„Hann kemur bara og hristir þig“

Eldvirkni á Reykjanesskaga | 27. maí 2022

„Hann kemur bara og hristir þig“

Viðbragðsaðilar eru mjög vel undirbúnir ef eldgos verður á Reykjanesskaga, enda geta þeir byggt á reynslu sinni frá síðasta gosi í Geldingadölum. Þetta segir Bogi Adolfsson, formaður björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík.

„Hann kemur bara og hristir þig“

Eldvirkni á Reykjanesskaga | 27. maí 2022

Bogi Adolfsson hefur starfað lengi sem sjúkraflutningamaður og í björgunarsveitinni.
Bogi Adolfsson hefur starfað lengi sem sjúkraflutningamaður og í björgunarsveitinni. mbl.is/Hákon Pálsson

Viðbragðsaðilar eru mjög vel undirbúnir ef eldgos verður á Reykjanesskaga, enda geta þeir byggt á reynslu sinni frá síðasta gosi í Geldingadölum. Þetta segir Bogi Adolfsson, formaður björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík.

Viðbragðsaðilar eru mjög vel undirbúnir ef eldgos verður á Reykjanesskaga, enda geta þeir byggt á reynslu sinni frá síðasta gosi í Geldingadölum. Þetta segir Bogi Adolfsson, formaður björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík.

„Við erum með þetta í fínum farvegi. Viðbragðsaðilar hafa verið að yfirfara sinn búnað, taka til og græja og gera,“ segir Bogi, spurður út í stöðu mála í ljósi tíðra jarðskjálfta á svæðinu að undanförnu.

Blaðamaður ræddi við hann í vikunni í húsnæði Rauða krossins í Grindavík, en í hinum enda hússins er slökkvilið bæjarins með bækistöðvar. Tæp 18 ár eru liðin síðan Bogi hóf störf í sjúkraflutningum og 22 ár eru liðin síðan hann gekk til liðs við björgunarsveitina. Þar af hefur hann verið formaður síðastliðin 14 ár. Sannkallaður reynslubolti þar á ferð. 

Frá íbúafundi í íþróttahúsi Grindavíkur í síðustu viku vegna jarðskjálftahrinunnar.
Frá íbúafundi í íþróttahúsi Grindavíkur í síðustu viku vegna jarðskjálftahrinunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bogi segir viðbragðsáætlun hafa verið keyrða í um hálft ár vegna eldgossins í Geldingadölum og reynslan sé því fyrir hendi. „Þó að það sé ekki gaman að vera stanslaust í þessu þá er komin gríðarleg reynsla í að vinna svona mál hjá mér, fleiri viðbragðsaðilum og öðrum,“ segir hann og nefnir sömuleiðis almannavarnir ríkisins. „Þetta er í stanslausri vöktun.“

Bogi heldur áfram: „Reynslan sýnir okkur að í eldgosinu síðast þá vall hraunið fram. Við höfum alltaf tíma. Á meðan þetta er ekki eins og í Eyjum [eldgosinu í Heimaey] hef ég ekki miklar áhyggjur. Við getum alltaf unnið þetta mjög vel og það fer stórt batterí í gang. Síðast gekk þetta rosalega vel,“ greinir hann frá en um 2.000 björgunarsveitarmenn komu á Reykjanesskagann þegar eldgosið í Geldingadölum stóð yfir, ásamt lögreglu- og slökkviliðsmönnum.

Björgunarsveitarmenn að störfum skömmu fyrir eldgosið í fyrra.
Björgunarsveitarmenn að störfum skömmu fyrir eldgosið í fyrra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Umræðan vekur óhug hjá sumum

Um þessar mundir er óvissustig á Reykjanesskaga vegna tíðra jarðskjálfta, sem margir hverjir hafa fundist vel í Grindavík. Það stig felur fyrst og fremst í sér eftirlit. Hættustig er næsta stig, til dæmis ef það kemur óróapúls, og eftir það er neyðarstigi lýst yfir ef eitthvað gerist, útskýrir Bogi.

Hann kveðst lítið hafa fundið fyrir jarðskjálftum í Grindavík undanfarið nema um síðustu helgi. Einnig minnist hann jarðskjálftahrinunnar sem fannst vel í bænum í desember. „Þá hoppuðu allar myndir af veggjum hjá mér og annað. Þetta var ekkert líkt því, en ég fann alveg víbringinn. Þetta var góður víbringur.“

Fjallið Þorbjörn við Grindavík.
Fjallið Þorbjörn við Grindavík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Spurður hvort hann sé ekkert orðinn þreyttur á þessum jarðskjálftum segir hann þá farna að venjast, enda komin um tvö ár af þessum ósköpum. Land hefur risið undir fjallinu Þorbirni og telja sérfræðingar að það stafi mestmegnis af kviku. Umræðan um þessar jarðhræringar hefur verið mikil að undanförnu og segir Bogi hana vekja óhug hjá sumum en aðrir séu rólegri í tíðinni.

„Erlent fólk sem er kannski ekki vant þessu, það kippir sér upp við þetta og kannski aðeins meira en meðal Grindvíkingurinn, sem er orðinn þokkalega vanur þessu.“

Með kokteilinn tilbúinn

Bogi segir andrúmsloftið í bænum því almennt vera afslappaðra en fyrir síðasta gos. Sömu spurningarnar séu þó spurðar. Fólk sé forvitið og vilji fá að vita allt það nýjasta. „Fólk er aðeins rólegra en það er inni á milli fólk sem er mjög hrætt við þetta, skiljanlega. Þetta er eitthvað sem þú hefur ekki stjórn á. Þú getur ekki farið í einhverjar mótvægisaðgerðir við jarðskjálfta. Hann kemur bara og hristir þig og bara búið, vonandi,“ bætir Bogi við og hlær.

Getur ekki einmitt verið gott að brosa að þessu líka?

„Jú, það þýðir ekkert annað. Maður verður að hafa húmorinn í lagi. Það liggur við að þetta er þannig að maður þurfi að hafa kokteilinn tilbúinn,“ segir hann brosandi, en samt reiðubúinn til að stökkva af stað ef kallið kemur.

mbl.is