Reynt að koma norður-írska friðarferlinu af stað á ný

Forsvarsmenn Sinn Féin, þeir Gerry Adams, Alex Maskey og Martin …
Forsvarsmenn Sinn Féin, þeir Gerry Adams, Alex Maskey og Martin McGuinness utan við Downingstræti 10 í Lundúnum eftir að hafa rætt við forsætisráðherra Breta og Íra. AP

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, og Bertie Ahern, forsætisráðherra Írlands, freista þess nú að koma friðarferlinu á Norður-Írlandi af stað á ný. Þeir ræddu í morgun við leiðtoga Sinn Féin, stjórnmálaarms Írska lýðveldishersins, og David Trimble, leiðtoga sambandssinna á Norður-Írlandi en Trimble bakaði sér reiði margra mótmælenda þar í landi með því að mynda heimastjórn, m.a. með þátttöku Sinn Féin. Bresk stjórnvöld vonast til þess að hægt verði að boða til kosninga á Norður-Írlandi í nóvember en þeim kosningum var frestað í maí.

Talsmaður Blair sagði í morgun, að hugsanlegt samkomulag væri sjónmáli, sem gerði kleift að halda kosningar í jákvæðu andrúmslofti.

Trimble sagði við blaðamenn, að hann væri vongóður en samkomulag væri háð því að Írski lýðveldisherinn léti af allri starfsemi og brygðist með raunhæfum hætti við kröfum um afvopnun. Gerry Adams, leiðtogi Sinn Féin, sagði að samningaviðræðurnar væru sameiginlegt verkefni. „Við munum gera okkar besta," sagði hann.

Heimastjórn Norður-Írlands, sem helstu flokkar kaþólikka og mótmælenda áttu aðild að, var leyst upp fyrir ár eftir að lögregla komst á snoðir um um að Írski lýðveldisherinn hefði haldið uppi njósnum um stjórnina og notið aðstoðar embættismanna í Sinn Féin.

Sambandssinnar Ulster, stærsti flokkur mótmælenda á Norður-Írlandi, segist ekki munu endurvekja heimastjórn með aðild Sinn Féin nema Írski lýðveldisherinn lofi að hætta öllum aðgerðum, þar á meðal að þjálfa skæruliða, safna upplýsingum um hugsanleg skotmörk og afvopnast.

Skoðanakannanir á Norður-Írlandi benda til þess að Sinn Féin kunni að fá mest fylgi meðal kaþólikka og verði stærri en Jafnaðarmannaflokkurinn og Verkamannaflokkurinn sem eru flokkar hófsamra kaþólikka. Þá benda kannanir til þess að Lýðræðislegi sambandsflokkurinn, harðlínuflokkur Ians Paisleys, fái meira fylgi en Sambandssinnar Ulsters meðal mótmælenda.

Stjórnmálaskýrendur eru sammála um að ef sú verður niðurstaðan að harðlínuflokkar beggja fylkinga komist í oddaaðstöðu verði mun erfiðara en áður að mynda nýja heimastjórn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka