Öll skip Samherja eru nú við bryggju. Fjögur þeirra á Akureyri,Björgúlfur, Björgvin, Kaldbakur og Björg, en Harðbakur er á Dalvík. Fram kemur á Akureyri.net að Björgúlfur hafi átt að leggjast að bryggju á Dalvík í morgun en varð að sigla til Akureyrar vegna hvassviðris og brælu.
Kristján Vilhelmsson, framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja, segir að veðurhorfur gerðu það að verkum að tekin var ákvörðun um að skipin skyldu „flýja veðrið“.
Þá sé mjög óalgengt að skip komi í land vegna veðurs, að sögn Kristjáns. Slæmu veðri er spáð fram á annað kvöld og var því ekki annarra kosta völ. „Við stefnum að því að flestir fari út á ný seint annað kvöld,“ segir Kristján.