsung gefið að sök að hafa afritað tækni sem var notuð í fyrsta iPhone-símanum, sem framleiddur var af Apple.

Deilur fyrirtækjanna hófust árið 2011 þegar Apple sakaði Samsung um að hafa nýtt sér tækni sem varin var í eikanleyfi Apple. Árið 2012 féll dómur í Kaliforníu í Bandaríkjunum þar sem Samsung var gert að greiða rúman milljarð bandaríkjadali í skaðabætur, jafnvirði um 120 milljarða íslenskra króna á þeim tíma.

Í hinum nýja dómi er Samsung gert að greiða Apple 533 milljónir bandaríkjadala, um 56 milljarða króna, fyrir að hafa afritað þrjú einkaleyfisvarin hönnunaratriði. Þá var Samsung einnig gert að greiða Apple um 6 milljónir bandaríkjadala, um 635 milljónir íslenskra króna, vegna notkun tveggja einkaleyfisvarða þátta er snúa að notkun skilgreindrar tækni eða búnaðar.

Talsmenn Apple hafa sagst ánægðir með þá niðurstöðu kviðdómsins sem hefur tekið undir rök fyrirtækisins um að Samsung væri að afrita vörur Apple. Fulltrúar Samsung hafa hinsvegar sagt að dómurinn sé í andstöðu við niðurstöðu hæstaréttar Bandaríkjanna sem hefur áður dæmt Samsung í vil í máli er snéri að hvernig skuli reikna skaðabætur í höfundarréttar- og einkaleyfismálum.

Langvarandi deilur

Samsung hefur áður fært rök fyrir því að tapi fyrirtækið málinu, ætti það einungis að greiða 28 milljónir bandaríkjadala í skaðabætur, þar sem það telji skaðabætur verði aðeins að taka mið af þeim hagnaði sem hefur myndast á grundvelli þeirra atriða sem meint brot varðar.

Apple reiknaði sína skaðabótakröfu á grundvelli hagnaðar af heilum iPhone síma. Á þessum forsendum hafði fyrirtækið lagt fram skaðabótakröfu sem hljóðaði upp á 2 og hálfan milljarð bandaríkjadali, jafnvirði 264 milljarða íslenskra króna.

Deilur fyrirtækjanna hafa staðið lengi, en Samsung hefur einnig sakað Apple um að nýta einkaleyfisvarða þætti í sínum vörum.

Apple tapaði fyrir Samsung í höfundarréttarmáli fyrir breskum dómstólum 2012, en Það mál snérist aðallega að hönnunaratriðum í spjaldtölvu Samsung. Samsung hafði verið sakað um að herma eftir iPad sem framleiddur er af Apple. Apple var í kjölfar tapsins gert að birta aug­lýs­ingu í bresk­um fjöl­miðlum og á heimasíðu sinni þar sem þær rang­færsl­ur væru leiðrétt­ar að Sam­sung væri að herma eft­ir Apple.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir