Hamingja hefur ekkert með kílóafjölda að gera

Líkamsvirðing | 31. maí 2020

Hamingja hefur ekkert með kílóafjölda að gera

Karen Erludóttir er sjálfstætt starfandi leikkona sem er fyrst núna, rétt að verða 27 ára, að átta sig á hversu brenglaða hugmynd hún hafði um eigin líkama, heilsu og hamingju. Hún stóð lengi í þeirri trú að færri kíló myndu færa henni aukna hamingju. Hún glímdi við átröskun og var meðal annars sagt að grenna sig af lækni. 

Hamingja hefur ekkert með kílóafjölda að gera

Líkamsvirðing | 31. maí 2020

Karen Erludóttir er ánægð með líkama sinn í dag.
Karen Erludóttir er ánægð með líkama sinn í dag. Ljósmynd/Aðsend

Karen Erludóttir er sjálfstætt starfandi leikkona sem er fyrst núna, rétt að verða 27 ára, að átta sig á hversu brenglaða hugmynd hún hafði um eigin líkama, heilsu og hamingju. Hún stóð lengi í þeirri trú að færri kíló myndu færa henni aukna hamingju. Hún glímdi við átröskun og var meðal annars sagt að grenna sig af lækni. 

Karen Erludóttir er sjálfstætt starfandi leikkona sem er fyrst núna, rétt að verða 27 ára, að átta sig á hversu brenglaða hugmynd hún hafði um eigin líkama, heilsu og hamingju. Hún stóð lengi í þeirri trú að færri kíló myndu færa henni aukna hamingju. Hún glímdi við átröskun og var meðal annars sagt að grenna sig af lækni. 

Karen er í dag þakklát fyrir líkama sinn og ber virðingu fyrir honum. Það hefur verið langt og erfitt ferli fyrir Karen að komast á þann stað sem hún er á í dag. 

„Ég tók mörg lítil skref og er ég enn langt frá endastöð, það er að segja ef hún næst yfir höfuð einhvern tímann. Ég er nefnilega bara mennsk og á því mína góðu og slæmu daga eins og við öll. Í dag get ég sagt að ég hef loksins náð að klippa á strenginn sem var á milli kílóafjölda og hamingju. Ég nefnilega trúði því að því léttari sem ég væri, því hamingjusamari,“ segir Karen.

Hún stóð í þeirri trú að allt yrði miklu auðveldara og hún yrði ánægðari ef hún væri léttari en hún var. Hún trúði þeim misskilningi að grannur líkami væri lykillinn að hamingjunni. Í dag hefur hún áttað sig á að það er mikið frelsi fólgið í því að elska líkama sinn eins og hann er. Karen segir að það hafi verið samspil margra ólíka þátta sem hjálpuðu henni á beinu brautina. Hún segir mikilvægt að vera með gott fólk í kringum sig, bæði í raunheimum sem og á samfélagsmiðlum. Það þarf lítið til svo að fólk fyllist af óöryggi, ekki nema mynd breytt mynd á samfélagsmiðlum eða lítil athugasemd frá ástvini.

Það tók Karen mörg ár að breyta hugsunarhætti sínum.
Það tók Karen mörg ár að breyta hugsunarhætti sínum. Ljósmynd/Aðsend

Lét kílóin stoppa sig

Karen segir að hún hafi verið uppfull af ranghugmyndum um sjálfa sig og annað fólk og hún lét kílóin oft stoppa sig. 

„Mér fannst ég ekki geta gert öðrum sundlaugargestum það að skreppa í sund til dæmis, aumingja fólkið að þurfa að horfa á magann á mér og lærin. Það skipti engu máli hvort þessir sundlaugargestir voru ókunnugt fólk eða nánustu vinir, þau voru öll að fara að dæma mig og líta mig öðrum augum eftir að hafa séð mig í sundfötum. Ég myndi lækka töluvert í áliti, fólk myndi tala um mig án þess að ég heyrði til og ég gæti gleymt því að einhverjum þætti ég álitleg aftur. Ég var því miður búin að ákveða þetta ansi ung og er því í dag til dæmis ekki með grunnskólapróf í sundi því ég skrópaði bara.

Þegar framhaldsskóla lauk ætlaði ég svo í smá heimsreisu með vinkonu og byrjuðum við að plana og skipuleggja en ég varð svo viljandi skyndilega of upptekin til að hittast og ganga frá plönunum. Það var bara vegna þess að ég var ekki orðin ánægð með töluna á vigtinni og ég ætlaði sko ekki að fara að spranga um léttklædd í útlöndum verandi svona feit. Svo það varð aldrei neitt úr þessari ferð.“

Karen lærði leiklist í New York Film Academy í Los …
Karen lærði leiklist í New York Film Academy í Los Angeles. Ljósmynd/Aðsend

Tvö ár eru síðan að Karen var að klára leiklistarnám sitt í Los Angeles. Hún hélt að hún væri búin að ná tökum á hugsunum sínum á þeim tíma en annað kom í ljós þegar umboðsmaður vildi taka hana að sér sem fyrirsætu í yfirstærð. Hún hitti aldrei umboðsmanninn þar sem hún vildi ná af sér nokkrum kílóum fyrst. 

Karen segir að það sé sárt að hugsa um allt sem hún hefur misst af. Hún getur ekki breytt því sem liðið er en vonast til þess að saga sín hjálpi einhverjum öðrum að komast út úr þessum vítahring. 

Glímdi við átröskun

Á sínum yngri árum glímdi Karen við átröskun. Hún segir að hún hafi ekki verið nema um sjö eða átta ára aldurinn þegar hún lærði að aukakíló gerðu fólk að annars flokks manneskjum. Í dag áttar hún sig á því að þetta gæti ekki verið fjarri sannleikanum en sem barn vissi hún ekki betur. Eina sem hún vissi var hvernig fólk í kringum hana talaði um eigin líkama, líkama hennar og líkama annarra. Á unglingsárum varð þessi rödd háværari innra með henni og hún var ekki gömul þegar hún byrjaði að prófa ýmsa kúra sem gerðu bara illt verra. 

Karen árið 2010.
Karen árið 2010. Ljósmynd/Aðsend

„Það sá enginn þegar ég tróð puttanum ofan í kokið á mér eftir að hafa fengið mér pizzu, það sá enginn hvað ég var svöng, það sá enginn hvernig ég brotnaði niður eftir erfiða æfingu í ræktinni því líkaminn bara gat ekki meira. Það sá þetta enginn því ég faldi þetta svo vel því ég hélt, í alvöru, að svona væri þetta bara. Ég hélt að grannt fólk lifði svona og ég var bara aumingi að ráða ekki við þetta. Ég vissi þó að það að framkalla uppköst væri rangt, en mér fannst ég ekki hafa annað val þegar ég missti tökin og borðaði eitthvað sem flokkaðist sem óhollt,“ segir Karen um átröskunina. 

Staðráðin í að verða ekki annars flokks manneskja að eilífu barðist Karen áfram í ræktinni. Hún var farin að nota fatastærð small og extra small en horfði samt á sig sem feita.

„Ekki hjálpaði það þegar ég fór til læknis á þessum tímapunkti og var of há á BMI-stuðlinum og var ráðlagt að missa um 15 kg. Það gjörsamlega gekk frá mér og ég fór að eyða mörgum klukkutímum á dag í ræktinni og borðaði helst bara sellerí í öll mál, allt fyrir utan sellerí var „svindl“ og ég var að „leyfa mér“. En sagði öllum bara að mér þætti sellerí bara svona sjúklega gott og ræktin svo geggjað skemmtileg,“ segir Karen og segir að fólkið í kringum hana hafa ekki vitað hvað bjó að baki. 

Á árunum sem Karen lýsir hér að ofan var hún rosalega veik, mun veikari en hún er í dag þó kílóin séu fleiri í dag. Karen glímir við sjálfsofnæmi og fór að bæta á sig vegna veikindanna. Í fyrstu upplifði hún sjálfsofnæmið eins og heimsendi en í dag var það í rauninni það besta sem gat komið fyrir hana. Hún varð að sætta sig við veikindin og því sem fylgdi þeim. 

Karen var mikið í ræktinni.
Karen var mikið í ræktinni. Ljósmynd/Aðsend

Ekki er allt sem sýnist á samfélagsmiðlum

Karen telur að oft hafi samfélagsmiðlar hræðileg áhrif á samfélagið. Hún telur meðal annars að hún hefði sokkið dýpra sem unglingur ef hún hefði haft aðgang að þeim samfélagsmiðlum sem unglingar í dag hafa. Sjálf er Karen dugleg að tala opinskátt um sína reynslu á samfélagsmiðlum og bendir að það það sé margt jákvætt í gangi líka og það skipti máli að velja með hverjum maður fylgist. 

Hún segir smáforrit sem gera fólk grennra á myndum og myndböndum varhugaverð og segir notkun þeirra mun algengari en fólk heldur. Karen átti það til að nota svona smáforrit. „Ég hikaði ekki við að breyta myndunum mínum, ég meina, ekki ætlaði ég að sýna öllum hversu gölluð ég var í raun og veru. Í dag er ég miður mín yfir þessu og skammast mín gífurlega.“

Karen leggur áherslu á að fólk er ekki minna virði en annað fólk þó það sé of létt, í kjörþyngd eða of þungt. 

„Við eigum öll skilið virðingu og ást, það hefur ekkert með kílóafjölda að gera. Hugsaðu vel um líkama þinn, ekki setja hann í megrun að því þú hatar hann. Borðaðu góðan mat og hreyfðu þig því það lætur þér líða vel, ekki því samfélagið segir þér að gera það eða að því þú átt of litlar buxur upp í skáp sem þig langar svo að passa í. Síðast en ekki síst, ekki refsa líkamanum fyrir að kalla á súkkulaði og hvíld, leyfðu honum það og njóttu. Lífið hefur upp á svo ofboðslega margt að bjóða — ekki eyða því í að hata sjálfa þig,“ segir Karen að lokum. 

mbl.is