Sýknaður af ákæru um nauðgun

Kynferðisbrot | 22. janúar 2024

Sýknaður af ákæru um nauðgun

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað karlmann af ákæru um nauðgun. 

Sýknaður af ákæru um nauðgun

Kynferðisbrot | 22. janúar 2024

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Ófeigur

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað karlmann af ákæru um nauðgun. 

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað karlmann af ákæru um nauðgun. 

Fram kemur í dómi héraðsdóms, sem féll 9. janúar en var birtur í dag, að héraðssaksóknari hafi ákært manninn 19. maí í fyrra fyrir nauðgun með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 14. júlí 2019 haft samræði og önnur kynferðismök við stúlku án hennar samþykkis á heimili hans.

Segir í ákæru að hann hafi notfært sér það að stúlkan gat ekki spornað við verknaðinum sökum áhrifa áfengis og svefndrunga og beitt hana ólögmætri nauðung með því að nýta sér yfirburði sína og traust hennar sem frændi hennar. 

Málið fór fyrst til barnaverndarnefndar sem kærði málið á endanum til lögreglu. 

Maðurinn neitaði sök. 

Orð gegn orði

Fram kemur í dómi héraðsdóms, að það sé ágreiningslaust að stúlkan hafi komið á heimili mannsins umrædda nótt ásamt systur sinni og vini hennar í framhaldi af því að hafa verið að skemmta sér í miðborginni. Vinur mannsins var einnig á staðnum. Er einnig ágreiningslaust að brotaþoli og ákærði hafi verið undir áhrifum áfengis. 

Tekið er fram að maðurinn og stúlkan séu ein til frásagar um hvað nákvæmlega gerðist í herberginu og hver væri aðdragandi þess.

„Í aðalatriðum er sönnunarstaðan orð gegn orði um fyrrgreind ágreiningsatriði,“ segir í dómi héraðsdóms. 

Framburður þeirra skýr fyrir dómi

Héraðsdómur segir einnig, að framburður stúlkunnar fyrir dómi hafi í öllum aðalatriðum verið skýr, einlægur og stöðugur um helstu málsatvik, að teknu tilliti þess langa tíma sem liðinn sé frá meintu broti. Hið sama eigi við um framburð hennar hjá lögreglu, að teknu tilliti til ungs aldurs hennar á þeim tíma.

Sömuleiðis kemur fram, að framburður mannsins fyrir dómi hafi í öllum aðalatriðum verið skýr og stöðugur um helstu málsatvik, að teknu tilliti þess langa tíma sem liðinn er frá meintu broti. Skýrslugjöf hans hjá lögreglu var hins vegar ekki jafn skýr og greinargóð. Ljóst hafi verið af skriflegu endurriti, sbr. hljóð- og myndupptöku, að hann virtist við skýrslutöku hjá lögreglu vera stressaður og á köflum hikandi og tregur til að svara einstaka spurningum og/eða mundi illa atvik og/eða þurfti endurtekið að ráðfæra sig við tilnefndan verjanda. Þrátt fyrir framangreint hafi skýrslugjöf hans hjá lögreglu um meint brot og önnur atvik í aðalatriðum verið í samræmi við framburð hans fyrir dómi.

Leitaði hvorki til lögreglu né neyðarmóttöku

Þá segir að stúlkan hafi ekki leitað til lögreglu eða neyðarmóttöku í kjölfar meints brots og því liggi ekki fyrir vætti og gögn frá lögreglu- og/eða heilbrigðisstarfsmönnum, eins og jafnan sé í málum af þessum toga, sem hefðu ella getað skýrt betur ástand, aðstæður og frásögn brotaþola og sakbornings stuttu eftir meint brot.

„Er því ekki gögnum til að dreifa frá hlutlausu og utanaðkomandi fagfólki sem hefðu getað fyllt betur upp í eyður um það hvað nákvæmlega gerðist í samskiptum ákærða og brotaþola og hvert var ástand þeirra á umræddum tíma.“

Gagnrýnir rannsókn lögreglu

Héraðsdómur bendir á, að við rannsókn málsins hafi af hálfu lögreglu ekki verið hlutast til um að skoða og afrita síma stúlkunnar með það að markmiði að leggja hald á og rannsaka með sjálfstæðum hætti gögn í síma hennar og/eða Snapchat-reikningi. Það var fyrst 17. febrúar 2022 sem Snapchat-aðgangur hennar var skoðaður og voru á þeim tíma engin gögn sem varpað gátu ljósi á málið. 

„Verður að gera þá kröfu til lögreglu og ákæruvalds að framsetning sönnunargagna af þessum toga í máli sem þessu séu færð fram með þeim hætti að vönduð og sjálfstæð úrvinnsla gagna liggi fyrir og að ekki megi efast um réttar- og gagnaöryggi og áreiðanleika gagna í sakamáli. Slík úrvinnsla hefur hins vegar ekki farið fram á téðum skilaboðasendingum,“ segir í dómi héraðsdóms.

Dómstóllinn komst að endanum að þeirri niðurstöðu, þar sem annarra gagna nyti ekki við, og gegn eindreginni neitun mannsins, að sýkna bæri manninn af ákæru um nauðgun. 

Þá var einkaréttarkröfu stúlkunnar á hendur manninum vísað frá dómi.

Allur sakarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði. 

mbl.is