Weeknd, Benzinn og hans blindandi ljós

„Hey Mercedes, settu á Blinding Lights,“ segir Weeknd við rafmagnsbílinn …
„Hey Mercedes, settu á Blinding Lights,“ segir Weeknd við rafmagnsbílinn sem hann þýtur á um í nýrri auglýsingu sem rapparinn er skrifaður sem listrænn stjórnandi að. Skjáskot/YouTube

Súperstjarnan The Weeknd kom ófáum aðdáendum sínum, sem skipta hundruðum milljóna, vel á óvart í gær þegar hann boðaði upphaf „nýs geðsjúks kafla“ á sínum ferli. Þeirri tilkynningu á Instagram fylgdi glænýtt lag, Heartless, eftir rúmlega árslanga þögn. Lagið vekur lukku og er í anda fyrri verka mannsins; eiturlyf, harðbrjósta karlmenn og í meira lagi óheilbrigð samskipti þeirra við kvenfólk.

En geðsjúkum nýjum kaflanum lýkur ekki bara með þessu eina lagi. 

Þessi atburðarás virðist nefnilega vera einhvers konar tilhlaup að öðru stærra og ef til vill markaðslega markverðara uppátæki rapparans, nefnilega samstarfi hans við Mercedes-Benz. Meiriháttar samstarfssamningur hefur verið gerður á milli The Weeknd, skírnarnafni Abel Tesfaye, og þýska bílaframleiðandans. 

Afrakstur þess samnings er stuttmynd sem kemur út á morgun og í henni verður nýtt lag Weeknd „Blinding Lights“. Og þau blindandi skæru ljós eru auðvitað varla annað en einmitt lýsing á framljósum á hinum nýja Mercedes-Benz EQC, sem herferðin snýst um. Rapparinn lýsir á Instagrammi sínu tilhlökkun sinni yfir þessu verkefni, sem hann kveðst hafa komið að sem „creative director.“ Hann er sem sé listrænn stjórnandi auglýsingarinnar, enda margvitað að listagyðjunum og Mammóni getur vel samið, einkum einmitt ef vel er samið.

The Weeknd hefur ekki gefið út tónlist síðan í mars á síðasta ári, þegar hann gaf út stutta EP-plötu, My Dear Melancholy. Þar á undan hafði Starboy-platan farið mikla sigurför um allan heim árið 2016. Hann er einn vinsælasti rappari í heimi þó að vissulega megi einnig lýsa honum sem einfaldlega R&B-tónlistarmanni. Það er á reiki, eins og aðrar skilgreiningar sem skipta máli.

Bíllinn sem hann auglýsir nú með list sinni er nýjasta nýtt, fullbúinn rafmagnsjeppi. Mercedes-Benz hefur dreift auglýsingum um bílinn villt og galið á þýskum mörkuðu síðustu vikur og í sömu andrá er iðulega nefnt, að fyrirtækið fagnar 133 ára sögu, þó að ekki sé hitt nefnt, að hún er ekki flekklaus með öllu.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK