Uppgjör í venjulegum fasa

mbl.is/Eggert

WOW air skuldar ekki lendingargjöld á erlendum flugvöllum sem félagið flýgur enn á og lokauppgjör til flugvalla sem WOW hefur hætt að fljúga til er í venjulegum uppgjörsfasa. Þetta kemur fram í skriflegu svari Svanhvítar Friðriksdóttur, upplýsingafulltrúa WOW air, til mbl.is.

Mbl.is óskaði eftir upplýsingum frá WOW air í kjölfar fréttar Túrista um að WOW air hefði óskað eftir greiðslufresti il að gera upp ógreidd lend­inga- og farþega­gjöld á er­lend­um flug­völl­um. 

„WOW air hefur farið í umfangsmikla endurskipulagningu í vetur og minnkað framboð töluvert miðað við síðasta ár eins og margoft hefur komið fram. Þessari endurskipulagningu fylgja óhjákvæmilega töluverðar breytingar á starfsmannafjölda, leiðakerfi og flugflota félagsins. WOW air hefur alla tíð verið í mjög góðu sambandi við sína lánardrottna og leyft þeim að fylgjast með gangi mála. 

Við leggjum ekki í vana okkar að tjá okkur um einstaka liði en get þó staðfest að við skuldum engum af okkar erlendu flugvöllum sem við fljúgum til og lokauppgjör til flugvalla sem við erum ekki lengur að fljúga til er í venjulegum uppgjörsfasa en það tekur tíma líkt og eðlilegt er. 

Varðandi Indigo, þá ganga viðræður vel, að svo stöddu tjáum við okkur ekki nánar um þær,” segir í svari Svanhvítar við fyrirspurn mbl.is.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir