Hekla skoðar höfuðstöðvar í Garðabæ

Bílaumboðið Hekla hefur í áratugi verið með höfuðstöðvar sínar við …
Bílaumboðið Hekla hefur í áratugi verið með höfuðstöðvar sínar við Laugaveg.

Hekla fasteignir hf. átti hæsta boð í byggingarrétt á tveimur lóðum í Þorraholti, nýrri götu sem liggur við Reykjanesbraut í Garðabæ, á mörkum við Kópavog og fyrir ofan upplyfta hringtorgið á Arnarnesvegi. Áformar félagið að reisa þar nýjar höfuðstöðvar sínar, en áður höfðu áform þess um höfuðstöðvar í Suður-Mjódd farið út um þúfur eftir viðræður við Reykjavíkurborg.

Um miðjan júní samþykkti bæjarráð Garðabæjar að fela Almari Guðmundssyni bæjarstjóra að ræða við forsvarsmenn Heklu um nánari útfærslu tilboðsins og áform félagsins varðandi starfsemi á lóðunum.

Tilboð Heklu hljóðaði upp á 282,25 milljónir, en eitt annað tilboð barst og var það samtals upp á 210 milljónir.

„Við erum að máta þetta“

Friðbert Friðbertsson, forstjóri Heklu segir að fyrirtækið vinni núna með skipulagsyfirvöldum í Garðabæ og skoði hvort hægt sé að láta þetta passa inn í skipulagið. Vinnan standi nú yfir, en vonandi takist að ljúka henni í haust. „Við erum að máta þetta.“ Segir hann að meðal annars sé til skoða hvernig hægt sé að koma bílastæðum fyrir, en þar kemur til greina að hafa þau neðanjarðar eða í bílastæðahúsum til að bæta ásýnd svæðisins.

Friðbert Friðbertsson, forstjóri Heklu.
Friðbert Friðbertsson, forstjóri Heklu. Ljósmynd/Aðsend

Friðbert segir þetta svæði kjörið fyrir starfsemina, enda sé þetta eiginlega miðja höfuðborgarsvæðisins. Samningar Heklu og borgarinnar um lóð í syðri Mjódd gengu ekki upp. Spurður um afstöðu Garðabæjar segir Friðbert: „Sveitarfélagið leitast eftir að fá fyrirtæki til sín.“

18-20 þúsund fermetra lóð draumastærðin

Hann segir draumastærð Heklu vera 18-20 þúsund fermetra lóð og að geta byggt um 7-8 þúsund fermetra undir starfsemina. Hekla hefur hingað til verið með starfsstöðvar sínar í Reykjavík, eða í um 90 ár og þar af síðan 1960 við Laugarveg.

Almar segir í samtali við mbl.is að um sé að ræða tvær af þremur lóðum sem Garðabær eigi við Þorraholt, en það er hluti af mun stærra uppbyggingarverkefni í Hnoðraholti sem nú stendur yfir, en búist er við að bygging fyrstu íbúða á svæðinu hefjist strax á komandi vetri.

„Ég er ánægður með að svona aðili sjái hag sínum borgið á þessum stað,“ segir Almar og bætir við að Hekla horfi á þetta sem framtíðarstað fyrir höfuðstöðvar sínar. Bendir hann á að þegar sé bílaumboðið Toyota með höfuðstöðvar í Garðabæ.

Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar.
Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar. mbl.is/Arnþór

Almar segir að framundan séu spennandi viðræður við Heklu og ljóst sé að fyrirtækið sjái tækifæri svona miðsvæðis.

Ljóst er m.v. skipulag Hnoðraholtsins að ekki verður í boði jafn víðfem bílastæði og t.d. eru á lóð Toyota í Kauptúni. Spurður hvort hann telji það ekkert geta haft áhrif fyrir bílaumboð eins og Heklu á neikvæðan hátt segir Almar að bílabransinn sé að breytast hratt og að í dag sé ekki endilega jafnmikil þörf á stórum bílaplönum og áður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK