Seðlabankinn að bregðast við kalli markaðarins

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka.
Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka. Ljósmynd/Íslandsbanki

Með ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans í morgun um að hefja beint kaup á skuldabréfum ríkissjóðs á eftirmarkaði er bankinn að bregðast við kalli markaðarins og að reyna að koma í veg fyrir að langtímavextir, sem meðal annars hafa áhrif á vaxtastig íbúðalána, fyrirtækjaskuldabréfa og skuldabréfa banka, verði háir. Þetta segir Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka.

Um helgina kynnti ríkisstjórnin aðgerðir sínar til að mæta efnahagslegum áhrifum af útbreiðslu kórónuveirunnar. Kom það í kjölfar tilkynningar Seðlabankans á miðvikudaginn í síðustu viku um aðra vaxtalækkunina á einni viku, en samtals voru stýrivextir bankans lækkaðir um eitt prósentustig. Þá tilkynnti Seðlabankinn í morgunn að hann myndi hefja bein kaup á skuldabréfum ríkissjóðs á eftirmarkaði, en síðasta þriðjudag tilkynnti fjármálaráðuneytið að fyrirsjáanlegt væri að fjárþörf ríkisins myndi aukast umtalsvert frá fyrri spám og því aukin útgáfa ríkisbréfa á öðrum ársfjórðungi upp á allt að 40 milljarða.

Á kynningarfundi Seðlabankans um vaxtaákvörðunina á miðvikudaginn var Seðlabankastjóri margspurður út í aðgerðir Seðlabankans vegna aðstæðnanna sem upp væru komnar og þá sérstaklega hvort bankinn myndi hefja kaup á ríkisskuldabréfunum sem ríkið hafði daginn áður tilkynnt um að gefa ætti út. Sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri þá að engin ákvörðun hefði verið tekin um slíkt, þó að slíkt hefði verið rætt innan bankans almennt. Í gær hélt peningastefnunefnd svo aukafund þar sem ákvörðun um kaupin var ákveðin.

Mikilvægt að langtímavextir hækki ekki mikið

Jón Bjarki segir í samtali við mbl.is að markaðurinn hafi brugðist við tilkynningu lánamála ríkisins í síðustu viku með því að langtímavextir á ríkisskuldabréfum hafi hækkað töluvert. „Í stuttu máli má segja að peningastefnunefnd hafi áttað sig á því að við það mætti ekki standa og að mikilvægt væri að langtímavextir hækki ekki mikið,“ segir Jón Bjarki.

Nefnir hann að áhrif langtímavaxtanna gæti meðal annars á vaxtastig annarra langtímabréfa, svo sem íbúðalána, fyrirtækjaskuldabréfa og skuldabréfa banka og fjármálastofnana. „Það að þessir vextir haldist lágir skiptir miklu.“

Kemur í veg fyrir að ríkið sogi fjármagn af markaðinum

Viðbrögð á skuldabréfamarkaði í morgun hafa verið í takt við tilkynninguna, en ávöxtunarkrafa langtímabréfa hefur lækkað umtalsvert. Jón Bjarki segir að þessi ákvörðun komi einnig í veg fyrir að útgáfa ríkisins beint út á markaðinn sogi að sér fjármagn og komi þannig í veg fyrir að fjárfest sé í öðru á markaði. Slíkt gæti verið mjög slæmt.

Segir hann að þótt kærkomið hefði verið að kynna kaup Seðlabankans á sama tíma og lánamál tilkynntu um útgáfuna, þá skipti það ekki öllu máli í stóra samhenginu. „Þetta sýnir að Seðlabankinn er tilbúinn að milda höggið á atvinnulífið og almenning,“ segir Jón Bjarki.

Atvinnulífið og fjármálakerfið taki aðgerðapakkanum vel

Spurður út í viðbrögð markaðarins vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar sem kynntar voru um helgina segir Jón Bjarki að þótt viðbrögð hafi verið blendin í umræðu um helgina heyrist honum að atvinnulífið og fjármálageirinn taki þessu vel. „Þar er talið að þetta muni hafa veruleg áhrif til að minnka höggið,“ segir hann og bætir við að honum sjálfum finnist þetta nokkuð vel heppnaður pakki.

Forsvarsfólk ríkisstjórnarinnar kynnti aðgerðaáætlun sína á fundi í Hörpu um …
Forsvarsfólk ríkisstjórnarinnar kynnti aðgerðaáætlun sína á fundi í Hörpu um helgina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jón Bjarki tekur þó fram að ríkisstjórnin hafi talað um að ekki væri um lokaskref að ræða í þessum aðgerðum. „Allt breytist hratt,“ segir hann. „Þegar fólk gagnrýnir umfang pakkans og stærðir í honum þá verður að hafa í huga að stjórnvöld hafa sýnt að þau hafa brugðist hratt við hingað til.“ Segir hann að miðað við viðbrögðin hingað til megi treysta á hröð viðbrögð áfram.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK