Frændinn tekinn af lífi

Frá handtöku Jang Song-Thaek
Frá handtöku Jang Song-Thaek YONHAP

Norður-kóreska ríkisfréttastöðin KCNA birti fréttir í dag um að Jang Song-Thaek, frændi leiðtoga landsins, Kims Jong-Un, hafi verið tekinn af lífi í gær fyrir spillingu og svik eftir stutt herréttarhöld. Var honum gefið að sök að hafa framið þann hræðilega glæp að reyna að „fremja valdarán með afar ógeðfelldum hætti,“ með það fyrir stafni að taka sjálfur við stjórn landsins og Kommúnistaflokksins. 

Enn frekar segir fréttastöðin að hann hafi svikið það mikla traust sem þeir feðgar Kim Jong-Il og núverandi leiðtogi landsins, Kim Jong-Un sýndu honum. Í frétt stöðvarinnar er farið öllum illum orðum um Song-Thaek, en hann á að hafa reynt að koma í veg fyrir að Kim Jong-Un tæki við völdum af föður sínum. 

Handtakan sýnd í sjónvarpi

Fróðir menn um málefni Norður-Kóreu segja að Song-Thaek hafi átt stóran þátt í því að gera Kim Jong-Un að leiðtoga landsins eftir fráfall föður hans, en að hann hafi með tímanum snúist gegn honum. Ríkisfréttastöðin sýndi fyrr í vikunni frá því þegar Jang Song-Thaek var handtekinn á miðjum fundi. Handtakan var afar harkaleg og var hann dreginn úr sæti sínu af tveimur öryggisvörðum. Þá hefur fréttastöðin í vikunni birt stöðugar fréttir af líferni Song-Thaek og honum lýst sem lausgyrtum eiturlyfjafíkli. 

mbl.is

Bloggað um fréttina