Barroso: ESB getur tekist á við þennan vanda

Andstæðingar nýrrar stjórnarskrár ESB hafa fagnað í kvöld um allt …
Andstæðingar nýrrar stjórnarskrár ESB hafa fagnað í kvöld um allt Frakkland. AP

José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði í kvöld að hann væri sannfærður um að ESB geti tekist á við þann vanda, sem því fylgir að Frakkar höfnuðu nýrri stjórnarskrá ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu í dag.

„Þegar við þurfum að takast á við erfiðleika ætlumst við til þess að stjórnmálamenn sýni þá staðfestu og víðsýni sem þarf til að standa saman um Evrópu," sagði hann.

Jean-Claude Juncker, forsætisráðherra Lúxemborgar, sem fer með forsæti Evrópusambandsins þetta misserið, sagði í yfirlýsingu að stjórnarskráin væri ekki dautt plagg og staðfestingarferlið muni halda áfram hjá öðrum ESB-ríkjum.

Bæði Juncker og Barroso sögðu að eins og mál stæðu nú kæmi ekki til greina að semja um stjórnarskrána upp á nýtt. Stjórnarskráin, sem nú er verið að fjalla um í ESB-ríkjunum, hefði verið niðurstaða afar erfiðra samningaviðræðna.

Juncker sagði að leiðtogar ESB-ríkjanna muni fjalla um stöðu mála á næsta fundi sínum, sem haldinn verður í júní.

Gert hefur verið ráð fyrir því að stjórnarskráin taki gildi 1. júní á næsta ári en öll ESB-ríkin 25 þurfa að staðfesta hana fyrst, annað hvort í þjóðaratkvæðagreiðslu eða í atkvæðagreiðslu á þjóðþingum. Níu ríki hafa þegar staðfest stjórnarskrána, þar á meðal Þýskaland, Ítalía og Spánn.

Óttast er að úrslit atkvæðagreiðslunnar í Frakklandi í dag leiði til dýpstu kreppu sem Evrópusambandið hefur lent í frá því það var stofnað fyrir 48 árum. Raddir hafa heyrst um, að ef aðrar þjóðir haldi staðfestingarferlinu áfram eins og ekkert hafi í skorist lendi Frakkar í slíkum minnihluta innan ESB að þeir verði að endurmeta afstöðu sína og greiða atkvæði um stjórnarskrána aftur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert