Hvað var það versta sem gat gerst?

Áhafnarmeðlimir af Arctic áttu erfiða vist í fangelsi breska hersins …
Áhafnarmeðlimir af Arctic áttu erfiða vist í fangelsi breska hersins á Kirkjusandi, aðbúnaður og aðstaða var hörmuleg og sumir þeirra þurftu að þola mikið harðræði Ljósmynd/Svavar Hjaltested

Í bókinni Örlagaskipið Arctic rekur G. Jökull Gíslason sögu skonnortunnar Arctic, sem er í senn saga örlaga, njósna, misréttis og misþyrminga.

Fiskimálanefnd keypti skipið haustið 1939 til að sinna fiskflutningum til útlanda, en það fórst við sunnanvert Snæfellsnes í mars 1943. Þá hafði Arctic lent í miklum háskaförum en alvarlegustu atburðirnir í sögu skipsins voru þegar áhöfnin, íslenskir sjómenn, lenti í úlfakreppu milli hervelda í hryllingi seinni heimsstyrjaldarinnar.

Fiskimálanefnd keypti skonnortuna Arctic haustið 1939 og hugðist nota til …
Fiskimálanefnd keypti skonnortuna Arctic haustið 1939 og hugðist nota til fiskflutninga. Hér er skipið í Skotlandi 1942. Ljósmynd/Sigurhans Vignir/Ljósmyndasafn Reykjavíkur

Birtir eru tveir ósamstæðir kaflar úr bókinni.

Laugavegur 67a, 18. apríl 1942

Til: Majór Wise

Frá: Walter McRoberts, liðsforingja, hafnarstjórn

Viðfangsefni: Eggert Proppé, háseti, skonnortan Arctic

Ég yfirheyrði þennan mann í eftirmiðdaginn. Niðurstöður voru sem hér segir:

Hann er 27 ára gamall og býr í föðurhúsum að Miðstræti 7. Hann hefur fengið bestu fáanlega menntun á Íslandi og þegar hann útskrifaðist fékk hann stöðu við fyrirtæki föður síns – Sölusamband íslenskra fiskframleiðenda. Hann var sendur til Spánar til að læra spænsku. Hann vann í rúmt ár hjá þorskinnflutningsfyrirtæki með skrifstofur í Malaga, Bilbao og Vigo. Hann talar reiprennandi spænsku og portúgölsku.

Proppé viðurkenndi að faðir hans hefði hent honum út úr fyrirtækinu vegna tíðra drykkjutúra. Það hafði gerst skömmu fyrir hernám okkar á Íslandi. Hann hefði verið atvinnulaus um tíma en fékk svo pláss á togaranum Gylfa frá Patreksfirði. Hann fór í nokkrar ferðir með togaranum, þar á meðal til Fleetwood. Þegar hann lauk störfum þar vann hann sem túlkur fyrir Major Buckland á atvinnuskrifstofu hersins.

Hans næsta fasta starf – hann var í ýmsum íhlaupastörfum – var háseti á Arctic þegar það fór til Spánar. Þegar Arctic var skoðað fyrir ferðina til Spánar var leitað hjá Proppé og bréf frá föður hans til skipamiðlara í Vigo var haldlagt.

Proppé sagði að eftir komuna til Vigo – eftir að skipstjórinn hafði hitt skipamiðlarann – hefði hann komið í vistarverur áhafnarinnar og varað þá við að þýskt olíuskip væri í höfn og að áhöfnin ætti að halda sig frá þeim. Orðrétt hafði hann sagt: „Hafið ekkert samneyti við þá.“ Proppé staðfesti að það hefði verið stórt olíuskip í höfninni og hefði verið þar í tvö ár að sögn hafnarverkamannanna. Hann sagði að áhöfn Arctic hefði séð einhverja af skipverjunum á hverjum degi þegar þeir fóru um höfnina. En hann vissi ekki til þess að neinn hefði átt samskipti við þá.

Proppé sagði að fyrir utan sig hefðu fáir úr áhöfninni átt samskipti við Spánverja, aðra en konur. Hann ætti nokkra vini í Vigo en hitti þá sjaldan. Hann hefði varið mestu af sínum tíma með öðrum úr áhöfninni, stundum skipstjóranum. Hinn síðarnefndi hefði verið mest með vélstjóranum og borðað á hóteli og séð kabarettsýningar. Proppé taldi að skipstjórinn væri staðfastur and-nasisti.

Í megindráttum ber framburði Proppé og Jónsson, annars matsveins, saman. Hann sagði aðalástæðu þess að hann fór í þessa ferð hafa verið að hann hefði gaman af því að vera í útlöndum, sérstaklega á Spáni.

---

Athugasemd.

Proppé er sérstaklega vafasöm týpa. Faðir hans hefur meira eða minna afneitað honum og hefur sagt að ef sonur sinn vilji fara sína leið þá skuli hann fá að gera það. „Ég ræð hann aldrei aftur,“ á faðir hans að hafa sagt. Ég hef heimildir fyrir því að Proppé búi með hjúkrunarkonu á Eiríksgötu. Proppé er þessa stundina atvinnulaus.

(undirritað) W.D. McRoberts, liðsforingi.

G. Jökull Gíslason rekur sögu Arctic í bók sinni.
G. Jökull Gíslason rekur sögu Arctic í bók sinni.

Vestmannaeyjar, 20. apríl 1942

Það hafði verið frekar rólegt síðan fyrstu yfirheyrslunum lauk. Þeir voru enn fangar um borð í Arctic og hervörður gætti þeirra en eftir að farið var burtu með Sigurjón og Jens hafði færst ró yfir Arctic. Nú kom breskur foringi til Guðna Thorlacius og sagði honum að flytja ætti skipið og áhöfnina til Reykjavíkur. Þeir myndu fara í tog við breskt herskip. Guðni hafði ekkert um það að segja en vonaðist til að þetta mál myndi leysast sem fyrst. Þeir voru ekki sekir um neitt þó að Bretarnir virtust greinilega vera á þeirri skoðun að þeir hefðu uppljóstrað einhverjum leyndarmálum þegar þeir voru í Vigo. Núna mátti áhöfnin ganga um skipið og Guðni stappaði í mennina stálinu. Þeir færu til Reykjavíkur og Bretarnir myndu halda áfram einhverjum rannsóknum þar og síðan hlyti þetta mál að leysast og þeir gætu aftur farið að sigla eins og áður.

Ferðin gekk ekki sem skyldi. Taugin í herskipið slitnaði og sigldu því skipin saman til Reykjavíkur. Ferðin tók um sólarhring. Það var komin nótt þegar Arctic var látið leggjast við Ægisgarð og þeirra beið yfirbyggður hertrukkur sem ók með þá í braggþyrpinguna við Kirkjusand. Þar var þeim smalað í litla klefa, hvern um sig innan við fjóra fermetra. Örlítil gluggabora með rimlum var uppi undir lofti og rimlagat á hurðinni niðri við gólf. Nístingskuldi var í klefunum en lítil kamína var í bragganum miðjum. Dugði hún lítið til upphitunar í gegn um stálhurðir og síðan óeinangraða veggi. Í hverjum klefa var ómerkilegur járnbeddi, sem var járnrammi með neti strengdu yfir. Ofan á netinu var örþunn hálmdýna og tvö þunn teppi. Olíubrúsi var í horni hvers klefa og gegndi hann hlutverki salernis. Engan fengu þeir að hitta nema þegar rotturnar kíktu í heimsókn. Mest heyrði hann tístið í þeim en stundum hlupu þær um gólfið. Það varð að passa sig sérstaklega þegar komið var með matinn, eitthvert dósakjöt á blikkdiski og vatn í blikkkönnu. Þá reyndu rotturnar að vera á undan og gerðu þetta viðurværi enn ógirnilegra.

Arctic var í eigu Fiskimálanefndar frá hausti 1939 þar til …
Arctic var í eigu Fiskimálanefndar frá hausti 1939 þar til hún fórst við sunnanvert Snæfellsnes í mars 1943.

Óvistlegri stað hafði Guðni aldrei komið á. Hann vafði báðum teppunum um sig og lagðist á beddaskriflið. Járnnetið gaf mikið eftir og rassinn seig niður þegar hann settist á beddann. Það var ekki fyrr en hann lagðist alveg og þunginn dreifðist að hann gat komið sér þolanlega fyrir. Hann heyrði í Einari Sveini, matsveininum unga, kalla á hina. Einar hafði lagst á gólfið við dyr sínar og var að kalla út um rimlagatið á gólfinu. Aðrir kölluðu á móti. Mennirnir voru að velta því fyrir sér hvað tæki við næst. Guðni kallaði til þeirra að halda ró sinni. Þeir hefðu ekkert gert og þetta myndi brátt leysast. Nú var bara að herða sig aðeins upp, svara spurningum þessara manna og ekki láta bugast. Þetta myndi allt leysast.

Ró færðist yfir flesta. Guðni var þeirra reyndastur og ef hann sagði að allt myndi leysast þá hlaut svo að vera. Óvissan var nagandi en hvað var það versta sem gat gerst? Bretar voru vestræn þjóð og höfðu sín lög og sínar reglur.

Guðni var viss um að þeir myndu sleppa Einari fljótlega. Hann var ekki nema sextán ára og var nýkominn á Arctic. Hann hafði verið með í ferðinni til Vigo. Bretarnir hlutu að sjá það strax að hann átti ekkert erindi hér. Guðni vonaði líka að þeir myndu sleppa Ólafi Gunnari fljótlega. Pilturinn sá var aðeins fimmtán ára og þetta var enginn staður fyrir svo ungan dreng, ef þetta var þá staður fyrir nokkurn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 4.12.24 551,49 kr/kg
Þorskur, slægður 4.12.24 562,27 kr/kg
Ýsa, óslægð 4.12.24 369,86 kr/kg
Ýsa, slægð 4.12.24 334,68 kr/kg
Ufsi, óslægður 4.12.24 235,01 kr/kg
Ufsi, slægður 4.12.24 279,28 kr/kg
Djúpkarfi 8.11.24 179,00 kr/kg
Gullkarfi 4.12.24 213,88 kr/kg
Litli karfi 22.10.24 15,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 2.12.24 20,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

5.12.24 Hafrafell SU 65 Lína
Þorskur 1.781 kg
Keila 382 kg
Ýsa 327 kg
Karfi 48 kg
Hlýri 16 kg
Ufsi 5 kg
Steinbítur 4 kg
Langa 4 kg
Grálúða 3 kg
Samtals 2.570 kg
4.12.24 Vigur SF 80 Lína
Ýsa 605 kg
Þorskur 512 kg
Ufsi 49 kg
Langa 18 kg
Steinbítur 11 kg
Samtals 1.195 kg
4.12.24 Sandfell SU 75 Lína
Þorskur 2.048 kg
Ýsa 583 kg
Keila 493 kg
Steinbítur 11 kg
Ufsi 5 kg
Karfi 4 kg
Samtals 3.144 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 4.12.24 551,49 kr/kg
Þorskur, slægður 4.12.24 562,27 kr/kg
Ýsa, óslægð 4.12.24 369,86 kr/kg
Ýsa, slægð 4.12.24 334,68 kr/kg
Ufsi, óslægður 4.12.24 235,01 kr/kg
Ufsi, slægður 4.12.24 279,28 kr/kg
Djúpkarfi 8.11.24 179,00 kr/kg
Gullkarfi 4.12.24 213,88 kr/kg
Litli karfi 22.10.24 15,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 2.12.24 20,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

5.12.24 Hafrafell SU 65 Lína
Þorskur 1.781 kg
Keila 382 kg
Ýsa 327 kg
Karfi 48 kg
Hlýri 16 kg
Ufsi 5 kg
Steinbítur 4 kg
Langa 4 kg
Grálúða 3 kg
Samtals 2.570 kg
4.12.24 Vigur SF 80 Lína
Ýsa 605 kg
Þorskur 512 kg
Ufsi 49 kg
Langa 18 kg
Steinbítur 11 kg
Samtals 1.195 kg
4.12.24 Sandfell SU 75 Lína
Þorskur 2.048 kg
Ýsa 583 kg
Keila 493 kg
Steinbítur 11 kg
Ufsi 5 kg
Karfi 4 kg
Samtals 3.144 kg

Skoða allar landanir »