Faðir sýknaður af ásökunum um brot gegn dóttur

Kynferðisbrot | 20. október 2023

Faðir sýknaður af ásökunum um brot gegn dóttur

Landsréttur staðfesti í dag sýknudóm héraðsdóms yfir föður stúlku sem hafði ásakað hann um kynferðisbrot gegn sér yfir átta ára tímabil, en á þeim tíma var stúlkan sex til fjórtán ára gömul.

Faðir sýknaður af ásökunum um brot gegn dóttur

Kynferðisbrot | 20. október 2023

Landsréttur.
Landsréttur. mbl.is/Hallur Már

Landsréttur staðfesti í dag sýknudóm héraðsdóms yfir föður stúlku sem hafði ásakað hann um kynferðisbrot gegn sér yfir átta ára tímabil, en á þeim tíma var stúlkan sex til fjórtán ára gömul.

Landsréttur staðfesti í dag sýknudóm héraðsdóms yfir föður stúlku sem hafði ásakað hann um kynferðisbrot gegn sér yfir átta ára tímabil, en á þeim tíma var stúlkan sex til fjórtán ára gömul.

Þrátt fyrir að Landsréttur teldi frásögn stúlkunnar hafa verið varfærinn og að ýmsu leyti trúverðugan, þá væri ekki litið fram hjá misræmi í lýsingum hennar á atvikum og ætluðum brotum mannsins við skýrslugjöf hjá lögreglu og fyrir dómstólum.

Maðurinn neitaði hins vegar sakargiftum staðfastlega og var framburður hans stöðugur. Segir í dómi Landsréttar að ekkert hafi komið fram sem rýrði trúverðugleika framburðar hans.

Einungis var um að ræða framburð föðurins og dótturinnar, en í dóminum segir að ekkert þeirra vitna sem eru tengd fólkinu fjölskylduböndum eða höfðu búið á heimilinu á umræddu tímabili hafi orðið vör við óeðlileg samskipti þangað til stúlkan sagði móður sinni frá ætluðum brotum haustið 2020.

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa í fjölda skipta áreitt stúlkuna og viðhaft við hana önnur kynferðismök en samræði á þáverandi heimili þeirra. Í dómi Landsréttar kemur meðal annars fram að stúlkan hafi fyrir Landsrétti bætt við fyrir framburð sinn í héraði og upplýst um tilraun til samræðis af hálfu föðurins.

Þá hafi hún einnig dregið í land með fyrri lýsingar á meintum brotum bróður hennar gegn sér. Málið teygir sig lengra aftur, en fram kemur í dóminum að árið 2014 hafi stúlkan upplýst um ætluð brot bróður síns eftir skoðun hjá lækni, en stúlkan sagði móður sína hafa komið í eitt skipti að þeim systkinum. Sagði stúlkan að hún hefði á þeim tíma ekki viljað að neinn vissi af meintum brotum föðurins og að hún hefði hún á þeim tíma haldið að hún hefði sjálf gert eitthvað rangt.

Í niðurstöðu Landsréttar er vísað til þess að hver sá sem borinn sé sökum sé talinn saklaus uns sekt hans hafi verið sönnuð. Í þessu máli njóti ekki við annarra beinna sönnunargagna en framburðar föðurins og dótturinnar og þar standi orð gegn orði.

Í því ljósi, vitnisburðar fjölskyldu og neitunar föðurins, gegn framburði stúlkunnar, sem feli í sér nokkurt misræmi, þurfi að sýkna föðurinn og staðfesta fyrri dóm.

mbl.is