Hvað er líkamsvirðing?

Líkamsvirðing | 4. júlí 2018

Hvað er líkamsvirðing?

Líkamsvirðing er frekar nýlegt hugtak og hefur verið í umræðunni síðustu mánuði og ár. En hvað er líkamsvirðing og af hverju er mikilvægt að virða líkamann sinn?

Hvað er líkamsvirðing?

Líkamsvirðing | 4. júlí 2018

mbl.is/ThinkStockPhotos

Líkamsvirðing er frekar nýlegt hugtak og hefur verið í umræðunni síðustu mánuði og ár. En hvað er líkamsvirðing og af hverju er mikilvægt að virða líkamann sinn?

Líkamsvirðing er frekar nýlegt hugtak og hefur verið í umræðunni síðustu mánuði og ár. En hvað er líkamsvirðing og af hverju er mikilvægt að virða líkamann sinn?

Líkamsvirðing er að taka líkamanum sínum eins og hann er sama í hvaða formi hann er, af hvaða stærð eða hversu gamall hann kann að vera. Það þýðir líka að taka þeim breytingum sem verða á honum í gegnum lífið. Líkamsvirðing snýst um að átta sig á því að sama hversu feit eða grönn kona er, þá er hún jafnmikils virði.

Líkamsvirðing felst einnig í því að koma auga á skilaboðin sem við fáum alla daga. Hvort sem það er frá fjölskyldu og vinum eða fjölmiðlum og samfélaginu í heild sinni. Þegar við höfum komið auga á skilaboðin getum við farið að greina þau og skilja hvaða skilaboð eru góð fyrir okkur og hvaða skilaboð eru slæm fyrir okkur. Það er mikilvægt að beita gagnrýnni hugsun á skilaboðin sem við fáum frá samfélaginu. Enginn einn líkami er eins og þú getur ekki neytt þinn líkama til að vera öðruvísi en hann er.

Líkamsvirðing snýst líka um að hlusta á líkamann sinn og ákveða út frá því hvað maður eigi að gera. Það þýðir samt ekki að hlusta ekki á lækna eða sérfræðinga heldur að fylgja ekki öllum ráðleggingum sem þú færð í blindni. Ekki fylgja í blindni „sérfræðingi“ á samfélagsmiðlum af því viðkomandi lítur vel út. Líkamsvirðing snýst heldur ekki um að hampa óheilbrigðum lífstíl eða hvetja aðra til að lifa óheilbrigðum lífstíl.

Rannsóknir hafa sýnt að þeir sem elska ekki sjálfa sig og líkamann sinn eru líklegri til að vanrækja hann, borða óhollan mat og stunda litla hreyfingu. Þvert á móti er það fólkið sem elskar sig og líkamann sinn, og tekur honum eins og hann er sem er hvað duglegast að hugsa um sjálft sig. Líkamsvirðing stuðlar að betri andlegri og líkamlegri heilsu og lætur þér líða vel.

Fyrsta ofurfyrirsætan í yfirstærð, Emme, sagði í viðtali við Shape að þegar fólk sem virðir líkamann sinn hreyfir sig er það ekki af því að því líður illa með sjálft sig. „Þér líður í raun og veru vel í líkamanum þínum. Þú samþykkir sjálfan þig. Þegar þú ert spennt/ur fyrir hreyfingu þá streymir endorfín og serótónín um líkamann og þér líður vel. Þá finn ég fyrir valdeflingu, sérstaklega sem íþróttakona,“ sagði Emme. 

Það er þó ekki þar með sagt að maður eigi að elska líkamann sinn allan sólarhringinn, enda væri það ógjörningur. Það snýst frekar um að elska hann eins mikið og maður getur og að breyta hugarfarinu gagnvart honum. Þeir sem stunda líkamsvirðingu eru ekki hoppandi um hamingjusamir allan sólarhringinn. Það snýst líka um að fyrirgefa sjálfum sér fyrir þær stundir sem maður elskar sjálfan sig ekki.

Samfélagsmiðlar, auglýsingar og fjölmiðlar senda okkur skilaboð á hverjum degi um hvernig við eigum að líta út, hvernig við eigum að grennast og hvað er samfélagslega samþykkt. Það er stöðluð mynd af því hvað samfélagið samþykkir hverju sinni. Þá er oft tekið mið af helstu stjörnunum og hvernig þær æfa og borða.

Við stjórnum því að mestu leyti hvað við sjáum á samfélagsmiðlum, fyrir utan stöku algóriþma. Ef við viljum umkringja okkur í jákvæðum skilaboðum er mikilvægt að velja úr hvað hefur góð áhrif á sjálfsmynd okkar og hvað hefur slæm. Í þessari færslu má finna nokkra samfélagsmiðlaaðganga sem eru tileinkaðir líkamsvirðingu en myllumerkið #bodypositivity er oft notað með færslum sem vekja athygli á líkamsvirðingu. 

 

Í sumar mun Smartland velta hugtakinu líkamsvirðing fyrir sér og birta viðtöl við einstaklinga sem hafa einnig verið að velta þessu hugtaki fyrir sér. 

mbl.is