Þriggja ára nauðgunardómur staðfestur

Kynferðisbrot | 15. mars 2024

Þriggja ára nauðgunardómur staðfestur

Landsréttur hefur staðfest þriggja ára fangelsisdóm yfir Demetrius Allen sem var sakfelldur í Héraðsdómi Reykjavíkur í júní í fyrra fyrir nauðgun sem átti sér stað 1. janúar 2023.

Þriggja ára nauðgunardómur staðfestur

Kynferðisbrot | 15. mars 2024

mbl.is/Kristinn Magnússon

Landsréttur hefur staðfest þriggja ára fangelsisdóm yfir Demetrius Allen sem var sakfelldur í Héraðsdómi Reykjavíkur í júní í fyrra fyrir nauðgun sem átti sér stað 1. janúar 2023.

Landsréttur hefur staðfest þriggja ára fangelsisdóm yfir Demetrius Allen sem var sakfelldur í Héraðsdómi Reykjavíkur í júní í fyrra fyrir nauðgun sem átti sér stað 1. janúar 2023.

Fram kemur í dómnum að Allen, sem er bandarískur ríkisborgari, hafi brotið gegn konu í kyrrstæðri bifreið við bensínstöð. Hann hafi án samþykkis og með ofbeldi og ólögmætri nauðung haft samræði og önnur kynferðismök við konuna.

Þá hafði Allen í kjölfarið samfarir við konuna án hennar samþykkis og notfærði sér að hún var illa áttuð og gat ekki spornað við verknaðinum sökum áhrifa kannabisefna.

Við ákvörðun refsingar var litið til þess að maðurinn braut gróflega gegn kynfrelsi konunnar og var hann dæmdur í þriggja ára fangelsi, en til frádráttar dæmdri refsingu kom gæsluvarðhald sem hann hafði sætt frá 3. mars 2023.

Fjárhæð miskabóta staðfest

Í dómi Landsréttar var rakið að Allen hefði krafist endurskoðunar á dæmdri einkaréttarkröfu konunnar, en í tilkynningu til ríkissaksóknara um áfrýjun hefði þess ekki verið getið að leitað væri endurskoðunar á kröfunni.

Gat krafa hans því ekki komið til úrlausnar fyrir Landsrétti nema að því leyti sem réttinum væri skylt að taka afstöðu til hennar. Þá hafði konan í greinargerð sinni til Landsréttar haft uppi sömu kröfu um skaðabætur og í héraði. 

Í niðurstöðu Landsréttar kom fram að sú krafa konunnar gæti aðeins komið til endurskoðunar að því leyti sem kynni að horfa til hækkunar hennar. Að því gættu var staðfest niðurstaða héraðsdóms um fjárhæð miskabóta til konunnar, sem þótti hæfilega ákveðin 2.000.000 króna.

mbl.is