Vextir lækka enn meira

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands: Ásgeir Jónsson, formaður, Rannveig Sigurðardóttir, Þórarinn G. ...
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands: Ásgeir Jónsson, formaður, Rannveig Sigurðardóttir, Þórarinn G. Pétursson, Katrín Ólafsdóttir og Gylfi Zoëga.

Meginvextir Seðlabanka Íslands, vextir á 7 daga bundnum innlánum, verða lækkaðir um 0,25 prósentur og verða samkvæmt því 3,50%. Ef litið er á vaxtakúrfu meg­in­vaxta Seðlabank­ans sést að þeir hafa lægst farið í 3,625 pró­sent­ur snemma árs 2011. Í árs­byrj­un 2009 voru þeir aft­ur á móti 18%. 

„Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bankans um 0,25 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 3,5%.

Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans sem birt er í ágústhefti Peningamála er gert ráð fyrir 0,2% samdrætti í ár sem er lítillega minni samdráttur en spáð var í maí. Stafar það einkum af þróttmeiri vexti einkaneyslu en framlag utanríkisviðskipta er einnig hagstæðara þar sem eftirspurn beinist í meira mæli að innlendri framleiðslu og vegur það upp á móti meiri samdrætti í ferðaþjónustu. Hagvaxtarhorfur fyrir næsta ár hafa hins vegar versnað þar sem útlit er fyrir að það taki ferðaþjónustuna lengri tíma að ná sér á strik eftir áföll ársins.

Verðbólga var 3,4% á öðrum fjórðungi ársins en minnkaði í 3,1% í júlí. Undirliggjandi verðbólga hefur þróast með áþekkum hætti. Horfur eru á að verðbólga hjaðni hraðar en spáð var í maí og að hún verði komin í markmið á fyrri hluta næsta árs. Gengi krónunnar hefur hækkað um liðlega 2% milli funda og gjaldeyrismarkaður verið í ágætu jafnvægi. Verðbólguvæntingar hafa lækkað í markmið frá síðasta fundi og taumhald peningastefnunnar því aukist lítillega.

Peningastefnan mun á næstunni ráðast af samspili þróunar efnahagsumsvifa annars vegar og verðbólgu og verðbólguvæntinga hins vegar,“ segir í yfirlýsingu peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands.

Greiningardeildir höfðu spáð 0,25 prósenta vaxtalækkun en þetta var fyrsta vaxtaákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands eftir að Ásgeir Jónsson tók við embætti seðlabankastjóra.

„Þó yfirbragð nefndarinnar hafi tekið breytingum frá síðasta fundi, sem var í lok júní, hefur stóra myndin í efnahagsmálum lítið breyst. Nýjustu tölur úr ferðaþjónustunni benda enn þá til þess að samdráttur í greininni verði meiri en Seðlabankinn spáði í maí, verðbólga og verðbólguvæntingar eru enn þá yfir verðbólgumarkmiði og kjarasamningum við opinbera starfsmenn er ólokið. Sökum þessa teljum við að sömu valkostir standa nefndinni til boða og í júní, að lækka vexti um 25 punkta eða að staldra frekar við og halda vöxtum óbreyttum. Miðað við innkomu nýs seðlabankastjóra og ummæla hans í fjölmiðlum síðastliðna daga teljum við að hann muni leggja til 25 punkta vaxtalækkun, sem nefndin muni samþykkja, þó ekki einróma frekar en raunin varð í júní,“ segir í spá greiningardeild Arion banka. 

„Við teljum að peningastefnunefnd Seðlabankans ákveði að lækka vexti um 0,25 prósentustig á næsta fundi nefndarinnar, en ákvörðunin verður tilkynnt miðvikudaginn 28. ágúst. Vaxtalækkunarferli Seðlabankans hófst í maí með 0,5 prósentustiga lækkun. Þeirri lækkun var fylgt eftir með 0,25 prósentustiga lækkun í júní. Þessar vaxtalækkanir koma til vegna væntinga um kólnun í hagkerfinu sem rekja má til gjaldþrots WOW air og loðnubrests,“ segir í hagsjá hagdeildar Landsbankans.

Greining Íslandsbanka spáir einnig 25 punkta vaxtalækkun líkt og í júní. „Við síðustu ákvörðun, í júní síðastliðnum, lækkaði peningastefnunefnd stýrivexti um 25 punkta og hafa þeir lækkað um 75 punkta það sem af er þessu ári. Í júní voru fjórir meðlimir nefndarinnar fylgjandi því að lækka vexti en einn nefndarmaður greiddi atkvæði gegn lækkun og vildi halda vöxtum óbreyttum. Við ákvörðunina var horft til þess að samdráttur í þjóðarbúskapnum gæti varið lengur en áður var talið, verðbólguvæntingar hefðu lækkað frá síðustu ákvörðun og að útlit væri fyrir að verðbólga myndi hjaðna í átt að markmiði (2,5%) á þessu ári.“

Meira atvinnuleysi og verðbólga en minni hagvöxtur

Óvissa í alþjóðlegum efnahagsmálum hefur aukist og vaxandi svartsýni gætir um efnahagshorfur í helstu viðskiptalöndum Íslands, segir í Peningamálum Seðlabanka Íslands sem gefin voru út í morgun.

„Snarpur viðsnúningur varð í efnahagsmálum hér á landi með falli flugfélagsins WOW Air í mars sl. og frekari áföllum í flugiðnaði, loðnubresti og rýrnun viðskiptakjara. Horfur eru því á að landsframleiðslan dragist saman í ár í fyrsta sinn síðan árið 2010.

Útlit er þó fyrir að efnahagssamdrátturinn verði lítillega minni en talið var í maí þrátt fyrir að nú sé búist við meiri fækkun ferðamanna til landsins og meiri útflutningssamdrætti. Skýrist það að hluta af því að undirliggjandi vöxtur einkaneyslu virðist þróttmeiri en ekki síður af því að neysluútgjöld beinast í meira mæli að innlendri framleiðslu eins og sést á miklum samdrætti innflutnings.

Líkt og í maí er talið að þjóðarbúið taki við sér á ný á næsta ári og hagvöxtur verði 1,9%. Það er nokkru minni hagvöxtur en spáð var í maí sem má rekja til þess að nú eru horfur á að það taki ferðaþjónustuna lengri tíma að ná sér á strik eftir áföll ársins en þá var gert ráð fyrir. Spáð er að hagvöxtur aukist í 2,7% árið 2021 sem er svipað og í maíspánni.

Störfum fækkaði á öðrum fjórðungi ársins og atvinnuleysi jókst nokkuð. Það var að meðaltali 3,8% á fjórðungnum og hefur ekki verið meira frá árinu 2015. Hratt hefur því dregið úr þeirri spennu sem myndaðist í þjóðarbúinu eftir mikinn vöxt efnahagsumsvifa undanfarin ár. Talið er að framleiðsluspennan sé u.þ.b. horfin og að smávægilegur slaki myndist í lok þessa árs.

Þegar kemur fram á næsta ár tekur atvinnuleysi að minnka á ný og slakinn hverfur undir lok ársins. Verðbólga jókst nokkuð í kjölfar lækkunar á gengi krónunnar sl. haust og náði hámarki í 3,7% í desember sl. Hún mældist 3,4% á öðrum ársfjórðungi en hafði minnkað í 3,1% í júlí. Verðbólguvæntingar hafa einnig lækkað eftir að hafa hækkað í fyrra.

Gert er ráð fyrir að verðbólga verði komin í 2,9% á síðasta fjórðungi ársins og í markmið á fyrri hluta næsta árs en líkt og spáð var í maí fer hún um tíma niður fyrir það á seinni hluta ársins. Samkvæmt spánni tekur hún síðan að þokast upp í markmið árið 2022.“

Töluvert meiri samdráttur en spáð var

Óvissa er um hversu mikill samdrátturinn í ferðaþjónustu verður eftir gjaldþrot WOW Air í mars sl. og kyrrsetningu Boeing 737 Max-þota Icelandair. Flugferðum til og frá landinu fækkaði um ríflega fjórðung milli ára á öðrum fjórðungi ársins og á sama tíma komu 19% færri ferðamenn til landsins.

Þá jókst sætaframboð Icelandair minna í sumar en áætlað var í maí vegna kyrrsetningar Max-þotanna. Óvíst er hvenær Icelandair mun taka þoturnar í notkun en röskun á flugumferð á heimsvísu sem fylgt hefur í kjölfar alþjóðlegrar kyrrsetningar Max-þota mun að öllum líkindum hafa áhrif á bæði sætaframboð og flugfargjöld hér á landi fram á næsta ár.

Horfur eru því á að samdráttur í farþegaflutningum með flugi og fækkun ferðamanna sem koma til landsins verði töluvert meiri á þessu ári en búist var við í maí. Útlit er því fyrir að þjónustuútflutningur dragist meira saman þótt á móti vegi aukin útgjöld á hvern ferðamann.

Horfur fyrir vöruútflutning hafa hins vegar ekki breyst frá því í maí. Talið er að samdráttur í útflutningi sjávarafurða á þessu ári verði minni en búist var við þar sem meira hefur verið flutt út af birgðum og kvóti uppsjávartegunda, annarra en loðnu, hefur verið aukinn. Á móti kemur að búist er við heldur veikari álútflutningi.

Gengi krónunnar hefur lækkað um 10%

Gengi krónunnar lækkaði sl. haust í kjölfar frétta af fjármögnunarvanda WOW Air og rýrnunar viðskiptakjara. Þá gætti aukinnar svartsýni um efnahagshorfur og niðurstöðu kjarasamninga. Á fyrri hluta þessa árs hélst gengið tiltölulega stöðugt þrátt fyrir gjaldþrot WOW Air og áhyggjur af snörpum viðsnúningi í efnahagsmálum. Frá síðari hluta júlímánaðar hefur gengið hækkað nokkuð en það er þó svipað nú og það var við útgáfu Peningamála í maí og er enn um 10% lægra en á sama tíma í fyrra sé miðað við viðskiptavegna gengisvísitölu.

Kaupsamningum fækkar um 13,7%

Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 2,9% milli ára í júlí sl. en hægt hefur á ársvexti íbúðaverðs nær óslitið síðan í maí 2017. Að raunvirði stendur íbúðaverð nánast í stað á milli ára. Leiguverð hefur hækkað meira en íbúðaverð undanfarið ár og nam árshækkun þess 5,6% í júlí. Nokkuð virðist hafa dregið úr umsvifum á fasteignamarkaði og fækkaði kaupsamningum um 13,7% á fyrstu sjö mánuðum ársins frá sama tíma í fyrra. Fækkun kaupsamninga með nýbyggingar var enn meiri eða 28,9%. Þá hefur meðalsölutími eigna lengst milli ára og var kominn í 2,8 mánuði í júlí.

Verulega hefur hægt á hækkun húsnæðisverðs að undanförnu. Kostnaður vegna eigin húsnæðis hafði í júlí hækkað um 2,6% sl. tólf mánuði og hefur árshækkunin ekki verið minni síðan í byrjun sumars 2013. Áhrif lækkunar raunvaxta á húsnæðiskostnað heimila hafa einnig aukist það sem af er þessu ári. Framlag húsnæðisliðarins til verðbólgu hefur því haldið áfram að minnka og er orðið minna en framlag innfluttrar vöru.

Samkvæmt sumarkönnun Gallup mælast verðbólguvæntingar heimila til eins árs 4% og eru óbreyttar frá vorkönnuninni og 0,6 prósentum hærri en fyrir ári. Verðbólguvæntingar stjórnenda fyrirtækja til eins árs lækka hins vegar frá síðustu könnun og mælast 3%. Samkvæmt nýrri könnun Seðlabankans lækka verðbólguvæntingar markaðsaðila einnig milli kannana. Þeir gera ráð fyrir að verðbólga verði tæp 3% að ári liðnu og 2,5% eftir tvö ár.

„Verðbólguhorfur eru háðar fjölda óvissuþátta og breytingar á mikilvægum forsendum um innlenda og alþjóðlega efnahagsþróun gætu gert það að verkum að verðbólga þróist með öðrum hætti en hér er spáð. Eins og venjan er í uppfærðum spám bankans er áhættumat grunnspárinnar óbreytt frá síðustu spá. Líkindadreifing spárinnar er því óbreytt frá því í maí sem felur í sér að helmingslíkur eru á að verðbólga verði á bilinu 1½-31/3% að ári liðnu og á bilinu 1¼-3¾% í lok spátímans,“ segir í Peningamálum Seðlabanka Íslands. 

Hægir á einkaneyslu og skuldir heimila aukast

Skuldir heimila og fyrirtækja jukust um 1,2% milli fjórðunga á fyrsta ársfjórðungi 2019 en voru óbreyttar sem hlutfall af landsframleiðslu. Hlutfall útlána í vanskilum fer áfram lækkandi, sér í lagi útlán til fyrirtækja. Þá urðu færri fyrirtæki gjaldþrota á fyrstu sex mánuðum ársins en í fyrra og fjöldinn nokkuð undir meðaltali undanfarinna ára.

Nokkuð hægði á vexti einkaneyslu á síðasta ársfjórðungi í fyrra og varð framhald á þeirri þróun á fyrsta fjórðungi þessa árs. Ársvöxturinn nam 2,8% sem er ríflega 1 prósentu meiri vöxtur en spáð hafði verið í maí og nokkru meiri en vísbendingar á borð við greiðslukortaveltu bentu til. Hægt hefur á innflutningi neysluvöru á síðustu mánuðum og vöxtur greiðslukortaveltu hefur verið hóflegur. Í spánni er áætlað að áfram dragi úr vexti einkaneyslu og hann verði 1,9% í ár sem er 0,3 prósentum meiri vöxtur en spáð var í maí. Talið er að vöxturinn sæki heldur í sig veðrið á næstu tveimur árum í takt við ágætan vöxt kaupmáttar ráðstöfunartekna.

Útlit fyrir áframhaldandi fækkun starfa

Samkvæmt árstíðarleiðréttum niðurstöðum sumarkönnunar Gallup meðal 400 stærstu fyrirtækja landsins er útlit fyrir að störfum muni fækka áfram á síðari hluta ársins. Munur á hlutfalli fyrirtækja sem vildu fjölga starfsfólki og þeirra sem vildu fækka því var neikvæður um 12 prósentur sem er lítillega neikvæðari munur en í vorkönnuninni.

Viðhorf stjórnenda í samgöngum, flutningum og ferðaþjónustu og í ýmissi sérhæfðri þjónustu voru nokkuð bjartsýnni en í vor. Á sama tíma voru stjórnendur í verslun og byggingarstarfsemi töluvert neikvæðari en þar gætir líklega áhrifa nýgerðra kjarasamninga verslunar- og verkafólks á almennum vinnumarkaði, samkævmt því sem kemur fram í Peningamálum.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK