Kemur standandi niður úr storminum

Ingólfur Axelsson, forstjóri Tröllaferða.
Ingólfur Axelsson, forstjóri Tröllaferða. mbl.is/RAX

Frá og með mánaðamótunum verður einn starfsmaður á launaskrá hjá ferðaþjónustufyrirtækinu Tröllaferðum. Í janúar voru um 50 starfsmenn hjá fyrirtækinu. Frá 20. mars hefur tekjufallið verið 100% og útlit fyrir að sama staða verði upp á teningnum næstu mánuði. „Því miður þurfum við að láta starfsmenn fara því staðan er mjög vond og við sjáum ekki til lands. Við erum í miðjum storminum,“ segir Ingólf­ur Ragn­ar Ax­els­son forstjóri og eigandi Tröllaferða, sem var stofnað árið 2016. 

Ingólfur segir vandann vera tvíþættan. Annars vegar tekjufall vegna engra viðskipta ferðamanna vegna kórónuveirunnar líkt og þekkt er og hins vegar gengur illa að innheimta útistandandi kröfur. „Reksturinn í dag snýst um að vera starfhæf aftur þegar þetta fer allt í gang,“ segir hann. 

Fyrirtækið nýtir aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar svo starfsmönnum séu tryggð laun út uppsagnarfrestinn. Þrátt fyrir útspil ríkisstjórnarinnar hefði fyrirtækið alltaf þurft að segja upp starfsfólki sínu því ekki er hægt að halda fólki í vinnu þegar enga vinnu er að hafa. 

Eigandi Tröllaferða segir að grisjun í greininni sé óhjákvæmileg.
Eigandi Tröllaferða segir að grisjun í greininni sé óhjákvæmileg. mbl.is/Eggert Jóhannesson

 

Hafa sparað til mögru áranna

„Tröllaferðir er arðbært fyrirtæki. Við getum komist í gegnum þetta vegna þess að það hefur verið afgangur síðustu tvö ár hjá okkur,“ segir Ingólfur. Fyrirtækið hefur því einhverja innistæðu upp á að hlaupa til mögru áranna. „Ég veit að við eigum eftir að komast í gegnum þetta. Við höfum unnið hart að því síðust þjú ár að vera með litla yfirbyggingu og undirbúið okkur að takast á við áföll þó enginn hafi séð fyrir áfall af þessari stærðargráðu,“ útskýrir hann. 

Í því samhengi veltir hann því fyrir sér hvernig önnur fyrirtæki, sem hafa skilað rekstrartapi síðustu ár, eigi eftir að komst út úr þessari kreppu.  

Spurður um framtíðina innan ferðaþjónustunnar segir hann ljóst að þau fyrirtæki sem hafi staðið illa fyrir þetta þurfi að fara í þrot. „Ef það er ekki gert þá höldum við áfram að byggja upp grein sem ekki er sjálfbær. Það þýðir ef það er ekki gert þá lofum við fyrirtækjum sem eru í bullandi hallarekstri og standa ekki undir sér að taka markaðshlutdeild,“ útskýrir hann.

Ekki sanngjarnt að skattgreiðendur haldi uppi fyrirtækjum sem ekki eru arðbær

Hann tekur fram að mörg fyrirtæki í ferðaþjónustu séu niðurgreidd af landsmönnum í gegnum eignarhald lífeyrissjóðanna í þeim. „Að sjálfsögðu gengur það ekki í ferðaþjónustu sem og í öðrum atvinnugreinum eins og sjávarútvegi að við höldum upp fyrirtækjum sem ekki eru arðbær,“ segir hann. Grisjun í þessari grein sé því óhjákvæmileg. 

„Það er erfitt að skila rekstarhagnaði ef spilunum er ójafnt skipt ef reglunum er ekki framfylgt sem settar eru fram,“ segir hann. Hann bendir á að ef ferðaþjónustufyrirtæki séu ekki rekstarhæf eigi þau ekki að vera með tilskilin leyfi til rekstrar frá Ferðamálastofu. „Í mínum huga skiptir þetta mjög miklu máli upp á framtíðina að gera, að fyrirtæki sem eru heilbrigð og í rekstri fái að gera það án þess að keppa við fyrirtæki sem sífellt skila tapi.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK