Rússíbanareið í háloftunum á síðustu mánuðum

Fyrr í vikunni skilaði WOW air fjórum vélum af gerðinni …
Fyrr í vikunni skilaði WOW air fjórum vélum af gerðinni Airbus A320 og A330. Nú er ein breiðþota í flota félagsins.

Rekstur flugfélagsins WOW air hefur um nokkurt skeið verið á heljarþröm og forsvarsmenn þess hafa róið lífróður í þeirri viðleitni að tryggja laust fé til rekstrarins frá degi til dags. Það reyndust þung skref fyrir stofnanda WOW air, Skúla Mogensen, þegar hann leitaði til stjórnenda Icelandair Group í lok októbermánaðar og leitaðist eftir því að hið gamla félag tæki sinn helsta keppinaut yfir. Nú í morgun varð hins vegar ljóst að ekkert yrði af kaupum Icelandair Group á WOW air. Hlutirnir hafa gerst hratt síðustu sólarhringa og í raun er með öllu óljóst hvernig framvindan verður næstu klukkustundir og daga. Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi WOW segir hins vegar góðra tíðinda að vænta af félaginu í allra nánastu framtíð.

Hér að neðan er aðdragandinn að viðræðum Icelandair Group og WOW air rakinn en þar koma ýmsir leikendur við sögu, bæði á vettvangi félaganna en einnig innan íslenska stjórnkerfisins.

Skúli Mogensen stofnaði WOW air árið 2011. Jómfrúarflugið var farið …
Skúli Mogensen stofnaði WOW air árið 2011. Jómfrúarflugið var farið til Parísar í lok maí 2012. Ljósmynd/Aðsend

Reksturinn á flugmarkaði þyngist

Það kom þungt högg á bréf Icelandair Group í kjölfar mjög neikvæðrar afkomuviðvörunar sem félagið sendi frá sér 1. febrúar 2017. Örfáum mánuðum fyrr hafði gengi félagsins náð hreinni flughæð en við afkomuviðvörunina nam lækkunin úr þeirri stöðu 58%. Frá því að viðvörunin var send út hafa fleiri fylgt í kjölfarið og rekstrarumhverfi flugfélagsins reynst sífellt meira krefjandi. Augu markaðarins hafa af þessum sökum hvílt á félaginu en allt frá því að WOW air fór jómfrúarflug sitt til Parísar 31. maí 2012 hafa margir orðið til þess að bera félögin saman með einu eða öðru móti. Jákvæðar fréttir hafa einkennt umfjöllun fjölmiðla af hinu nýja lággjaldaflugfélagi sem vaxið hefur gríðarlega síðustu 6 árin. Alla jafna hefur félagið sent frá sér tilkynningar þegar nýjar vélar hafa bæst í vaxandi flota þess og þá hefur félagið, þrátt fyrir að vera ekki skráð á markað, sent fjölmiðlum upplýsingar um rekstur sinn, einkum þegar ársuppgjör hafa legið fyrir.
Ragnhildur Geirsdóttir tók við sem aðstoðarforstjóri WOW air á haustdögum …
Ragnhildur Geirsdóttir tók við sem aðstoðarforstjóri WOW air á haustdögum 2017. Landsbankinn

En þegar harðna tók á dalnum hjá Icelandair fækkaði slíkum tilkynningum frá WOW air. Lengi vel vakti það ekki sérstaka athygli þótt ljóst hafi verið að rekstrarumhverfið var krefjandi fyrir félagið líkt og aðra aðila á markaðnum. En þegar ársreikningur félagsins fyrir árið 2017 lét á sér standa fóru sífellt fleiri að velta vöngum yfir stöðu þess. 13. júlí sendi félagið frá sér tilkynningu þar sem það skammtaði takmarkaðar upplýsingar til markaðarins um tap félagsins fyrir liðið ár. Hallinn á rekstrinum reyndist 2,4 milljarðar króna og EBITDA ársins reyndist tæpur hálfur milljarður, samanborið við 5,7 milljarða árið á undan. Raunar hafði markaðurinn tekið andköf í byrjun mars 2017 þegar greint var frá því í ViðskiptaMogganum að hagnaður WOW fyrir árið 2016 hefði reynst 4,3 milljarðar króna. Eitt af því sem spilaði hvað stærsta rullu í þeirri ótrúlegu rekstrarniðurstöðu var sú staðreynd að félagið hafði ekki varið sig fyrir breytingum á eldsneytisverði. Það reyndist mikill lottóvinningur enda þróun á eldsneytismarkaði með því móti að félög sem höfðu læst inni verð fram í tímann á árunum 2014 til 2015 töpuðu í raun gríðarlegum fjárhæðum á slíkum ákvörðunum.

En skjótt skipast veður í lofti. Harðnandi verðsamkeppni á markaðnum yfir hafið hefur reynst öllum félögum sem þátt taka á honum þung í skauti og gríðarlegar hækkanir á olíumörkuðum hafa reynst áhættusæknum félögum á borð við Norwegian og WOW air afar kostnaðarsamar.

Hvattur til að leita fjármagns

Þessi staða var farin að raungerast um mitt ár 2017 en þar sem félagið er ekki undir upplýsingaskyldu á borð við þau sem skráð eru á markað einskorðuðust fréttir af félaginu við upplýsingar um sætanýtingu og farþegavöxt en þær tölur hafa sannarlega vitnað um áframhaldandi vöxt félagsins. Heimildir ViðskiptaMoggans herma að strax á árinu 2017 hafi aðilar tengdir Skúla Mogensen komið því sjónarmiði á framfæri við stofnanda félagsins að tímabært væri að hefja vinnu við að tryggja framtíðarfjármögnun félagsins. Það þótti til marks um að slík vinna væri í farvatninu þegar Ragnhildur Geirsdóttir, fyrrverandi forstjóri FL Group og Flugleiða, var ráðin aðstoðarforstjóri WOW air um miðjan ágústmánuð í fyrra.

Katrín Jakobsdóttir hefur ásamt öðrum ráðherrum ríkisstjórnarinnar fylgst grannt með …
Katrín Jakobsdóttir hefur ásamt öðrum ráðherrum ríkisstjórnarinnar fylgst grannt með þróun mála á flugmarkaði. mbl.is/​Hari

Þá kom fram á árið 2018 og enn héldu áfram að berast fréttir af versnandi stöðu Icelandair Group. Sú staðreynd, ásamt óljósum fréttum af rekstrarerfiðleikum WOW air, hafa eflaust átt sinn hlut í því að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur kom á fót starfshópi fjögurra ráðuneyta sem ætlað er að leggja mat á hvaða fyrirtæki hér á landi hljóti að teljast kerfislega mikilvæg. Þótt ráðherrar sem tengjast starfshópnum, m.a. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hafi talað í nokkrum véfréttastíl um hvaða verkefni liggi fyrir hópnum hefur mátt á svörum þeirra greina að athygli manna beinist nú fyrst og síðast að flugfélögunum tveimur enda eru þau loftbrúin sem tryggir flæði ferðamanna til landsins – grundvelli þess að ferðaþjónustan aflar nú meiri gjaldeyristekna en nokkur önnur atvinnugrein í landinu.

Þrátt fyrir þann ólgusjó sem WOW air var sannarlega í lét Skúli Mogensen engan bilbug á sér finna. Um verslunarmannahelgina síðustu bauð hann til stórveislu á jörð sinni í Hvalfirði, Hvammsvík, og hélt þar upp á tímamót sem framundan voru, fimmtugsafmæli hinn 18. september. Þar var miklu tjaldað til og margt um manninn. Með honum fögnuðu m.a. fjármálaráðherrann Bjarni Benediktsson og ferðamálaráðherrann Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir. Þótti mörgum veisluhöldin til marks um að frumkvöðullinn héldi ótrauður áfram, þrátt fyrir krefjandi daga í flugrekstrinum.

Forsætisráðherra tekur af öll tvímæli

En þegar tuttugu dagar voru liðnir af ágústmánuði ræddi Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra við Ríkisútvarpið. Þar sagði hún: „Í dag var haldinn fundur í ráðherranefnd um samræmingu mála þar sem við fórum yfir þessa stöðu. Það liggur algjörlega fyrir að staðan á evrópskum flugmarkaði almennt er þung, þannig að við fylgjumst auðvitað náið með þróun mála. En þetta eru auðvitað einkafyrirtæki á markaði og það ber auðvitað að líta til þeirra sem slíkra.“ Þótt yfirlýsing ráðherrans hafi verið sakleysisleg í sjálfu sér hafði hún áhrif á atburðarás sem þá þegar var hafin og tengdist tilraunum forsvarsmanna WOW air til að safna fjármunum í formi umfangsmikillar skuldabréfaútgáfu. Þannig hafði Morgunblaðið greint frá því 15. ágúst að norski fjárfestingarbankinn Pareto Securities færi nú milli landa ásamt Skúla í þeirri viðleitni að fá fjárfesta til þátttöku í skuldabréfaútboði til þriggja ára sem átti að tryggja félaginu 6-12 milljarða króna. Í áætlunum félagsins var gert ráð fyrir að útgáfan myndi endurfjármagna félagið fram að frumútboði félagsins sem stefnt var að því að ráðast í á næstu 18 mánuðum.

Samkeppniseftirlitið hefur frá því í byrjun nóvember haft samrunatilkynningu WOW …
Samkeppniseftirlitið hefur frá því í byrjun nóvember haft samrunatilkynningu WOW air og Icelandair Group til rannsóknar. Nú er ljóst að ekki mun koma til kasta stofnunarinnar varðandi sameiningu félaganna. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

En í kynningu til fjárfesta gætti einnig bjartsýni um að talsverður áhugi væri að aðkomu annarra fjárfesta að félaginu. Þannig var áréttað með skilmálum í skuldabréfunum að vextir á þeim myndu lækka um 1,5 prósentur ef félagið næði að sækja sér 75 milljónir dollara í nýtt hlutafé. Í kynningunni birtust sömuleiðis í fyrsta skipti upplýsingar um rekstraráætlanir félagsins og horfur fyrir yfirstandandi ár. Þar var gert ráð fyrir að félagið myndi tapa 3,9 milljörðum króna (31 milljón dollara). Hins vegar yrði hagnaður af rekstri félagsins 2,1 milljarður á komandi ári (17 milljónir dollara). Heimildir ViðskiptaMoggans herma að yfirlýsingar forsætisráðherra ásamt fleiri yfirlýsingum sem komið hafa frá ráðamönnum á umliðnum vikum, hafi ekki létt róðurinn við að tryggja félaginu fé til rekstrarins. Það kom enda á daginn að þær áætlanir sem lagðar höfðu verið upp um að loka útboðinu stóðust ekki. Ítrekað bárust frá WOW air tilkynningar um að það tæki félagið lengri tíma en ætlað var að loka samningum þar um.

Gangurinn sagður góður

Erfitt reyndist fyrir íslenska fjölmiðla að ná tali af Skúla fyrstu vikurnar í septembermánuði en meira var um fréttir af félaginu í erlendum miðlum. Þannig sagði eigandi félagsins við Bloomberg-fréttaveituna 6. september að félagið sæi til lands með skuldabréfaútgáfuna. Á sama tíma, þótt það væri ekki opinbert, fylgdust stjórnvöld náið með framgangi mála og í Morgunblaðinu 10. september var greint frá því að stjórnvöld hefðu helgina 8.-9. september fundað um stöðu félagsins. Sú frétt varð þess valdandi að Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamálaráðherra tjáði sig um stöðu félagsins í Morgunútvarpi Rásar 2, að morgni sama dags. Ítrekaði hún þar að ríkissjóður hygðist ekki hlaupa undir bagga með flugfélögunum og þá ítrekaði hún einnig að ekkert óvanalegt væri við það að embættismenn ríkisins sætu á fundum um helgar til að ræða málefni af þessum toga.

Næstu daga bárust áfram fréttir af því að forsvarsmenn WOW air væru vongóðir um að ljúka fjármögnunarferlinu með góðum árangri. Á sama tíma veiktist krónan og félög í Kauphöll Íslands áttu á brattann að sækja. Miðvikudaginn 12. september flutti svo Fréttablaðið fréttir af því að Skúli hefði ásamt ráðgjöfum sínum átt fundi með viðskiptabönkunum þremur í tilraun til þess að fá þá að borðinu. Arion banki hefur hins vegar verið aðalviðskiptabanki WOW undanfarin ár. Eitthvað reyndist sú aðkoma bankanna hins vegar málum blandin og sá Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, sig knúna til þess að leiðrétta fréttina. Sagði hún að hún hefði ekki átt í neinum viðræðum við WOW air.

Funduðu með Samkeppniseftirlitinu

Í sömu frétt Fréttablaðsins var einnig greint frá því að Skúli Mogensen hefði ásamt lögmanni sínum, Páli Rúnari Mikael Kristjánssyni, fundað með Samkeppniseftirlitinu síðdegis 11. september. Sú frétt hefur ekki verið borin til baka. Þau tíðindi gáfu til kynna að forsvarsmenn félagsins væru að kanna allar mögulegar leiðir til að koma félaginu heilu í höfn en ljóst var að atbeina Samkeppniseftirlitsins þyrfti til þess að orðið gæti af mögulegum samruna WOW air við önnur félög.

15. september greindi Morgunblaðið frá því að WOW air skuldaði …
15. september greindi Morgunblaðið frá því að WOW air skuldaði Isavia, sem rekur Flugstöð Leifs Eiríkssonar, um 2 milljarða króna í lendingargjöld. mbl.is/Eggert

Heimildir ViðskiptaMoggans herma að þessa sömu daga hafi forsvarsmenn WOW air átt fundi með fjölmörgum fjárfestum og kynnt útboðið. Þar hafi þeir einnig nálgast birgja félagsins sem það hefur safnað skuldum hjá og óskað eftir því að þeir myndu breyta þeim í skuldabréf á hendur því.

Og mörgum var létt þegar þeir litu forsíðu Fréttablaðsins að morgni föstudagsins 14. september. Þar stóð með stóru letri: „Skúli nálgast endamarkið.“ Þar var einnig fullyrt að fjárfestar hefðu þá þegar skráð sig fyrir 45 milljónum evra í útboði félagsins. Þá var einnig haft eftir tveimur nafnlausum heimildarmönnum sem „þekkja vel til stöðu mála“ að stefnt væri að því að Skúli fengi „inn fjárfesti að flugfélaginu sem myndi leggja því til nýtt hlutafé upp á tugi milljóna evra samhliða því að skuldabréfaútboðið verður klárað“.

Frétt veldur usla á laugardegi

Morgunblaðið greindi frá því laugardaginn 15. september að WOW air skuldaði ríkisfyrirtækinu Isavia um 2 milljarða króna í lendingargjöld og að sú skuld hefði hlaðist upp á árinu 2018. Þannig væri helmingur skuldarinnar þá þegar gjaldfallinn.

Skúli Mogensen brást illa við fréttinni og skrifaði yfirlýsingu á Facebook sem fékk miklar undirtektir. Þar sagði hann fjölmiðla keppast við að tortryggja WOW air. „Nýjasta „fréttin“ er að við eigum að skulda Isavia yfir tvo milljarða. Þessu er slegið upp með stórri fyrirsögn í æsifréttastíl á forsíðu Morgunblaðsins í dag og vitnað í nafnlausan heimildarmann. Við leggjum ekki í vana að tjá okkur um einstaka birgja eða þjónustusamninga en þetta er einfaldlega rangt. Við eigum mjög gott samstarf við Isavia og höfum aldrei skuldað þeim yfir tvo milljarða króna og það er til skammar að Morgunblaðið sé að slá upp slíkum fyrirsögnum án áreiðanlegra heimilda.“

Morgunblaðið stendur við frétt sína af málinu enda hefur því aldrei verið haldið fram að WOW hafi skuldað Isavia „yfir tvo milljarða króna“. En fréttin vakti víðar viðbrögð og jafnvel barst hljóð úr óvæntum hornum.

Bogi Nils Bogason, starfandi forstjóri Icelandair Group hefur leitt viðræðurnar …
Bogi Nils Bogason, starfandi forstjóri Icelandair Group hefur leitt viðræðurnar við Skúla Mogensen, ásamt Úlfari Steindórssyni, stjórnarformanni félagsins. mbl.is/​Hari

Í samtali við mbl.is sagði Bogi Nils Bogason, starfandi forstjóri Icelandair Group, að hann ætti erfitt með að trúa framkomnum upplýsingum.

„Ef rétt er að Isavia, fyrirtæki í opinberri eigu, sé að taka þátt í því að fjármagna framangreindan taprekstur og þar með skekkja samkeppnisstöðu á þessum markaði þá er það illskiljanlegt. Við höfum á undanförnum árum átt mjög gott samstarf við Isavia og þar er öflugt og skynsamt starfsfólk og það kæmi mér því mjög á óvart ef rétt reyndist.“

En fleiri blönduðu sér í umræðuna og það í hálfgerðum véfréttastíl. Þannig setti Bjarni Benediktsson inn færslu á Twitter síðdegis laugardaginn 15. september sem hann hengdi við tengil á leiðarasíðu Morgunblaðsins frá 4. september 1980. Með færslunni fylgdu orðin: „Fróðlegur gamall leiðari í samhengi málefna dagsins.“ Í leiðaranum sem birtist fyrir 38 árum var að finna hvatningu til íslenskra stjórnvalda um að taka með sama hætti á lendingargjöldum flugleiða og stjórnvöld í Lúxemborg höfðu þegar gert þegar þau felldu þau niður. Bjarni Benediktsson heldur í krafti embættis síns á eina hlutabréfinu í Isavia sem á fyrrnefnda kröfu á hendur WOW air. Hann tilnefnir sömuleiðis alla fimma stjórnarmenn félagsins.

Tíst ráðherrans lagðist greinilega vel í forsvarsmenn WOW air. Í samskiptum blaðamanns við fjölmiðlafulltrúa fyrirtækisins sama laugardag var bent á fyrrnefndan leiðara Morgunblaðsins og hann sagður „góð lesning“.

Félagið 50 til 74 milljarða virði?

Markaðurinn beið með öndina í hálsinum í upphafi nýrrar viku en búið var að tilkynna að niðurstaða skuldabréfaútboðs WOW air yrði kynnt þriðjudaginn 18. september. Og enn á ný bárust óvænt tíðindi úr herbúðum félagsins. Í viðtali við Financial Times tjáði Skúli Mogensen sig um framtíðaráform félagsins. Þau væru ekki einasta bundin við að ljúka skuldabréfaútboðinu sem enn var unnið að að ljúka heldur stefndi hann að því að skrá félagið á markað og að hann teldi að minnihluti í félaginu væri metinn á 200-300 milljónir dollara, jafnvirði 25 til 37 milljarða króna.

Skúli Mogensen fundaði með starfsfólki sínu nú í morgun eftir …
Skúli Mogensen fundaði með starfsfólki sínu nú í morgun eftir að ljóst varð að raknað hafði upp úr viðræðum hans við Icelandair Group um kaup félagsins á öllu hlutafé WOW air. mbl.is/Eggert

Degi síðar bárust svo tíðindi af útboðinu. Safnast höfðu 50 milljónir evra og að auk þess yrði stefnt að því að safna 10 milljónum evra til viðbótar sem þó væru ekki í höfn. Vextirnir af bréfunum voru ákvarðaðir 9% ofan á þriggja mánaða Euribor-vexti en að kjörin færu þó aldrei undir 9% auk trygginga.

Með útboðinu töldu margir að félagið væri búið að koma sér í skjól næstu mánuði, alltént fram að því að félagið gæti sótt aukið fjármagn í útboði sem búið var að gefa út að yrði haldið innan 18 mánaða.

Adam var ekki lengi í Paradís

Hægðist nú nokkuð um í opinberri umfjöllun um WOW air og allra augu beindust að gjaldþroti Primera air. Það bar skjótt að þegar ein af vélum félagsins var kyrrsett á flugvelli í Bretlandi vegna ógreiddra lendingargjalda. Ljóst er að Isavia var meðal kröfuhafa sem töpuðu talsverðum upphæðum á því gjaldþroti vegna ógreiddra lendingargjalda. En bak við tjöldin var áfram róinn lífróður á vettvangi WOW air. Skúli Mogensen sagði m.a. í bréfi til þeirra sem þátt tóku í skuldabréfaútboðinu í september að fyrrnefnt gjaldþrot, óvægin fjölmiðlaumræða ásamt versnandi rekstrarhorfum almennt, hefði átt þátt sinn í því að sífellt dró meira fyrir sólu á vettvangi félagsins.

Liv Bergþórsdóttir er stjórnarformaður WOW air. Hún hefur tekið virkan …
Liv Bergþórsdóttir er stjórnarformaður WOW air. Hún hefur tekið virkan þátt í viðræðunum við Icelandair Group undanfarna daga. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Svo alvarleg var staðan orðin í lok október að eigandi félagsins sá sig knúinn til að leita á fund stjórnarformanns Icelandair Group og kanna þann möguleika að félagið keypti allt hlutafé WOW air. Nokkrum dögum síðar birti Icelandair afkomu sína fyrir 3. ársfjórðung og upp úr því fóru hjólin að snúast hratt. Þreifingar leiddu til þess að stjórn Icelandair Group var kölluð saman í skyndi, skömmu eftir lokun markaða föstudaginn 2. nóvember. Þar var lagt upp með að hefja viðræður um kaup á hlutafénu og brettu samningsaðilar þá þegar upp ermar.

Stefnt var að því að ná niðurstöðu í málið áður en markaðir yrðu opnaðir mánudaginn 5. nóvember. Þrátt fyrir alla viðleitni til þess tókst það ekki. Þó tókst að halda viðræðunum leyndum sem fram fóru á skrifstofu KPMG í Borgartúni.

En það var skömmu fyrir hádegi þennan mánudag sem Kauphöllin ákvað að loka fyrir viðskipti með bréf Icelandair. Skömmu síðar bárust tíðindin af því að félagið hefði keypt allt hlutafé WOW air með ákveðnum fyrirvörum, m.a. þeim sem lúta að samþykki Samkeppniseftirlitsins. Þótt það hafi ekki verið nefnt sérstaklega var þó ljóst að einnig þyrfti að ná samkomulagi við kröfuhafa WOW air og leigusala þá sem eiga vélarnar 20 sem félagið hefur notast við í rekstri sínum.

Kaupin léttu mjög á þeirri spennu sem ríkt hefur á öllum hlutabréfamarkaðnum síðustu mánuði. Þannig hækkuðu bréf Icelandair um ríflega 40% þennan mánudag og önnur félög tóku einnig kipp. Síðustu vikur hefur hlutabréfamarkaðurinn svo sveiflast að talsverðu leyti eftir fréttum sem tengjast frágangi viðskiptanna og hvort þau verði í raun að veruleika eða ekki.

En samningarnir eru háðir margvíslegri annarskonar óvissu. Þannig mun kaupverðið m.a. byggjast á áreiðanleikakönnun sem unnið hefur verið sleitulaust að frá því að samningar voru handsalaðir. Þannig getur hlutur Skúla Mogensen rokkað gríðarlega en gengið er út frá því að hlutur hans muni aldrei nema minna en 1,8% í hlutafé Icelandair Group.

Vandasamur lokasprettur

Þegar kaupin voru tilkynnt voru tekin af öll tvímæli um að niðurstaða varðandi þau yrði að fást fyrir lok nóvembermánaðar. Það skýrir m.a. þá ákvörðun að hluthafar Icelandair Group höfðu verið kallaðir til fundar á morgun til að taka afstöðu til viðskiptanna. Nú er ljóst að hluthafar félagsins munu ekki þurfa að taka afstöðu til þess þar sem ákveðið hefur verið að falla frá kaupunum. En tímasetningin sem lagt var upp með er engin tilviljun, hratt hefur gengið á laust fé WOW air síðustu vikur og svo rammt hefur kveðið að þröngri stöðu þess að fjármálastjóri félagsins sá sig í gær knúinn til að lýsa því yfir í orðsendingu til starfsmanna að laun yrðu greidd út um mánaðamótin.

Tvívegis í þessari viku hafa orðsendingar Skúla Mogensen ratað í fjölmiðla þessa vikuna. Fyrst póstur sem olli talsverðum titringi á vettvangi Icelandair. Þar sagði hann í tölvupósti til starfsmanna að hann ætti í viðræðum við fleiri fjárfesta en hinn stóra keppinaut um framlagningu fjármagns til félagsins. Hins vegar var um að ræða bréf til þeirra sem þátt tóku í skuldabréfaútboðinu í september. Um efni þess var fjallað nákvæmlega í Morgunblaðinu í gær.

17. september birtist viðtal við Skúla Mogensen í Financial Times …
17. september birtist viðtal við Skúla Mogensen í Financial Times þar sem hann sagði félagið tugmilljarða virði. FT.com



Hlutirnir hafa gerst hratt síðustu sólarhringa og hefur stjórn Icelandair Group t.a.m. fundað daglega. Þá hefur Liv Bergþórsdóttir, stjórnarformaður WOW air, sem fremur hefur haldið sig til hlés, blandað sér af auknum þunga í viðræðurnar. Hið sama á við um fulltrúa stjórnvalda. Niðurstaðan sem felst í því að ekkert verði af kaupunum varð ljós eftir langan fund sem stóð fram eftir kvöldi í gærkvöldi. Það var svo fyrir opnun markaða í morgun sem tilkynnt var um niðurstöðuna sem virðist auka enn á óvissuna um framtíð WOW air. Sú óvissa endurspeglaðist í verðmyndun í Kauphöll Íslands. Nær öll félög hafa lækkað mikið í morgun, sínu mest Icelandair Group en þegar markaðir höfðu verið opnir í rúma tvo tíma nam lækkun bréfa félagsins ríflega 10% í 175 milljóna króna viðskiptum. Þá hafa bréf Arion banka, sem er viðskiptabanki WOW air, lækkað um ríflega 3,5% á sama tíma.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK