Nafnið Öfgar er ádeila

Kynferðisbrot | 15. nóvember 2021

Nafnið Öfgar er ádeila

Hópur að nafni Öfgar hefur farið mikinn á samfélagsmiðlum undanfarið og verið virkur og haft áhrif á umræðu um kynbundið áreiti og ofbeldi, ofbeldismál innan KSÍ og umfjöllun fréttaskýringaþáttarins Kveiks um „hreinsunareld Þóris Sæmundssonar“ svo dæmi séu tekin.

Nafnið Öfgar er ádeila

Kynferðisbrot | 15. nóvember 2021

Öfgar ásamt Bleika fílnum stóðu meðal annars fyrir mótmælum fyrir …
Öfgar ásamt Bleika fílnum stóðu meðal annars fyrir mótmælum fyrir utan Laugardalsvöll þegar kynferðisbrotamál innan KSÍ komust í hámæli. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hópur að nafni Öfgar hefur farið mikinn á samfélagsmiðlum undanfarið og verið virkur og haft áhrif á umræðu um kynbundið áreiti og ofbeldi, ofbeldismál innan KSÍ og umfjöllun fréttaskýringaþáttarins Kveiks um „hreinsunareld Þóris Sæmundssonar“ svo dæmi séu tekin.

Hópur að nafni Öfgar hefur farið mikinn á samfélagsmiðlum undanfarið og verið virkur og haft áhrif á umræðu um kynbundið áreiti og ofbeldi, ofbeldismál innan KSÍ og umfjöllun fréttaskýringaþáttarins Kveiks um „hreinsunareld Þóris Sæmundssonar“ svo dæmi séu tekin.

En hvað er þessi hópur? Hverjir tilheyra og honum og hvað vilja þeir upp á dekk?

Tanja M. Ísfjörð Magnúsdóttir, sem er í stjórn hópsins, útskýrir að Öfgar séu fjölbreyttur hópur affeminískum aðgerðasinnum sem stofnaður var í sumar. Tilgangur og eðli hópsins hefur tekið stakkaskiptum síðan þá.

Tanja M. Ísfjörð Magnúsdóttir.
Tanja M. Ísfjörð Magnúsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta byrjaði þannig að það var ákveðin þörf á feminískum aktívisma á samfélagsmiðlum. Það var mikil þörf á að vega á móti ljótum athugasemdum þarna á TikTok. Þar voru aðallega ungir strákar með rasisma, transfóbíu, fitufordóma og kvenfyrirlitningu. Þá spratt upp hugmynd að feminískum TikTok-hópi,“ segir Tanja.

Ætluðu að vera fyndnar

„Þannig að það má segja að í fyrstu ætluðum við okkur að vera fyndnar á TikTok með smá ádeilu og fræðslu. Þetta átti ekkert að vera grafalvarlegt,“ segir Tanja. Hún segir að þau sem að hópnum standi hafi aldrei búist við því að hann yrði það sem hann er í dag.

„Við höfum áorkað miklu eftir að stefnan breyttist hjá okkur á einni nóttu,“ segir Tanja og bætir við: „Núna erum við aðgerðahópur, við erum aktívistar og opinberar persónur. Sum okkar voru kannski aðeins þekkt fyrir aktívisma áður en TikTok-hópurinn var stofnaður en aðrar voru að stíga sín fyrstu stóru skref þannig þetta var mikil breyting á stuttum tíma.“

Hún segir hópinn beina sjónum sínum að aðstæðunum sem kynbundið ofbeldi fær að þrífast í og gefa þolendum kynbundins ofbeldis stuðning.

Hópurinn stendur saman af innri og ytri kjarna. Innri kjarninn er stjórn hópsins en ytri kjarninn eru aðrir félagar.

Stjórn skipa: Helga Ben, Hulda Hrund Sigmundsdóttir, Ninna Karla Katrínardóttir, Ólöf Tara Harðardóttir og Tanja M. Ísfjörð Magnúsdóttir.

Aðrir í hópnum eru Hjalti Kristjánsson, Klara Rakel, Sindri Þór Hilmars-Sigríðarson og ein manneskja sem vill halda nafnvernd.

Nafngreina ekki gerendur

„Við höfum verið umdeild fyrir það að við höfum zero tolerance fyrir gerendameðvirkni. Einnig fyrir að gefa þolendum rödd undir nafnvernd,“ segir Tanja og bætir við að það sé algengur misskilningur að hópurinn ákveði að slaufa eigi ákveðnum gerendum. „Við fáum oft spurningar á borð við „hver er næstur?“ en við höfum aldrei verið að nafngreina gerendur.“

Hún segir það ekki innan stefnu hópsins að veita einhvers konar þjónustu við að vekja athygli á einstaka gerendum heldur á rótgrónum vanda sem kynbundið ofbeldi er.

„Hversu mikil þörf er á því að laga réttarkerfið og gera það þolendavænna ásamt því að berjast gegn gerendameðvirkni og nauðgunarmenningu. Við hlustum, trúum og styðjum þolendur, alltaf.“

Nafnið passi við áformin

„Þegar kom að því að finna nafn á hópinn vildum við að það myndi passa við áformin. Við tölum oft um að vera róttækir femínistar. Við notum róttækar aðferðir til að breyta ýmiss konar rótgrónum vanda í samfélaginu. Eins og fólk hefur eflaust tekið eftir þá erum við ekki hér til að vera þægileg. Við viljum sjá breytingar og erum ekki hrædd við að rugga bátnum. Nafnið Öfgar er því ádeila. Það er oft sagt að róttækir femínistar séu öfgafemínistar og við ákváðum því bara að taka það og eigna okkur. Við kennum okkur ekki við öfga eða beitum öfgum. Við beitum vissulega oft og tíðum róttækum aðferðum en það er að virka, við sjáum það,“ segir Tanja um tildrög nafnsins Öfgar.

„Þetta er svipuð ádeila og hjá druslugöngunni. Konur hafa verið kallaðar druslur í niðrandi merkingu og þær tóku nafnið og eignuðu sér það. Við vitum að í jafnrétti eru ekki til neinar öfgar, enda er ekki hægt að hafa of mikið jafnrétti, þá er það ekki jafnrétti. Þannig öfgafemínisti er ekki til.“

Rökþrot að kalla þær frekjur

Spurð hvaða áhrif gagnrýnisraddir hafi á aðstandendur hópsins segir Tanja þær ekki hafa mikil áhrif.

„Fyrst var reynt að gera lítið úr feministum með því að kalla þá öfgafeminista. Núna gerðum við nafnið að okkar og þá er bara reynt að finna eitthvað annað og verra.

Þessar neikvæðu gagnrýnisraddir síðustu daga er eins og skvetta vatn á gæs. Ef eitthvað er þá synir þetta okkur hversu mikil þörf er á baráttu okkar. Það er á lágu plani að kalla okkur frekjur. Ákveðið rökþrot. Við erum að berjast fyrir betra samfélagi. En ef þið viljið kalla okkur frekjur fyrir að berjast gegn kynbundnu ofbeldi og bættara réttarkerfi þá skulum við bara vera mestu frekjur sem þið hafið nokkrum sinnum séð.“

mbl.is