„Þá var alveg ljóst að lengra yrði ekki farið“

Kjaraviðræður | 25. nóvember 2022

„Þá var alveg ljóst að lengra yrði ekki farið“

Útspil Seðlabankans með vaxtahækkun ruddi út þeirri vinnu sem hafði verið unnin við samningaborðið á milli VR og Starfsgreinasambandsins annars vegar og SA hins vegar. Orð fjármálaráðherra í gærmorgun voru ekki útslagið fyrir viðræðuslitum VR, en hjálpuðu lítið og þegar ljóst var að hugmyndir SA töluðu engan veginn inn í hugmyndir VR var ekki annað í stöðunni en að slíta viðræðum og lýsa yfir árangursleysi. Þetta segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í samtali við mbl.is, en hann útilokar ekki verkföll fyrir áramót.

„Þá var alveg ljóst að lengra yrði ekki farið“

Kjaraviðræður | 25. nóvember 2022

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. mbl.is/Sigurður Bogi

Útspil Seðlabankans með vaxtahækkun ruddi út þeirri vinnu sem hafði verið unnin við samningaborðið á milli VR og Starfsgreinasambandsins annars vegar og SA hins vegar. Orð fjármálaráðherra í gærmorgun voru ekki útslagið fyrir viðræðuslitum VR, en hjálpuðu lítið og þegar ljóst var að hugmyndir SA töluðu engan veginn inn í hugmyndir VR var ekki annað í stöðunni en að slíta viðræðum og lýsa yfir árangursleysi. Þetta segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í samtali við mbl.is, en hann útilokar ekki verkföll fyrir áramót.

Útspil Seðlabankans með vaxtahækkun ruddi út þeirri vinnu sem hafði verið unnin við samningaborðið á milli VR og Starfsgreinasambandsins annars vegar og SA hins vegar. Orð fjármálaráðherra í gærmorgun voru ekki útslagið fyrir viðræðuslitum VR, en hjálpuðu lítið og þegar ljóst var að hugmyndir SA töluðu engan veginn inn í hugmyndir VR var ekki annað í stöðunni en að slíta viðræðum og lýsa yfir árangursleysi. Þetta segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í samtali við mbl.is, en hann útilokar ekki verkföll fyrir áramót.

Hann segir félagið hafa viljað fá tryggingu í kjarasamningi um að vaxtakjör fólks á húsnæðismarkaði og verðlag gæti haldist stöðugt yfir samningstímann, en að slíkt hafi ekki verið í boði af hálfu viðsemjanda þeirra og það hafi valdið því að VR sleit viðræðunum.

„Við vorum farin að tala í lausnum en ekki vandamálum“

Þegar mbl.is náði tali af Ragnari Þór var hann að koma af fundi með samninganefnd VR. Hafði hann umboð til að lýsa yfir árangursleysi miðað við ákveðnar forsendur sem gætu teiknast upp og segir hann það hafa raungerst. Segist hann hafa farið yfir þessi mál með samninganefndinni og að algjör einhugur hafi ríkt um ákvörðunina.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, og Kristján Þórður Snæbjarnarson, forseti …
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, og Kristján Þórður Snæbjarnarson, forseti ASÍ, á leið til fundar í Stjórnarráðinu í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Spurður út í forsendur fyrir því að hann ákvað að slíta viðræðunum segir Ragnar Þór að hann geti ekki farið alveg í smáatriðin en að margt hafi áhrif. Vinnan með SGS og SA fyrr í vikunni hafi verið ágæt og nokkuð létt hafi verið orðið yfir mönnum. „Við vorum farin að tala í lausnum en ekki vandamálum,“ segir hann.

Óvænt spil hafi hins vegar komið inn á samningaborðið í vikunni. „Uppleggið var að skoða fjölþættan pakka sem myndi miða að því að vinna að sameiginlegum markmiðum okkar sem væri að ná niður vöxtum og verðbólgu. Útspil Seðlabankans augljóslega ruddi þeirri vinnu út af borðinu í einu vettvangi þar sem við fengum þessa stýrivaxtahækkun inn á mjög viðkvæmum tímapunkti.“

„Þá var alveg ljóst að lengra yrði ekki farið í þessari lotu“

Í framhaldinu voru samningsaðilar kallaðir á fund forsætisráðherra í gærmorgun og segir Ragnar að þar hafi verið reynt að núllstilla hópinn og hugsa fram hjá þessari ákvörðun Seðlabankans. „Við erum varla sest við borðið þegar fjármálaráðherra talar þvert á það sem við vorum að ræða um morguninn. Það var ekki útslag, en allt týndist þetta til og þegar það varð endanlega ljóst og við fengum þær hugmyndir sem Samtök atvinnulífsins höfðu að 14 mánaða samningi þá var alveg ljóst að lengra yrði ekki farið í þessari lotu,“ segir Ragnar Þór.

Vilhjálmur Birgisson, formaður SGS. Sambandið hefur ekki enn tekið ákvörðun …
Vilhjálmur Birgisson, formaður SGS. Sambandið hefur ekki enn tekið ákvörðun um hvort það ætli líka að slíta viðræðum eins og VR. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Markmiðið hafi upphaflega verið að gera langtímasamning þar sem þeim fylgi meiri stöðugleiki, en í ljósi aðstæðna hafi styttri samningur verið í vinnslu. Ragnar Þór segir hins vegar að VR hafi viljað ákveðna útfærslu á slíkum samningi með langtímahagsmuni í huga. „Við vorum að gera atlögu að brú yfir í langtímasamning og þar vorum við að horfa til 14 mánuði. Hugmyndirnar sem SA höfðu inn í slíka vegferð töluðu engan veginn inn í þær hugmyndir sem við höfum. Það snerist ekki bara um krónur og aura.“

Vildu tryggingu fyrir stöðugum vöxtum og verðlagi

Spurður nánar um þessi atriði segir hann að þau hafi mest snúist um hvaða tryggingu félagið og félagsmenn hefðu fyrir því að vaxtakjör fólks á húsnæðismarkaði og verðlag myndi haldast stöðugt yfir samningstímann.

Í frétt Vísis í morgun var sagt að SA hafi boðið launahækkun upp á 17 til 30 þúsund yfir samningstímann og hagvaxtarauka sem væri þó inn í þeirri tölu. Spurður út í þessar tölur segir Ragnar Þór að hann vilji helst ekki fara að gefa upp afstöðu til króna eða aura og hvað hefði nákvæmlega þurft að fylgja með tilboðinu. „Það var samninganefnd VR algjörlega óásættanleg niðurstaða,“ segir hann hins vegar um tilboðið. Spurður hvort að það ætti líka við um umrætt tilboð ef aðilar hefðu getað komið sér saman um vaxta- og verðlagstryggingu segir Ragnar Þór það ekki alveg ljóst. „Í sjálfu sér, ef við horfum á okkar markmið, við gátum ekki gengið að þeim hugmyndum sem SA setti fram, eða þau að okkar. Við gátum ekki speglað okkur áfram í þeirra hugmyndum.“

Ragnar Þór segir grundvallarkröfu VR vera að auka kaupmátt og lækka kostnað til að lifa. „Það þarf ekki annað en að horfa á verðbólguspá fram í tímann til að sjá hvað þarf til að verja kaupmátt millitekjuhópa. Sömuleiðis að vega upp þann kostnaðarauka, vaxtastig, húsaleigu, verðlag og kostnaðarhækkana sveitarfélaga,“ segir hann.

Niðurstaðan líklega sú sama óháð orðum Bjarna

En hver hefði niðurstaðan verið ef ekki hefði komið til útspils Seðlabankans með vaxtahækkun og svo ummæli Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra í gær? „Ég hugsa að við hefðum allavega gefið þessu aðeins meiri tíma en ég hugsa að niðurstaðan hefði orðið sú sama, en við hefðum allavega reynt að halda áfram með þá nálgun sem seðlabankastjóri sópaði út af borðinu með sinni ákvörðun og svo með stuðningi fjármálaráðherra.“

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á peningamálafundi Viðskiptaráðs í gær. Orð hans …
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á peningamálafundi Viðskiptaráðs í gær. Orð hans þar fóru öfugt ofan í verkalýðshreyfinguna, en hann lýsti stuðningi við vaxtabreytingar Seðlabankans. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ragnar Þór segir að nú taki við fundarhöld með baklandinu um næstu skref, en einnig sé beðið eftir því hvað önnur félög ákvæði. Þannig hafi SGS ekki ákveðið að slíta og iðnaðarmenn séu í öðrum viðræðum. „Ætlum að bíða og sjá hvað kemur út úr því en á meðan erum við að undirbúa næstu skref,“ segir hann.

Afkoman bendir til að „hér drjúpi smjör af hverju strái“

Ragnar Þór segir að upplýsa þurfi bæði félagsfólk og almenning um stöðuna í atvinnulífinu og hagkerfinu og VR ætli að gera það á næstunni. „Hvernig staðan er í fjármálakerfinu og hver afkoma bankanna er og hvernig staðreyndirnar rúmast inn í þá orðræðu sem hefur verið í gangi sem hefur snúið að því að hér sé mikil óvissa og látið að því líta að hér gangi allt á afturfótunum. Ef það er einhver sem græðir á þessu ástandi þá er það svo sannarlega ekki launafólk en afkoma fyrirtækja bendir til þess að hér drjúpi smjör af hverju strái.“

Ragnar Þór segist eiga von á að fá boð frá sáttasemjara um fund í næstu viku og að ef eitthvað breytist hjá viðsemjendum sínum standi ekki á honum að koma að borðinu.

Útilokar ekki verkföll fyrir áramót

Þegar viðræðum hefur formlega verið slitið og árangursleysi lýst yfir er fljótlega hægt að fara að undirbúa verkfallsaðgerðir. Spurður hvort að hann útiloki slíkt fyrir áramót segir Ragnar Þór að hann útiloki ekkert í þeim efnum ef frá er talið allsherjarverkföll. Ef gripið verði til aðgerða verði það í formi skæruverkfalla og þá væntanlega í félagi við önnur stéttarfélög.

Efling hefur hingað til verið fyrir utan samflot SGS og VR. Spurður hvort að til greina komi eftir þessar breytingar í nótt að taka upp samflot við Eflingu segir Ragnar Þór að hann útiloki ekkert. Hins vegar hafi hann átt gott samstarf með Starfsgreinasambandinu og horfi til slíks samstarfs eða með iðnarðamönnum. „En allt er opið og ekkert útilokað.“

mbl.is