Nýjar vísbendingar um Mladic

Ratko Mladic
Ratko Mladic AP

Serbneski saksóknarinn, Vladimir Vukcevic, segir að nýjar vísbendingar hafi komið fram í leitinni að stríðsglæpamanninum Ratko Mladic. Mladic var yfirhershöfðingja Bosníu-Serba 1992-1995 og hefur sl. 15 ár verið á flótta undan réttvísinni en hann var ákærður fyrir að skipuleggja þjóðarmorð í Srebrenica árið 1995.

Vukcevic, sem fer með yfirumsjón með saksókn í málum tengdum stríðsglæpum, segir í viðtali sem birtist í dagblaðinu Vecernje Novosti í dag að ákveðinn árangur hafi náðst í Belgrad og Arandjelovac en fyrr í mánuðinum voru gerðar húsleitir á þremur stöðum í Belgrad og Arandjelovac. Húsleitirnar tengjast manni sem er talinn vera hluti að stuðningsneti Mladic.

Samkvæmt Vukcevic hefur rannsóknin þokast áfram eftir að serbnesk stjórnvöld settu 10 milljónir evra til höfuðs glæpamanninum. Er talið að handataka Mladic sé lykillinn að inngöngu Serbíu inn í Evrópusambandið.

Fyrir rúmu ári sagði Vukcevic í viðtali við Vecernje Novosti að hann ætti von á því að Mladic verði framseldur til alþjóðlega stríðsglæpadómsstólsins í Haag í Hollandi fyrir árslok (það er síðustu áramót).

„Við vinnum stöðugt að því að ná lokamarkmiðinu, að finna, handtaka og framselja Ratko Mladic og Goran Hadzic til dómsstólsins,"sagði Vukcevic í viðtalinu.

Hadzic, fyrrverandi leiðtogi Króatíu-Serba, er meðal annars ákærður fyrir stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu, s.s. ofsóknir, útrýmingu, pyntingar, brottflutninga og tilefnislausar eyðileggingar. Glæpirnir voru framdir á árunum 1991-95 af serbneskum hermönnum í Króatíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert