Landsframleiðslan aftur að aukast

Landsframleiðsla hefur aftur aukist eftir verulegan samdrátt á árinu 2020, …
Landsframleiðsla hefur aftur aukist eftir verulegan samdrátt á árinu 2020, í kjölfar faraldursins. mbl.is/Golli

Samdráttur í landsframleiðslu, sem orðið hefur vegna faraldursins, hefur gengið að verulegu leyti til baka á öðrum ársfjórðungi þessa árs.

Landsframleiðslan dróst saman um 10,5% á öðrum ársfjórðungi ársins 2020 en samkvæmt niðurstöðum þjóðhagsreikninga er áætlað að landsframleiðsla hafi vaxið að raungildi um 7,3% á öðrum ársfjórðungi 2021, samanborið við sama tímabil fyrra árs.

Aukin einkaneysla og fjármunamyndun

Skýrist þetta einkum skýrist af aukinni einkaneyslu og fjármunamyndun, að því er fram kemur á vef Hagstofunnar.

Fyrstu sex mánuði ársins er áætlað að landsframleiðslan hafi vaxið um 3,5% að raungildi samanborið við landsframleiðslu fyrstu sex mánuði ársins 2020 en hún mælist þó enn um 4% að raungildi en hún var á öðrum ársfjórðungi 2019, fyrir faraldur.

Þjóðarútgjöld jukust um 9,4%

Á öðrum ársfjórðungi 2021 jukust þjóðarútgjöld, sem eru samtala neyslu og fjárfestingar, um 9,4% að raungildi borið saman við sama tímabil ársins á undan. Vöxtur í einkaneyslu mældist 8,5%, vöxtur samneyslu 2,6% og vöxtur í fjármunamyndun 25,9%.

Umtalsverð aukning mældist í bæði inn- og útflutningi á öðrum ársfjórðungi 2021 borið saman við sama tímabil fyrra árs en þar sem vöxtur innflutnings mældist meiri en sem nemur vexti útflutnings er framlag utanríkisviðskipta í heild til hagvaxtar neikvætt á ti´mabilinu. Útflutningur jókst um 27,9% en innflutningur um 32,8%. Vöru- og þjónustujöfnuður var neikvæður um 30,5 milljarða króna á tímabilinu.

Landsframleiðsla dróst saman um 6,5% á árinu 2020

Landsframleiðsla ársins 2020 nam 2.941 milljarði króna og dróst saman að raungildi um 6,5% frá fyrra ári samanborið við 2,4% vöxt árið áður, að því er fram kemur í bráðabirgðatölum Hagstofunnar fyrir árið 2020.

Að teknu tilliti til mannfjöldaaukningar, sem nam 1,7%, dróst landsframleiðsla á mann saman um 8 að raungildi árið 2020.

Niðurstöður þjóðhagsreikninga hafa þá verið endurskoðaðar fyrir árin 2018 og 2019 en þær má nálgast á vef Hagstofunnar.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK