Með áhyggjur af takmörkuðum árangri Íslands

Kynferðisbrot | 26. október 2023

Með áhyggjur af takmörkuðum árangri Íslands

GRETA, eftirlitsnefnd Evrópuráðsins með samningi um aðgerðir gegn mansali, hefur áhyggjur af þeim takmarkaða árangri sem Ísland hefur náð frá síðustu úttekt sinni í baráttunni gegn vinnumansali.

Með áhyggjur af takmörkuðum árangri Íslands

Kynferðisbrot | 26. október 2023

GRETA skorar á íslensk stjórnvöld að grípa til frekari aðgerða …
GRETA skorar á íslensk stjórnvöld að grípa til frekari aðgerða gegn mansali. Ljósmynd/Colourbox

GRETA, eftirlitsnefnd Evrópuráðsins með samningi um aðgerðir gegn mansali, hefur áhyggjur af þeim takmarkaða árangri sem Ísland hefur náð frá síðustu úttekt sinni í baráttunni gegn vinnumansali.

GRETA, eftirlitsnefnd Evrópuráðsins með samningi um aðgerðir gegn mansali, hefur áhyggjur af þeim takmarkaða árangri sem Ísland hefur náð frá síðustu úttekt sinni í baráttunni gegn vinnumansali.

„GRETA brýnir íslensk yfirvöld til þess að hvetja lögreglumenn, vinnueftirlitsmenn, félagasamtök og aðra viðeigandi aðila til að sýna aukið frumkvæði í að finna þolendur vinnumansals og tryggja að heimildir og úrræði vinnueftirlits standi undir því að leggja sitt af mörkum til þess að koma í veg fyrir og upplýsa mansalsmál á vinnumarkaði,” segir í tilkynningu, en þriðja úttektarskýrsla GRETA um Ísland hefur verið birt.

Skortir formlegar verklagsreglur

GRETA segir enn skorta formlegar verklagsreglur sem skilgreina hlutverk og ábyrgð allra viðkomandi faghópa. Íslensk stjórnvöld eru hvött til að setja á laggirnar formlegt tilvísunarkerfi fyrir allt landið sem skilgreinir verklag og hlutverk allra í framlínunni sem gætu komist í snertingu við þolendur mansals.

Einnig dregur skýrslan fram nokkra vankanta í baráttunni gegn mansali barna, þar á meðal mikið vinnuálag barnaverndarþjónustu og skort á viðeigandi þjálfun í mansali barna fyrir starfsfólk hennar.

„GRETA skorar á íslensk stjórnvöld að grípa til aðgerða til að bæta úr þessum annmörkum, einkum með því að koma á skýru verklagi varðandi það að greina börn sem eru hugsanlega þolendur mansals,” segir í tilkynningunni.

Samþykki lagaákvæði um refsileysi þolenda

GRETA hvetur íslensk stjórnvöld jafnframt til að samþykkja sérstakt lagaákvæði um refsileysi þolenda mansals, sem hafa verið þvinguð út í brotastarfsemi, eða að þróa leiðbeiningar fyrir lögreglumenn og saksóknara sem miða að því að fella niður saksókn í slíkum málum.

Fram kemur í skýrslunni að frá síðustu úttekt GRETA um aðgerðir gegn mansali hefur Ísland haldið áfram að þróa lagaumgjörð til að takast á við mansalsmál og mótað nýja stefnu í aðgerðum gegn mansali. Lagabreyting var gerð á mansalsákvæði almennra hegningarlaga. Nú tekur ákvæðið til fleiri tegunda misnotkunar, í samræmi við fyrri tilmæli nefndarinnar.

„Með þátttöku Íslands í samningnum um aðgerðir gegn mansali hefur Ísland undirgengist reglulegt eftirlit alþjóðlegra eftirlitsaðila með mansali. Á grunni þessarar skýrslu mun ég hrinda af stað vinnu við nýja aðgerðaáætlun til að mæta þeim athugasemdum sem koma fram í skýrslunni og ljúka vinnu við þær aðgerðir sem enn er ólokið í núgildandi áætlun. Þá hyggjast ráðherrar ríkisstjórnarinnar auka samstarf ráðuneyta enda er mansal ekki einkamálefni eins ráðuneytis. Gott samstarf og samvinnu þarf til í baráttunni gegn mansali. Það er viðvarandi verkefni hverrar þjóðar að berjast gegn mansali og mikilvægt að sofna ekki á verðinum,” segir Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra í tilkynningunni.

mbl.is