Dæmdur fyrir að tæla 14 ára barn

Kynferðisbrot | 20. desember 2023

Dæmdur fyrir að tæla 14 ára barn

Héraðsdómur hefur dæmt karlmann um fertugt fyrir nettælingu og peningafölsun. Var maðurinn dæmdur í 8 mánaða skilorðsbundið fangelsi og til greiðslu miskabóta.

Dæmdur fyrir að tæla 14 ára barn

Kynferðisbrot | 20. desember 2023

Fyrir liggja myndir af skjáskotum af samskiptum stúlkunnar og mannsins …
Fyrir liggja myndir af skjáskotum af samskiptum stúlkunnar og mannsins á Snapchat sem eru úr síma stúlkunnar. Ljósmynd/Colourbox

Héraðsdómur hefur dæmt karlmann um fertugt fyrir nettælingu og peningafölsun. Var maðurinn dæmdur í 8 mánaða skilorðsbundið fangelsi og til greiðslu miskabóta.

Héraðsdómur hefur dæmt karlmann um fertugt fyrir nettælingu og peningafölsun. Var maðurinn dæmdur í 8 mánaða skilorðsbundið fangelsi og til greiðslu miskabóta.

Héraðssaksóknari ákærði manninn í mars fyrir tilraun til nauðgunar og kynferðisbrots gegn barni, en til vara fyrir nettælingu, með því að hafa tvívegis í september 2021 sett sig í samband við 14 ára stúlku í gegnum samskiptaforritið Snapchat og mælt sér mót við hana í Reykjanesbæ. Í ákæru segir að það hafi verið gert í því augnamiði að hafa við hana samræði eða önnur kynferðismök og í því skyni tekið sér far frá Reykjavík til Reykjanesbæjar og leigt hótelherbergi.

Þá var hann ákærður fyrir peningafals með því að hafa aflað sér þriggja falsaðra 5.000 króna peningaseðla í því skyni að koma þeim í umferð sem ósviknum gjaldeyri, en seðlarnir fundust við leit lögreglu í bakpoka mannsins er hann var handtekinn að kvöldi þriðjudagsins 28. september 2021. 

Fram kemur í dómi héraðsdóms, sem féll 14. desember en var birtur í dag, að maðurinn hafi farið fram á sýknu. 

Framburður stúlkunnar trúverðugur

Héraðsdómur segir að það hafi verið gott samræmi í framburði stúlkunnar í gegnum meðferð málsins hvað þau atriði varðar sem máli skipta við úrlausnina. Framburður hennar hafi verið skýr um að hún hafi sagt við manninn að hún væri 14 ára og í 9. bekk í grunnskóla þegar atvik gerðust. Hann hafi viljað hitta hana og fá hana til að fara með sér á hótelherbergi til kynferðislegra athafna.

„Metur dómurinn framburð hennar trúverðugan og verður niðurstaða málsins á honum byggð að því leyti sem hann er í samræmi við annað sem fram er komið.“

Fyrir liggja myndir af skjáskotum af samskiptum stúlkunnar og mannsins á Snapchat sem eru úr síma stúlkunnar. Hún kvaðst hafa vistað samskiptin með því að taka af þeim skjáskot og er það í samræmi við útlit þessara gagna, að því er segir í dómnum. 

Kvaðst aðallega hafa verið forvitinn

Maðurinn hélt því fram að stúlkan hefði bætt honum við sem vini á Snapchat nokkrum dögum eða viku áður en hann var handtekinn og hefði hún viljað hitta hann. Hefðu þau mælt sér mót þegar hann hefði verið í Reykjanesbæ en hún ekki mætt á fyrir fram ákveðinn stað. Hann hefði þá spurt stráka sem þar voru út í þetta og hann talið að þeir hefðu verið að reyna að veiða hann og hann því eytt stúlkunni út af Snapchat. Hún hefði svo bætt honum aftur við daginn eftir og hann hefði síðan farið til að hitta hana. Hefðu þá beðið eftir honum um tíu strákar og hann þá orðið hræddur og flúið. Myndi hann lítið eftir því sem farið hefði á milli þeirra á Snapchat.

Spurður hvað þau hefðu ætlað að gera þegar þau hittust sagði hann að hann hefði aðallega verið forvitinn og til að byrja með hefði hann viljað vita hvað manneskja þetta væri. Kvaðst hann ekki hafa vitað hvað stúlkan væri gömul og ekki kannast við skilaboð þar sem fram kom að hún væri 14 ára eða í 9. bekk. Neitaði ákærði að tjá sig um það hvort hann hefði ætlað að hafa kynmök við stúlkuna. Viku fyrr hefði hann verið á hóteli í Reykjanesbæ og þá hefði erindi hans þangað verið annað og hann greitt 18.000 krónur fyrir herbergið og þá boðið henni á herbergið til sín. Hann hefði ekki verið með bókað hótelherbergi daginn þegar hann var handtekinn.

Sagðist hafa leigt hótelherbergi ef hann hefði misst af rútu til Reykjavíkur

Fyrir dómi var framburður mannsins um sumt svipaður og hjá lögreglu en hann mundi enn minna eftir samskiptum sínum og stúlkuna. Hann viðurkenndi að hafa verið í samskiptum á Snapchat við einstakling og tvisvar farið til Reykjanesbæjar til að hitta viðkomandi. Hefði hann talið að um væri að ræða stúlku sem væru um tvítug að aldri. Hann svaraði því ekki beint fyrir dómi hver væri ástæða þess að hann vildi hitta viðkomandi en sagði að hann hefði ekki verið með konu á þessum tíma. Það var fyrst fyrir dómi sem hann nefndi að hann hefði farið þrjár ferðir til Reykjanesbæjar sem tengdust þessum atvikum.

Sagði hann þá að ástæða þess að hann hefði leigt hótelherbergi væri að hann hefði ætlað að gista þar ef hann missti af rútunni til Reykjavíkur. Kom fram hjá honum að tilgangur þeirrar ferðar hefði verið að hitta vin sinn.

Framburður mannsins ótrúverðugur

„Er það mat dómsins að þessi framburður ákærða sé ótrúverðugur. Þá hefur ákærði litlar skýringar getað gefið á þeim framburði sínum að hafa talið að um tvítuga stúlku væri að ræða. Ákærði kvaðst almennt fá upplýsingar um aldur í upphafi samskipta á Snapchat. Fyrstu samskipti ákærða og brotaþola liggja ekki fyrir en brotaþoli hefur borið um að hafa nefnt að hún væri 14 ára, en það kemur ekki fram á skjáskotunum, og á sama hátt bar vitnið G og vitnið H rámaði einnig í þetta. Þá er ekkert fram komið sem bendir til þess að brotaþoli hafi sagt rangt til um aldur,“ segir í niðurstöðu dómsins. 

Einnig kemur fram, að það orðfæri sem maðurinn notaði í samskiptunum hafi bent skýrt til þess að hann hafi verið að tala við barn en ekki tvítuga stúlku og talar hann m.a. um hana sem sæta, krúttlega, feimna og saklausa. Bera gögnin einnig með sér að stúlkan hafi sent manninum andlitsmynd af sér en sú mynd liggur ekki fyrir.

Héraðsdómur telur sannað að maðurinn hafi látið sér a.m.k. í léttu rúmi liggja hvort sá einstaklingur sem hann hafði mælt sér mót við væri orðinn 15 ára. 

Sýknaður af ákæru um nauðgun en sakfelldur fyrri nettælingu

Héraðsdómur kemst þó að þeirri niðurstöðu að sýkna beri manninn af ákæru um nauðgun en dómurinn telur sannað, þannig að hafið sé yfir skynsamlegan vafa, að maðurinn hafi gerst sekur um nettælingu.

Einnig var hann fundinn sekur um að hafa ætlað sér að koma fölsuðum seðlum í umferð. 

Samkvæmt sakarvottorði gekkst maðurinn í mars 2021 og í apríl 2023 undir greiðslu sektar og sviptingu ökuréttar með viðurlagaákvörðun héraðsdóms vegna umferðarlagabrota og í síðara tilvikinu einnig vegna vopnalagabrots. Brot það sem maðurinn hefur nú verið sakfelldur fyrir framdi hann áður en hann gekkst undir viðurlagaákvörðunina í apríl sl. og verður honum því nú gerður hegningarauki.

Á sér engar málsbætur

Héraðsdómur segir að maðurinn eigi sér engar málsbætur.

„Við ákvörðun refsingar er litið til 1., 3., 6. og 7. töluliðar 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, en kynferðisbrot ákærða var gróft og hömlulaust og ásetningur hans sterkur. Fór ákærði tvisvar til Reykjanesbæjar til að hitta á brotaþola auk þess að eiga ítrekað í samskiptum við hana á Snapchat í því skyni að ná vilja sínum fram. Þá skeytti hann engu um afleiðingar af háttsemi sinni fyrir brotaþola heldur þvert á móti nýtti sér ungan aldur hennar,“ segir í dómnum. 

Hann var enn fremur dæmdur til að greiða stúlkunni 500.000 í miskabætur.

Þá var honum gert að greiða 2/3 hluta málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns sem alls eru ákveðin 1.800.000 krónur, og alla þóknun skipaðs réttargæslumanns stúlkunnar, 900.000 krónur, og 51.456 krónur í aksturskostnað lögmannsins.

mbl.is