Rannsaki ranga aðila

Baldvin Þorsteinsson, stjórnarformaður Eimskips, segir rannsókn Samkeppniseftirlitsins beinast að röngum …
Baldvin Þorsteinsson, stjórnarformaður Eimskips, segir rannsókn Samkeppniseftirlitsins beinast að röngum lögaðilum og að meint brot séu fyrnd.

„Það var algjör samstaða um að fara þessa leið þar sem við teljum að rannsókninni sé ekki hagað með eðlilegum hætti og að hún sé ólögmæt,“ segir Baldvin Þorsteinsson, stjórnarformaður Eimskips, í samtali við mbl.is um kröfu félagsins um að rannsókn Samkeppniseftirlitsins á félaginu og samstæðufélögum þess, sem staðið hefur yfir í tæp tíu ár, verði hætt.

Baldvin segir kröfu Eimskips meðal annars byggja á því að rannsóknin hafi verið formlega felld niður 2015 og á ólögmætri haldlagningu gagna. Jafnframt segir hann Samkeppniseftirlitið í raun hafa staðið fyrir lögreglurannsókn sem ekki sé í verkahring stofnunarinnar.

„Þessu til viðbótar beinist rannsókn Samkeppniseftirlitsins að röngum lögaðilum og ofan á allt þá verður ekki betur séð en þau hugsanlegu brot sem verið er að rannsaka séu fyrnd,“ fullyrðir Baldvin.

„Þessi staða sem er búið að setja félagið og ákveðna stjórnendur í er sennilega einsdæmi og hefur verið bæði starfsfólkinu og félaginu þung byrði,“ segir hann og bætir við að „búið [sé] að setja ákveðinn hóp starfsmanna undir rannsókn og með stöðu sakbornings“.

„Tíu ár er augljóslega óhóflegur tími fyrir rannsókn af þessu tagi. Ekkert fyrirtæki eða einstaklingar eiga að þurfa að una slíku,“ segir Baldvin sem bendir jafnframt á að enginn af þeim sem sitja í stjórninni núna hafi setið í stjórninni á þeim tíma sem rannsóknin nær til.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK