Ráðuneytið bregst við dómi Brynjars

Kynferðisbrot | 20. febrúar 2024

Ráðuneytið bregst við dómi Brynjars

Dómsmálaráðuneytið hefur óskað eftir tillögum frá réttarfarsnefnd í tengslum við endurskoðun almennra hegningarlaga í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli Brynjars Joensen Creed. 

Ráðuneytið bregst við dómi Brynjars

Kynferðisbrot | 20. febrúar 2024

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjar- og menntamálanefndar.
Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjar- og menntamálanefndar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dómsmálaráðuneytið hefur óskað eftir tillögum frá réttarfarsnefnd í tengslum við endurskoðun almennra hegningarlaga í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli Brynjars Joensen Creed. 

Dómsmálaráðuneytið hefur óskað eftir tillögum frá réttarfarsnefnd í tengslum við endurskoðun almennra hegningarlaga í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli Brynjars Joensen Creed. 

Þetta segir Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjar- og menntamálanefndar, í kjölfar fundar nefndarinnar í morgun þar sem fjallað var um endurskoðun almennra hegningarlaga í kjölfar umrædds dóms. 

Brynjar var dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn fimm stúlkum á grunnskólaaldri. Hæstiréttur féllst þó ekki á að um nauðgun væri að ræða þegar ger­andi og brotaþoli eru stadd­ir fjarri hvor öðrum en það átti við um þrjú af fimm fórn­ar­lömb­um.

Undrandi á dómnum

Í dómi sín­um tek­ur Hæstirétt­ur fram að sú þróun sem orðið hafi, m.a. með auk­inni net­notk­un barna, geri þau ber­skjölduð gagn­vart kyn­ferðis­legri hátt­semi sem unnt er að drýgja á þess­um vett­vangi. Seg­ir svo í for­send­um dóms­ins:

„Þrátt fyr­ir þessa þróun og ótví­ræða skyldu lög­gjaf­ans til að vernda börn gegn hvers kon­ar mis­notk­un, þar á meðal kyn­ferðis­legru, verður ekki með skýr­um hætti ráðið að orðalag 1. mgr. 194. gr. al­mennra hegn­ing­ar­laga [um samþykki til kyn­ferðismaka] og 1. mgr. 202. gr. þeirra [um kyn­ferðismök við barn yngra en 15 ára] end­ur­spegli þá þróun og nái til þeirr­ar hátt­semi að fjar­stadd­ur ger­andi fái ann­an mann, í til­viki brotaþola, barn, til þess að fróa sjálfu sér eða eiga kyn­ferðismök við aðra og fái síðar mynd­skeið sent af því.“

Bryndís segir marga í nefndinni hafa verið undrandi á dóm Hæstaréttar og fundist sem svo að Hæstiréttur væri að beina ákveðnum skilaboðum til löggjafans um að ramma þyrfti tiltekin ákvæði laganna betur inn. 

Í kjölfarið segir hún nefndina hafa ákveðið að fá á fund til sín sérfræðinga á þessu sviði frá dómsmálaráðuneytinu.

Umræddir sérfræðingar mættu á fund nefndarinnar í morgun þar sem þeir voru spurðir hvort vinna væri hafin í ráðuneytinu í kjölfar dómsins.

Fékk allsherjar- og menntamálanefnd þau svör að dómsmálaráðuneytið hefði þegar haft samband við réttarfarsnefnd og óskað eftir tillögum frá henni, að sögn Bryndísar. 

Færasta fólkið í nefndinni

Í ljósi þess segir Bryndís að nefndin hafi tekið ákvörðun um að fylgja eftir því máli og sjá hvað út úr því kæmi.

„Við erum náttúrulega með okkar færasta fólk í réttarfarsnefnd þannig að það er kannski eðlilegra að þau fjalli um það hvort og þá hvernig sé rétt að breyta hegningarlögum til að ná utan um þetta,“ segir Bryndís og bætir við:

„Ég vona að réttarfarsnefnd komi með tillögur til okkar um það hvernig við getum betur verndað börn í svona hryllilegum aðstæðum.“

Spurð hvaða breytingar hún myndi vilja sjá svarar Bryndís að það séu mismunandi nálganir sem gætu verið uppi í þeim efnum. Þegar verið sé að fjalla um hegningarlög sé mikilvægt að stíga varlega til jarðar og því hyggst hún bíða og sjá hvað kemur fram frá sérfræðingum um málið.

mbl.is