Noona sækir 190 milljónir og stefnir út

Teymið á bak við Noona. Salt Pay hefur fjárfest fyrir …
Teymið á bak við Noona. Salt Pay hefur fjárfest fyrir 190 milljónir í fyrirtækinu og verður það fjármagn notað í erlenda sókn næstu tvö árin. Ljósmynd/Eygló Gísla

Íslenska sprotafyrirtækið Noona hefur tryggt sér 190 milljóna króna fjárfestingu frá Salt Pay, eiganda Borgunar. Er fjárfestingin hugsuð til að fjármagna erlenda sókn fyrirtækisins og verður hún unnin í samstarfi við Salt Pay, sem þegar er með umtalsverða starfsemi erlendis og verður horft til samlegðaráhrifa við núverandi sölu- og dreifinet þeirra.

Fjárfestingin er í formi hlutafjáraukningar í fyrirtækinu Tímatal ehf. sem rekur bæði þjónustumarkaðstorgið Noona og tímabókunarkerfið Tímatal. Fyrirtækið mun hins vegar starfa undir merkjum Noona erlendis.

Eignast Salt Pay 20% í Tímatali ehf. með fjárfestingunni, en miðað við það er verðmat fyrirtækisins 950 milljónir.

Sjö ára saga

Kjartan Þórisson fékk hugmyndina upphaflega árið 2014 og fór að vinna í henni ásamt Jóni Hilmari Karlssyni sem er í dag framkvæmdastjóri félagsins, en þeir eiga báðir 45% hlut í Tímatali ehf. Í samtali við mbl.is segir hann að eftir að hafa unnið að verkefninu í hjáverkum fyrstu árin hafi hann og Jón tekið stóra skrefið og gert þetta verkefni að aðalstarfi sínu árið 2018. Í dag eru starfsmenn fyrirtækisins sex og segir Kjartan að hann búist við að fjöldinn sem komi að vöruþróuninni verði kominn upp í 12 fyrir lok þessa árs.

Upphaflega hugmyndin var tímabókunar- og sölukerfi fyrir þjónustuaðila, en stærstur hluti viðskiptavina þeirra eru meðal annars hárgreiðslustofur, snyrtistofur, bílaverkstæði, nuddstofur og dýralæknar. Í raun þjónustufyrirtæki þar sem alla jafna þarf að panta tíma. Segir Kjartan að söluaðilar noti kerfið fyrir heimsóknarsögu, söluutanumhald og bókanir.

Til viðbótar var markaðstorgið Noona opnað, en þar gefst fyrirtækjum sem nota þjónustuna kostur á að opna á tímapöntun í gegnum vefsíðu eða app fyrirtækisins. Er Noona nú komið með 350 viðskiptavini og hafa um 50 þúsund manns sótt app þeirra. Þá hafa yfir 175 þúsund bókanir farið í gegnum kerfið síðan árið 2019.

„Þessi fjármögnun er að fara að breyta öllu“

Kjartan segir að þeir hafi þegar náð nokkuð góðri stöðu hér á landi og þannig sé markaðshlutdeild þeirra um 80% þegar komi að hárgreiðslu- og snyrtistofum sem eru þeirra stærsti markhópur. Hins vegar hafi þeir verið farnir að horfa út fyrir landsteinana og fjárfestingin núna geri þeim kleift að stíga það skref.

„Þessi fjármögnun er að fara að breyta öllu, sérstaklega að með þessu getum við ráðið teymi til að láta þessa stóru hluti gerast sem við höfum ætlað að gera,“ segir hann.

Markaður fyrir þjónustufyrirtæki eins og nefnd hafa verið hér að framan er að sögn Kjartans alltaf frekar staðbundinn. Þannig hafi bókunarlausnir fyrir slíka þjónustu einnig verið nokkuð staðbundin og þó mikil samkeppni sé á markaðinum, þá sé hún ekki beint í formi eins eða nokkurra stórra alþjóðlegra risa eins og Facebook eða Google.

Kjartan Þórisson stofnandi og Jón Hilmar Karlsson, framkvæmdastjóri Noona.
Kjartan Þórisson stofnandi og Jón Hilmar Karlsson, framkvæmdastjóri Noona. Ljósmynd/Eygló Gísla

Ætla í sókn til tveggja erlendra borga á árinu

Vegna þessa hafi samstarf við Salt pay og fjárfesting þeirra gengið mjög vel saman við framtíðaráform Noona, en Kjartan bendir á að Salt pay sé með starfsstöðvar meðal annars í Portúgal og víða í Austur-Evrópu. Stefnir Noona á sókn á tvo erlenda markaði á þessu ári þar sem Salt Pay sé þegar til staðar, en enn á þó eftir að ákveða hvar það verður. Segir Kjartan að horft sé til þess að það verði borgir sem eru um tvöfalt stærri en Reykjavík.

„Þetta er mjög spennandi því dreifikerfið er oftast erfiðasta púslið fyrir minni fyrirtæki,“ segir Kjartan og bætir við að vonandi muni Noona og Salt pay ná að vaxa saman á næstu tveimur árum, sem sé það tímabil sem fjárfestingin eigi að ná til.

Til viðbótar við fyrrnefnda fjölgun starfsfólks segir Kjartan að horft sé til þess að ráða tvo starfsmenn á hvorn staðinn sem sótt verður á með það markmiði að þeir byggi upp sambönd við söluaðila.

Í taki við orð stjórnarformanns Salt Pay í fyrra

Ekki verður annað séð en að þessi áform séu nokkuð í takt við það sem Ali Maz­and­erani, stjórnarformaður Salt Pay, lagði áherslu á í viðtali við mbl.is á síðasta ári, en þar sagði hann stefnu Salt Pay vera að byggja upp greiðslu- og tæknilausnir fyrir minni viðskiptavini. Sagði hann að meðal annars væri horft til þess að tengja saman greiðslulausnir og bókhaldskerfi á einfaldan hátt og að einfalda minni fyrirtækjum að nálgast viðskiptavini í stað þess að auglýsa í gegnum hefðbundna auglýsingamiðla.

Í dag greiða fyrirtæki sem nota tímaskráningarkerfið mánaðargjald fyrir að nota það, en aðgangur að markaðstorginu hefur verið ókeypis fyrir viðskiptavini. Þá eru þar engar auglýsingar aðrar heldur. Kjartan segir að til lengri tíma sjái þeir fram á að tekjuvæða markaðstorgið, en útfærsla á því eigi eftir að koma í ljós.

Aðgangur að 50 milljónum til viðbótar

Fjárfesting Salt Pay er sem fyrr segir 190 milljónir, en Kjartan segir að til viðbótar við það hafi þeir leyfi til að sækja allt að 50 milljónir í viðbót frá innlendum fjárfestum sem samið hafi verið við, en að lokaútfærsla þess verði líklega kláruð á næstu mánuðum. Segir hann að fjármagnið eigi að duga í vaxtaáformin fram undan næstu tvö ár, en að planið sé svo að sækja meira fjármagn ef allt gangi vel til að „keyra almennilega á þetta tækifæri,“ segir Kjartan.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK