Hlutfall íbúða sem seljast á yfirverði hækkaði á ný í september eftir lækkun mánuðina á undan. Á höfuðborgarsvæðinu seldust 40,7% íbúða yfir ásettu verði. Svo hátt hefur hlutfallið ekki mælst áður.
Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu hagdeildar HMS.
Miðað við 3 mánaða meðaltal seldust sérbýli í 38% tilfella yfir ásettu verði en íbúðir í fjölbýli í um 36% tilfella. Á landsbyggðinni í heild, fyrir utan höfuðborgarsvæðið, seldust sérbýli í um 22% tilfella yfir ásettu verði, en íbúðir í fjölbýli í um 17% tilfella.
Á sama tíma styttist meðalsölutíminn og mælist um 38,7 dagar á höfuðborgarsvæðinu sem er nálægt því lægsta sem mælst hefur. Tíminn er mældur frá því að auglýsing er birt og þar til samningur er undirritaður. Í skýrslunni segir að telja megi að hann verði vart skemmri og hann mælist á höfuðborgarsvæðinu um þessar mundir vegna þess tíma sem tekur að fjármagna íbúðakaup.
Eftir merki um minnkandi eftirspurnarþrýsting jukust umsvif á fasteignamarkaði lítillega í september frá fyrri mánuði.
Miðað við tólf mánaða breytingu er um 35% samdrátt að ræða miðað við september í fyrra. Þrátt fyrir það eru umsvif meiri en á sama tíma á meðalári, að því er kemur fram í skýrslunni.
Í nágrenni höfuðborgarsvæðisins var fjöldinn á pari við metmánuðinn í fyrra og annars staðar á landinu er fjöldinn rétt undir metmánuðinum.
Í byrjun nóvember voru aðeins um 1.320 íbúðir auglýstar til sölu á landinu öllu en til samanburðar voru þær yfir 1.400 í byrjun september og nærri 4.000 þegar mest var í lok maí í fyrra. Þar af eru um 640 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu en þær voru um 680 í byrjun september og 2.200 í maí 2020.
Á undanförnum mánuðum hefur íbúðum í fjölbýli haldið áfram að fækka hratt en fjöldi sérbýla hefur verið að sveiflast á milli 150 og 230. Á landsbyggðinni hefur íbúðum til sölu í fjölbýli fækkað hratt undanfarna mánuði.
Ef horft er á ársbreytingu á framboði íbúða þá hefur íbúðum í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu fækkað um 61,4% en á landsbyggðinni hefur þeim fækkað um 65,6%. Framboð af sérbýlum hefur dregist saman um 22,5% á höfuðborgarsvæðinu, en 44,7% á landsbyggðinni.