„Fyrst var ég með mat á heilanum“

Líkamsvirðing | 9. september 2023

„Fyrst var ég með mat á heilanum“

Elísabet Heiður Jóhannesdóttir, næringarfræðingur og næringarinnsæisráðgjafi, hefur þurft að endurhugsa samband sitt við mat og heilsu. Reynsla hennar kveikti áhugann á næringarfræði og í dag hjálpar hún fólki sem á í óheilbrigðu sambandi við mat.

„Fyrst var ég með mat á heilanum“

Líkamsvirðing | 9. september 2023

Elísabet Heiður Jóhannesdóttir hlustar á hungur- og seddumerki.
Elísabet Heiður Jóhannesdóttir hlustar á hungur- og seddumerki. Ljósmynd/Hanna Siv Bjarnardóttir

Elísabet Heiður Jóhannesdóttir, næringarfræðingur og næringarinnsæisráðgjafi, hefur þurft að endurhugsa samband sitt við mat og heilsu. Reynsla hennar kveikti áhugann á næringarfræði og í dag hjálpar hún fólki sem á í óheilbrigðu sambandi við mat.

Elísabet Heiður Jóhannesdóttir, næringarfræðingur og næringarinnsæisráðgjafi, hefur þurft að endurhugsa samband sitt við mat og heilsu. Reynsla hennar kveikti áhugann á næringarfræði og í dag hjálpar hún fólki sem á í óheilbrigðu sambandi við mat.

„Þegar ég var yngri glímdi ég við kvíða sem lýsti sér sem magaóþægindi og ég fór milli lækna og náttúruþerapista þar sem ég var ranglega „greind“ með óþol fyrir hinum og þessum mat en kvíðinn ekki skoðaður. Mér var ráðlagt að forðast fjölda matartegunda og þar byrjaði leit mína að heilsu en hún þróaðist næstum út í þráhyggju. Út af þessu fékk ég mikinn áhuga á því hvernig matur tengist heilsu og sjúkdómum og fór því í næringarfræði í HÍ. Þar lærði ég hvað næringarfræðin er ótrúlega marglaga vísindagrein sem hægt er að horfa á frá mörgum hliðum og að matur er ekki svona svakalega hættulegur eins og ég hélt. Þrátt fyrir mikinn áhuga á næringarfræði var ég lengi að finna mína línu. Ég fann svo að mestur áhuginn lá í hegðun fólks í kringum mat og ástæður þess hvernig mat það borðar. Mig langaði að hjálpa fólki sem glímir við óheilbrigt samband við mat og þegar ég útskrifaðist tók ég þá stefnu af krafti,“ segir Elísabet sem veitir nú ráðgjöf á elisabetheidur.is.

„Fyrst var ég með mat á heilanum og passaði vel að fá allt rétt ofan í mig og þegar það fór ekki eins og ég ætlaði þá fylgdi því mikið samviskubit,“ segir Elísabet sem borðar fjölbreytt fæði í dag. „Ég reyni að hlusta á líkamann og borða það sem mér líður vel af. Ég er lítið í því að borða mat sem mér finnst ekki góður og ég set mér ekki reglur um hversu mikið ég á að borða, heldur hlusta á hungur- og seddumerki. Ég reyni að passa að borða reglulega og ekki stuttu fyrir svefn því þannig líður mér best – ekki af því að það er einhver regla. Ég leita mér innblásturs í Norrænu næringarráðleggingarnar en passa mig að fá ekki þráhyggju yfir því. Auðvitað er þetta ekki alltaf svona og það koma dagar þar sem lífið verður flókið og þá er það bara allt í góðu. Ég þjáist ekki af ofnæmi, óþoli eða einhverjum sjúkdómi, hef ráð á flestum mat sem mig langar í og aðgang að góðum mat hér sem ég bý. Það þarf að taka það fram að ekki búa allir við sömu aðstæður.“

Viðurkennir allar líkamsgerðir

Elísabet hefur líka menntað sig í næringarinnsæi (e. intuitive eating) en nálgunin, sem var þróuð af tveimur næringarfræðingum, fjallar um það hvernig fólk borðar og af hverju frekar en hvað fólk borðar. „Nálgunin hefur þróast eins og allt í næringarfræði í gegnum árin en þetta er þyngdarhlutlaus nálgun sem viðurkennir allar líkamsgerðir. Hún hjálpar fólki að byggja upp heilbrigt samband við mat og líkama og segir að allir geti bætt bæði heilsu og lífsgæði án þess að þurfa alltaf að tengja árangur við þyngdartap eða ákveðið útlit,“ segir Elísabet. Hún segir næringarinnsæi ekki henta öllum en allir ættu að geta tekið mið af aðferðinni. „Með þessari nálgun er næring að sjálfsögðu líka tekin inn í myndina en öll boð og bönn eru tekin út og mið tekið af mismunandi aðstæðum fólks eins og til dæmis efnahag og aðgengi.“

Hvenær getur verið þörf á að endurskoða mataræðið?

„Það geta verið alls konar ástæður fyrir því en til að taka dæmi eftir minni sérhæfingu þá er rétt að staldra við ef viðkomandi upplifir streitu í kringum mat, á erfitt með að borða reglulega, borðar oft yfir sig eða allt of lítið, borðar einhæft, á sér langa megrunarsögu og hefur jafnvel gengið í gegnum miklar þyngdarsveiflur. Þá getur verið þörf á að leita sér hjálpar hjá viðurkenndu fagfólki.

Allir geta grætt á því að huga að mataræðinu því matur og næring er einn þáttur í heilsu og vellíðan. En það þarf að vera raunhæft fyrir viðkomandi og ekki valda streitu og álagi. Það þarf að muna að þetta er bara einn þáttur af mörgum sem ákvarða heilsu og lífsgæði og margir aðrir þættir hafa mun meiri áhrif en maturinn.“

Kúrar skaða til lengri tíma

Hvað finnst þér um kúra sem hafa verið vinsælir að undanförnu eins og ketó, lágkolvetna og fleiri?

„Kúrar koma og fara eins og önnur tískufyrirbrigði og að mínu mati gera þeir oftast meiri skaða en gagn til lengri tíma. Það sem ég sé í mínu starfi er að fólk sem fer á hina ýmsu kúra glímir við óheilbrigðara samband við mat og líkama sinn, upplifir oft miklar þyngdarsveiflur og verri heilsu almennt. Ég mæli ekki með þessum kúrum fyrir minn skjólstæðingahóp en mögulega gæti viss hópur haft gagn af kolvetnaskerðingu undir handleiðslu næringarfræðings í ákveðinn tíma.“

Hvaða kostir felast í að mæla blóðgildi?

„Mér finnst gott að skoða blóðprufur hjá mínum skjólstæðingum á þriggja, sex eða tólf mánaða fresti, allt eftir aðstæðum. En blóðgildi eru bara eitt mælitæki og á alls ekki að horfa eingöngu á þau. Ég mæli með því að fullorðnir fari í blóðprufu um einu sinni á ári eða eftir ráðleggingum læknis. Ég mæli ekki með því að mæla sig að óþörfu, eins og til dæmis að fylgjast með blóðsykri þegar þú ert ekki sykursjúkur, því það getur ýtt undir þráhyggju og valdið streitu sem er ekki góð fyrir neinn.

Ég tek ekki eftir einni ákveðinni tegund af næringarskorti hjá mínu fólki því það fer allt eftir einstaklingnum. Mér finnst meira um að fólk sé með of há gildi vegna mikillar fæðubótarinntöku en mitt mat er að fólk er allt of gjarnt á að eyða peningunum sínum í öll heimsins duft og töflur sem eru oftast óþörf eða jafnvel skaðleg. Embætti landlæknis mælir með því að taka inn D-vítamín og það ættu allir Íslendingar að gera. Síðan er það mjög einstaklingsbundið hvort það þurfi að taka eitthvað fleira.“

Elísabet mælir ekki með megrunarkúrum.
Elísabet mælir ekki með megrunarkúrum. Ljósmynd/Hanna Siv Bjarnardóttir

Prótínduft oftast óþarfi

Algengt er að fólk sem stundar líkamsrækt taki inn prótínduft. Elísabet segir fæsta þurfa á því að halda. „Oftast er prótínduft óþarfi að mínu mati. Meðalmanneskja þarf 0,8 g/kg af prótíni á dag og það næst með fjölbreyttu mataræði. Þótt þú æfir mikið þá geta flestir uppfyllt þörfina fyrir prótín með venjulegu fæði. Sumir hópar gætu nýtt sér aukaprótín í formi fæðubótar, til dæmis fólk með vissa sjúkdóma, þar sem prótínþörf er aukin, sumt afreksíþróttafólk og hrumir aldraðir.“

Finnst þér fólk enn vera að pæla í líkamsgerð og vilja breyta líkama sínum?

„Mér finnst við vera bæði á niðurleið og uppleið. Það finnst svo ótrúlega mikið af rugli á samfélagsmiðlum í dag sem ýtir undir slæma líkamsímynd. Þótt öllum finnist það ekki augljóst þá eru margar stjörnur og áhrifavaldar að sýna efni sem á kannski að vera hvatning en koma inn hjá fólki hugmyndum um óraunhæfa líkamsgerðarstaðla og hugmyndir um það hvernig fólk á að vera og ef að þú ert ekki eins, þá ertu ekki nóg. Dæmi um þetta eru fyrir og eftir myndir, myndskeið þar sem fólk sýnir hvað það borðar yfir daginn, fólk að sýna hvað það er í góðu formi og fleira. Það er verið að selja okkur alls staðar að við þurfum að breyta okkur á einhvern hátt og ná einhverri fullkomnun sem er ekki til.

En eins og ég sagði þá erum við líka á uppleið. Því fólki fjölgar sífellt sem vill hætta að vera óvinur líkama síns og vill læra að sættast við hann og jafnvel elska hann. Þetta snýst ekki um að segja nei við góðri heilsu heldur þvert á móti. Það er hægt að tala um þetta endalaust og þetta hefur svo marga vinkla sem þarf að skoða.“

Hvað á huga þinn þessa dagana?

„Það sem vekur áhuga minn núna er næringarskortur og breytingar í heilanum af hans völdum sem leiða af sér andleg vandamál. Ég hef alltaf verið forvitin um allt sem getur bætt andlega líðan og hef stundað mikla sjálfsvinnu síðastliðin 15 ár. Vinna mín í kringum mat og líkama hefur verið ein sú áhrifaríkasta þegar kemur að andlegri heilsu.“

Ef fólk vill byrja að breyta til í mataræðinu í vetur, hvar ætti það að byrja?

„Fyrsta skrefið er að skoða máltíðarmynstur sitt og passa að næra sig reglulega. Ég sé rosalega marga sem borða lítið fyrripart dags og svo missa þeir sig oft seinnipartinn. Síðan mæli ég með að auka við fjölbreytnina hægt og rólega. Hugsaðu um það hvað þig langar að borða meira af frekar en að einblína á það sem þú vilt borða minna af. Þetta eru fyrstu skrefin og svo má bæta heilbrigðum venjum ofan á þetta.

Fólk er oft mjög ákaft um að breyta um lífsstíl á vissum tímum ársins eða vikunnar og ég vil segja við það fólk að það má gera vel eða betur á hverjum degi. Það þarf ekki að ganga alla leið á mánudegi eða 1. janúar og springa svo strax. Heppilegra er að gera breytingar hægt og rólega þannig þær haldist inni sem heilbrigðar venjur. Og þó að þú gerir eitthvað sem fellur ekki undir þessar breytingar þá þarf það ekki að skemma neitt fyrir þér. Horfðu frekar á hvernig mataræði þitt er í heildina, hvernig er það búið að vera í vikunni til dæmis, frekar en að spá of mikið í hvernig ein og ein máltíð hefur verið,“ segir Elísabet að síðustu.

mbl.is