Staða WOW air talsvert verri

Skúli Mogensen
Skúli Mogensen Ljósmynd/Aðsend

Staðan á rekstri flugfélagsins WOW air er talsvert verri en hún var við upphaf skuldabréfaútgáfu félagsins í lok september. Þetta kemur fram í frétt Bloomberg þar sem vísað er í tilkynningu sem forsvarsmenn WOW air sendu þeim sem tóku þátt í skuldabréfaútboði félagsins.

Segja forsvarsmenn WOW meðal annars að „fjöldi ytri og innri atburða hafi versnað verulega“ eftir að WOW air hóf skuldabréfaútgáfu þann 24. september síðastliðinn. Kemur þar einnig fram að verið sé að tryggja langtímafjármögnun félagsins.

Í bréfinu er meðal annars rætt um umfjöllun um fjárhagslega stöðu WOW air á meðan skuldabréfaútgáfunni stóð og fyrir þann tíma, sem hafði neikvæðari áhrif á sölu og lánastöðu fyrirtækisins en búist var við að því er fram kemur í frétt Bloomberg.

Segir enn fremur að niðurstöður fjórða ársfjórðungs séu verri en upphaflega var búist við. Að gjaldþrot Primera air í október hafi gert erfiða stöðu verri, og að góður skriður hafi verið kominn á sölu- og endurleigusamning á flugvélum sem WOW air þurfti að hætta við sem jafnframt þýddi að félagið hafi ekki fengið 25 milljóna bandaríkjadala innspýtingu í sjóðstreymi félagsins.

Að lánveitendur og yfirvöld hafi fylgst sífellt nánar með stöðu félagsins og jafnframt sett upp strangari greiðsluskilyrði en áður var krafist. Það hafi enn fremur sett meiri pressu á sjóðstreymi fyrirtækisins. Að hækkandi olíuverð í vikunum á eftir skuldabréfaútgáfunni hafi enn fremur þrengt að fjárhagshorfum félagsins.

„Með það sem fram kemur að ofan í huga þá höfum við verið að vinna alúðlega að því að tryggja viðbótarfjármögnum og höfum fundið fyrir áhuga fjölda aðila, þar á meðal Icelandair, eins og búið er að tilkynna opinbera.“

Þá kemur það jafnframt fram að Skúli Mogensen, eigandi WOW air, hafi sjálfur lagt 5,5 milljónir evra, eða um 770 milljónir króna, í skuldabréfaútboð félagsins í september.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK